Olíunotkun – Kína versus Bandaríkin, sagan
Grein/Linkur: Stóri hikstinn
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Júní 2008
Stóri hikstinn
Menn nota gjarnan gröf eins og það, sem er hér til hliðar, til að skýra hækkandi olíuverð. Það er auðvitað augljóst að eftirspurn Kína eftir olíu hefur aukist hratt síðustu árin. Og margir horfa á svona sætar myndir og segja sem svo: „Augljós fylgni. Það er eftirspurnin í Kína sem hækkar verðið“. Með gáfulegum svip og af miklum alvöruþunga. Ég meðtalinn.
En þá má eins spyrja á mót. Af hverju í ósköpunum hélst verðið hóflegt og þokkalega stabílt þar til allt í einu seint á síðasta ári? Og af hverju hefur olíuverðið undanfarið hækkað hraðar en vöxturinn í Kína?
Hér er líka stöplarit sem sýnir síaukna olíunotkun Kínverja. Barrrasta 400% aukning á 10 árum. Þetta er náttúrulega bara bilun. En í reynd er þetta smotterí. Kína notar ekki nema rúm 9% af olíunni (um 8 milljón tunnur). Meðan Bandaríkjamenn nota 20 milljón tunnur á dag eða 25% af allri olíuframleiðslunni.
Ergo: Vöxturinn í Kína skýrir ekki einn og sér verðhækkanirnar. Þetta er samsull af aukinni eftirspurn, spákaupmennsku, fallandi dollar, markaðsstreitu o.s.frv. Og þó svo olíunotkun Kínverja muni aukast um 50% fram til 2025, eins og margir spá, er það „aðeins“ aukning upp á ca. 4 milljón tunnur. Ég held að þær muni finnast. T.d. á íslenska landgrunninu! En vissulega getur orðið nokkuð dýrt að ná þessari olíu upp á yfirborðið. „We have reached the end of easy oil“ er líklega nokkuð réttur frasi.
Hér til hliðar er enn ein myndin. Sem sýnir hvernig menn sjá fyrir sér síaukna eftirspurn frá Kína. Þetta er kannski besta skýringin á aukinni spákaupmennsku. Því gangi þetta eftir mun olían væntanlega áfram hækka í verði. Sem gerir olíu freistandi fyrir spákaupmenn. En þessi mynd er reyndar hálfgert bull að því leyti að hún gerir ekki ráð fyrir neinum efnahagslegum skakkaföllum.
Ef myndin er óskýr má smella á hana til að fá hana stærri. Hún sýnir hvernig innflutningur Kínverja á olíu eykst en framleiðsla þeirra stendur nánast í stað. M.ö.o. þurfa þeir að kaupa meiri olíu í útlandinu. Og þar með keppa við aðra, t.d. Bandaríkin. Þetta þrýstir verðinu upp.
Ein mikilvægasta regla fjárfesta er auðvitað „what goes up will come down“. Maður bíður spenntur eftir því að kínverska undrið hiksti rækilega. Og eftirspurnin minnki. Tímabundið. Samt sem áður eru það enn Bandaríkin sem eru langstærsti olíuneytandinn og olíuinnflytjandinn. Og það er fyrst og fremst eftirspurnin þaðan og ástandið í bandaríska efanahagslífinu, sem er hinn raunverulegi áhrifavaldur á olíuverðið.