Neysluvatn – Er matvara

Grein/Linkur:  Má aldrei gleyma að neysluvatn er matvara

Höfundur:  Haraldur Ingólfsson

Heimild: 

.

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

.

Nóvember 2023

Má aldrei gleyma að neysluvatn er matvara

Akureyri.net hefur undanfarna daga farið yfir stöðuna í hitaveitumálum þar sem Norðurorka stendur frammi fyrir margs konar áskorunum. Nú er komið að kalda vatninu. Staðan þar er reyndar mjög góð, en forvitnilegt engu að síður að fara yfir þau mál.

Kalda vatnið sem Akureyringar nota kemur að miklu leyti úr Hlíðarfjalli, um 85% af kalda vatninu kemur úr Hesjuvallalindum og Sellandslindum. Þó heita vatnið í Vaðlaheiðinni veki ekki vonir um notkun fyrir hitaveitu er þar einnig kalt vatn sem Akureyringar hafa innan seilingar síðar.

Eigum Vaðlaheiðina inni

„Við erum í þokkalega góðum málum þar og sjáum fram á mun betri tíma þegar við náum að virkja Vaðlaheiðina hérna inn á Akureyri, þegar það kemur kalt vatn þaðan. Það mun koma með stígnum sem verið er að leggja meðfram Leiruvegi,“ segir Hörður Hafliði Tryggvason, fagstjóri hita- og vatnsveitu hjá Norðurorku.

Um leið og lagður var stígur frá Vaðlaheiðargöngunum lagði Norðurorka vatnslagnir, bæði fyrir heitt og kalt vatn niður að Skógarböðunum. Með lögninni fyrir kalda vatnið er í raun bara verið að hugsa fram í tímann, nota tækifærið þegar framkvæmdir voru á þessari leið og eiga vatnslögnina til. Akureyrarbær er að leggja göngustíg meðfram Leiruveginum að brúnni yfir Eyjafjarðará og þá notaði Norðurorka tækifærið og kom vatnslögn þar fyrir. Lögnin verður þó ekki tengd strax. Annars vegar er eftir sá hluti sem tilheyrir Eyjafjarðarsveit og hins vegar tengingin í land að vestanverðu til Akureyrar.

Framkvæmdir við göngu- og hjólastíg meðfram Leiruvegi. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Hörður segir að þá sé talsvert verk eftir við innanbæjartengingar. „Við munum ekki tengja kaldavatnslögnina við dreifikerfið við Leirunesti. Þar er engin lögn sem tekur við því, þannig að við þurfum fyrst að ljúka lagnavinnu innanbæjar til að klára tenginguna.“

Hjalti Steinn Gunnarsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Norðurorku, bendir á að á endanum þurfi að tengja þessa lögn alveg upp í Þórunnarstræti. „Til að byrja með getum við tengt hana hjá Höepfner í sæmilegan stofn.“ Framkvæmdir við þá lögn myndu væntanlega tengjast framkvæmdum við Tónatröð neðan við sjúkrahúsið, ef af verður. Þar mun þurfa að leggja fráveitulögn og yrði tækifærið nýtt til að leggja kaldavatnslögn upp og í öflugar stofnlagnir sem þar eru.

Skortur á köldu vatni eða lindum með köldu vatni er því ekki eitthvað sem Norðurorka hefur stórar áhyggjur af í bili. Staðan í þeim málum er góð, svo lengi sem gengið er vel um vatnsverndarsvæðin.

Neysluvatn er matvara

Áskoranir varðandi kalda vatnið eru aðrar en við vinnslu á heitu vatni. Það sem helst gæti ógnað vinnslu á köldu vatni er mengun vatnsbóla og bendir Hjalti Steinn á mikilvægi þess að kalda vatnið sé hreint og ómengað. „Það má aldrei gleyma að neysluvatn er matvara og það yrði stórmál fyrir íbúa og þau fjölmörgu matvælafyrirtæki sem hér starfa ef það kæmi upp mengun í vatnsbólunum, það er bara ekki í boði.“

Verði bílvelta þar sem olía lekur út í jarðveginn, til dæmis í Hörgárdal á grannsvæði borhola í áreyrum Hörgár, skiptir miklu máli að tilkynna um slíkt því einn lítri olíu getur mengað milljón lítra vatns, en tiltölulega einfalt að hreinsa upp mengaðan jarðveg strax eftir slys og koma í veg fyrir slíkt. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Einn lítri olíu mengar milljón lítra vatns

Eins og áður segir þá kemur stærsti hluti kalda vatnsins, á ársgrundvelli, úr Hlíðarfjalli en til viðbótar við það er vatni einnig dælt frá Vöglum, úr holum í áreyrum Hörgár. „Þetta er mjög gott svæði, mjög gott vatn, en það felst töluverð áhætta í því að hafa þjóðveg nr. 1 í gegnum grannsvæðið,“ segir Hörður.

Hörður vísar hér til mengunarhættu vegna bílslysa og hættu á að olía leki ofan í jarðveginn. Einn lítri af olíu getur mengað milljón lítra af vatni. Þess vegna er svo mikilvægt að tilkynnt sé um óhöpp ef þau verða innan vatnsverndarsvæðis þannig að hægt sé að hreinsa burt mengaðan jarðveg strax. Olían er mislengi að skila sér ofan í grunnvatnið og ef einhvern tímann í framtíðinni kæmi fram mengun í kalda vatninu er ómögulegt að segja til um hvaðan hún kemur.

Vatnsverndarsvæðum er skipt í brunnsvæði, þar sem vatninu er safnað saman, grannsvæði, sem er skilgreint út frá rannsóknum jarðfræðinga og getur verið mismunandi stórt eftir eðli jarðvegs og bergs á svæðinu og svo fjarsvæði, sem segja má að sé allt vatnasvið vatnsbólanna. Aðalmálið er samt mikilvægi þess að tilkynnt sé ef mengunaróhapp verður á þessum svæðum þannig að hægt sé að bregðast við áður en skaði hlýst af.

Starfsstöð Norðurorku á mótum Þórunnarstrætis og Mímisvegar. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Það versta er að segja ekki frá

Norðurorka á í góðu samstarfi við Neyðarlínuna og viðbragðsaðila ef hætta er á olíuleka þegar slys verða. Þeir Hjalti Steinn og Hörður sýna blaðamanni mynd þar sem flutningabíll hafði oltið á grannsvæði borholanna að Vöglum. „Þessi mynd er tekin morguninn eftir en þarna er verið að krabba upp möl. Þetta er ekkert flókið, það er bara verið að moka upp olíumengaða jarðveginum áður en farið er í að hirða upp varning. Hann er ónýtur hvort sem er, en við þurfum að passa náttúruna,“ segir Hjalti Steinn og bætir við: „Svo ég segi enn einu sinni, einn lítri, milljón lítrar.“

Það versta sem getur gerst ef það verður óhapp eða slys og olía fer út í jarðveginn er að ekki sé tilkynnt um slíkt. Þegar á allt er litið er nefnilega ekki svo flókið að bjarga málunum ef strax er vitað af slysinu og mengaður jarðvegur fjarlægður áður en meiri skaði hlýst af.

Hjalti Steinn rifjar upp slys þar sem það var einskær heppni að olía fór ekki í jarðveginn. Olíubíll valt inni í Hörgárdal og mikil mildi að ekki lak úr honum olía. Hann segir því ótrúlega gott að eiga Vaðlaheiðina inni þó staðan í kalda vatninu sé ágæt núna og þá verði vatnið að Vöglum mögulega bara til vara í framtíðinni.

Nóg af vatni, en ekki sjálfgefið

Spurningunni um það hvort Akureyringar eigi nóg af köldu vatni svarar Hjalti Steinn játandi, en bendir í leiðinni á að það sé ekki sjálfgefið, það þurfi að hafa fyrir því. Norðurorka hefur fengið í fangið dreifbýlisveitur og sér um kalda vatnið í Hrísey, Grímsey, á Svalbarðsströnd og að hluta í Eyjafjarðarsveit. Þannig má segja að sveitarfélög séu sameinuð í vatni, þó formleg sameining hafi ekki átt sér stað.

Og úr því minnst er á áskoranir við vatnsöflun samsinna þeir báðir, Hjalti Steinn og Hörður, þegar spurt er hvort vatnsveita í Grímsey sé ekki þokkaleg áskorun. „Jú, það er krefjandi verkefni,“ svarar Hörður og Hjalti Steinn bætir við: „Það sem er flókið hér á Akureyri, það er bara ennþá flóknara í Grímsey vegna staðsetningar.“

Fleira áhugavert: