Vatnsleiðsla til Eyja – Milljarður króna, sagan 2008
Grein/Linkur: Ný vatnsleiðsla til Eyja
Höfundur: Sigrún Erna Geirsdóttir
.
.
Júlí 2008
Ný vatnsleiðsla til Eyja
Byrjað var á lagningu nýrrar vatnsleiðslu til Vestmannaeyja í morgun. Leiðslan mun liggja um ellefu kílómetra á sjávarbotni. Er búið að festa annan enda leiðslunnar við land, á Landeyjasandi. Verkinu verður framhaldið klukkan þrjú í nótt.
Áætlað hafði verið að halda áfram með lögnina í átt til Eyja síðdegis í dag, en vegna hafstrauma var því frestað til klukkan þrjú í nótt. Verður lögnin þá komin til Eyja aðra nótt.
Ívar Atlason hjá Hitaveitu Suðurnesja í Vestmannaeyjum sagði allt hafa gengið samkvæmt óskum í dag.
,,Hvenær nákvæmlega vatni verður hleypt á er ekki gott að segja. Þegar lögnin er komin til Eyja á eftir að setja á hana endabúnað. Þá þarf að þrýstiprófa hana og tengja við kerfið. Ætli það verði ekki eins og við höfum alltaf sagt, við verðum búin að hleypa á fyrir þjóðhátíð,“ segir Ívar.
Það er danska fyrirtækið NKT sem framleiðir leiðsluna, en fyrirtækið framleiddi einnig fyrstu vatnsleiðsluna sem lögð var á milli lands og eyja fyrir 40 árum. Auk þess flutti sama flutningaskipið, Henry P. Lading leiðsluna nú og fyrir 40 árum.
Áætlaður kostnaður við verkið er um milljarður króna og ber Hitaveita Suðurnesja kostnaðinn.