Orkuveita Reykavíkur – Sagan

Grein/Linkur:  Orkuveita Reykjavíkur

Höfundur:  Land og Saga

Heimild:  

.

.

Orkuveita Reykavíkur

Orkuveita Reykjavíkur er ungt fyrirtæki, stofnað 1. janúar 1999.

Á undangengnum öldum nýttu húsmæður í Reykjavík sér jarðhitann í Laugardal til að gera heimilisþvottinn. Í dag eru 99% húsa á höfuðborgarsvæðinu tengd hitaveitu.

Það vílir þó á eldri stoðum og munar þar mest um þrjú veitufyrirtæki Reykjavíkurborgar sem komið var á legg á fyrri hluta síðustu aldar.
Fyrsta og elsta ber að nefna Vatnsveitu Reykjavíkur, sem séð hefur íbúum höfuðstaðarins fyrir fersku neysluvatni frá árinu 1909. Lagning vatnsleiðslu frá Gvendarbrunnum til bæjarins, auk nauðsynlegra miðlunargeyma, var tröllaukiðverkefni og stærsta verklega framkvæmd Íslandssögunnar fram að þeim tíma. Það er því skondið til þess að hugsa að örfáum áratugum áður höfðu bæjarstjórnarmenn setið á rökstólum um hvort samþykkja ætti aukafjárveitingu upp á nokkra tugi nagla til að dytta að aðalvatnspósti Reykjavíkur við Aðalstræti.

Tilkoma vatnsveitunnar skipti sköpum fyrir þróun nútímaborgarsamfélags í Reykjavík.

Ekki aðeins stuðlaði vatnið að bættu heilsufari og styrkti bágbornar brunavarnir, heldur opnaði hún möguleika á margs kyns atvinnustarfsemi. Nægt heilnæmt vatn var t.a.m. forsenda þess að Reykjavík yrði þessi mikli útgerðar- og fiskvinnslustaður sem síðar varð. 

Áratug áður en Reykvíkingar gátu fyrst slökkt þorstann með Gvendarbrunnavatninu góða, höfðu fyrstu rafmagnsljósin verið kveikt í Reykjavík, í húsi Ísafoldarprentsmiðju. Næstu tvo áratugina hvíldi rafvæðing bæjarins á herðum hugvitsamra einstaklinga sem nýttu m.a. mótora á véla- og trésmíðaverkstæðum til að framleiða rafmagn til ljósa fyrir sig og sína. Nokkrar einkareknar rafveitur litu dagsins ljós, en voru flestar smáar í sniðum.
Þegar Rafmagnsveita Reykjavíkur tók loks til starfa árið 1921 með rekstri Elliðaárstöðvarinnar, höfðu Reykvíkingar lært að njóta birtunnar frá rafmagnsljósunum og innan skamms leystu rafmagnsljósin gömlu gasljósastaurana af hólmi. Gasstöð var starfrækt í Reykjavík frá 1910 til 1956, en síðustu áratugina var gasið nær einvörðungu nýtt til eldunar.
Reykvíkingum fjölgaði jafnt og þétt og sífellt bættust við ný og orkufrek rafmagnstæki til heimilisstarfa og atvinnureksturs. Drjúgan hluta tuttugustu aldarinnar er saga Rafmagnsveitunnar saga baráttunnar við orkuskortinn. Sérstakt fyrirtæki í eigu Reykjavíkur og ríkisins var stofnað um byggingu og rekstur virkjana í Soginu og rann það síðar inn í Landsvirkjun.

Hitaveitan var yngst stóru veitufyrirtækjanna þriggja, þótt raunar sé saga jarðvarmanýtingar jafngömul landnámi norrænna manna. Jarðhitasvæðin í Laugardal voru nýtt af íbúum Reykjavíkur frá alda öðli, einkum til þvotta. Undir lok þriðja áratugarins var hafist handa við jarðboranir í Þvottalaugunum, með raforkuframleiðslu í huga. Fljótlega var horfið frá því ráði, en þess í stað ákveðið að freista þess að dæla heitu vatni til bæjarins. Einkum skyldi heita vatnið gagnast þremur stórhýsum sem þá voru fyrirhuguð eða í byggingu: Austurbæjarskólanum, Landsspítalanum og Sundhöllinni.

Þótt Laugaveitan svonefnda frá 1930 væri smá í sniðum, gaf hún svo góða reynslu að farið var að huga að því að hita upp alla Reykjavík með þessum hætti. Fyrstu húsin fengu svo vatn úr Reykjaveitunni ofan úr Mosfellsdal síðla árs 1943. Höfðu hitaveituframkvæmdirnar þá tafist nokkuð vegna heimsstyrjaldarinnar og af öðrum sökum. Heitavatnslögnin frá Reykjum þótti voldugt mannvirki og á sínum tíma talin lengsta heitavatnslögn í heimi. Með heita vatninu losnuðu Reykvíkingar við kolareykinn frá gömlu miðstöðvarkyndingunni sem plagaði bæjarbúa þá sjaldan að ekki bærði vind.
Allar eiga þessar veitur það sameiginlegt að hafa verið stofnaðar til að þjóna íbúum Reykjavíkur, en frá fyrstu tíð sóttust íbúar nágrannasveitarfélaganna eftir því að fá að njóta þessara gæða. Veitufyrirtækin reyndu eftir föngum að verða við þessum óskum. Orkuveita Reykjavíkur hefur viðhaldið þeirri arfleið sinni með því að sækja inn á ný svæði. Starfssvæði fyrirtækisins hefur vaxið mjög á undanförnum árum og viðfangsefnin sömuleiðis orðið fjölbreyttari. Má þar nefna gagnaveitu á sviði upplýsingatækni og fráveitustarfsemi.

Frá síðustu áramótum hefur Orkuveita Reykjavíkur rekið fjarskiptastarfsemi sína í sérstöku hlutafélagi, Gagnaveitu Reykjavíkur. Nú hefur fyrsta sveitarfélagið verið algerlega ljósleiðaravætt en það er Seltjarnarnes.
Ljósleiðari er fullkomnasta gagnaflutningsleið sem þekkt er. Um ljósleiðara er hægt að flytja öll stafræn gögn eins og til dæmis hljóð, myndir og texta á ljóshraða, mesta hraða sem þekktur er. Vísindamenn eru sammála um að í bráð finnist ekki betri tækni og því er litið á ljósleiðaralögn sem langtímafjárfestingu líkt og var gert þegar heimsbyggðin var rafvædd á sínum tíma.

Ljósleiðaranet Gagnaveitu

Reykjavíkur nær þegar um stærstan hluta höfuðborgarsvæðisins, Vesturland og Suðurland og tengist við umheiminn um sæstreng í Vestmannaeyjum. Kerfið hefur verið lagt samhliða öðrum veitulögnum og er þegar í mikilli notkun.
Þá er ljósleiðaranetið í mikilli notkun hjá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum. Við það tengjast bankakerfið í landinu, heilbrigðisstofnanir, háskólastofnanir, grunnskólar, framhaldsskólar og hugbúnaðar- og hátæknifyrirtæki.
Vorið 2005 var hafist handa við að leggja ljósleiðaralagnir til heimila og á næstu 10 árum er áætlað að flest heimili á þjónustusvæði OR verði komin með ljósleiðaratengingu.
Í tengslum við hugmyndir um að setja á stofn netþjónabú hér á landi hefur komið til umræðu að Orkuveitan taki þátt í lagningu nýs sæstrengs sem hefði það hlutverk að auka öryggi gagnaflutninga til landsins og frá því.

Fróðleikur
– Orkuveita Reykjavíkur er sjálfstætt þjónustufyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, Akranesbæjar og Borgarbyggðar.

– Vatnsveita Reykjavíkur tók til starfa 1909 og var þá mesta mannvirki sem Íslendingar höfðu ráðist í. Í júní 1909 var vatni hleypt á lögn frá Elliðaánum til Reykjavíkur en um haustið var leiðslan frá Gvendarbrunnum tekin í notkun.

– Frá árinu 1990 hefur Orkuveita Reykjavíkur að jafnaði gróðursett meira en 22 þúsund plöntur á hverju ári. Árið 2005 hlaut Orkuveita Reykjavíkur Kuðunginn en hann er umhverfisverðlaun Umhverfisráðuneytisins.

– Orkuveita Reykjavíkur keypti Hitaveitu Hveragerðis árið 2004. Hitaveita Hveragerðis er fjórða elsta bæjarhitaveitan og rekur sögu sína til áranna eftir 1940.

– Öll starfsemi Rafveitu Reykjavíkur fluttist til Orkuveitu Reykjavíkur frá og með 1. júlí 2005. Lagnakerfi fráveitunnar er um 800 km langt og stærstu sjáanlegu mannvirkin í Reykjavík eru hreinsistöðvarnar tvær, sjö dælustöðvar og 6-7 minni stöðvar á víð og dreif í kerfinu. Verðmæti þessa fráveitukerfis er metið á um 20 milljarða króna.

Orkuveita Reykjavíkur, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hafa undirritað samkomulag sem felur í sér uppbyggingu á alþjóðlegu framhaldsnámi í orkuvísindum. Orkuveita Reykjavíkur verður bakhjarl námsins, jafnt faglega sem fjárhagslega, en háskólarnir tveir munu skipta með sér verkum við skipulagningu námsins, þjónustu við nemendur, auk þess að leggja til kennara og aðstöðu.

Orkuháskólinn verður kenndur við Orkuveitu Reykjavíkur og kemur til með að heita Reykjavik Energy Graduate School of Sustainable Systems. Stefnt er á að rannsóknatengt meistara- og doktorsnám hefjist haustið 2008.
Aðaláhersla verður lögð á svið þar sem Íslendingar hafa samkeppnisforskot og námið víkkað út eftir því hvar það reynist standa styrkustum fótum. Sérstaða námsins á alþjóðlegum vettvangi felst í mikilli sérþekkingu í nýtingu jarðhita á Íslandi og greiðum aðgangi að vettvangsnámi.
Í orkuháskólanum verður boðið upp á rannsóknartengt meistaraog doktorsnám, auk styttri námsbrauta. Þá verður í boði sí- og endurmenntun fyrir starfsmenn fyrirtækja í orku- og fjármálageiranum og fyrir starfsmenn opinberra stofnana innan lands sem utan.

Elliðaárstöð

Umhverfið er okkar mál
Orkuveita Reykjavíkur er tengiliður milli náttúruauðlinda og samfélaga. Ábyrg stefna gagnvart umhverfinu og samfélögunum eru því grunnþættir í starfsemi fyrirtækisins.
Orkuveita Reykjavíkur og forverar hennar hafa stundað skógrækt allt frá opnun Elliðaárstövarinnar árið 1921. Sá þáttur umhverfisstefnu fyrirtækisins hefur vaxið hröðum skrefum með ræktun og endurbótum lands í Elliðaárdal, í Heiðmörk, á Reynisvatnsheiði, á Hólmsheiði og víðsvegar um Hengilssvæðið, frá Nesjavöllum að Hveradölum.
Frá árinu 1990 hefur Orkuveita Reykjavíkur að jafnaði gróðursett meira en 22 þúsund plöntur á ári. Uppsöfnuð binding koltvísýrings með þessari gróðursetningu nemur tæplega 1.400 tonnum. Það er töluvert meira magn koltvísýrings en fellur til vegna eigin orkunotkunar fyrirtækisins, það er vegna bílaflota, varaafls og kyndistöðvar.
Orkuveita Reykjavíkur var í fararbroddi íslenskra fyrirtækja þegar hún hóf að gefa út árlega umhverfisskýrslu árið 2000 þar sem gerð er ítarleg grein fyrir áhrifum starfseminnar á fjölmarga umhverfisþætti. Orkuveitan hlaut Kuðunginn, umhverfisverðlaun Umhverfisráðuneytisins, árið 2005 og allar veitur fyrirtækisins, sem ná til 20 sveitarfélaga, eru vottaðar út frá umhverfismálum, gæðamálum og öryggismálum.
Orkuveita Reykjavíkur er stolt af sögu sinni á sviði umhverfismála um leið og fyrirtækið leggur áherslu á að stöðugt þarf að gera betur. Aðild Orkuveitu Reykjavíkur að Kolviði er eðlilegt framhald fyrri umsvifa hennar í umhverfismálum og horfir fyrirtækið til þess að nýta verkefnið til að afkola umsvif starfsmanna Orkuveitunnar, hvort sem hún fer fram í vinnutíma eða utan hans.
Vatnsveita Reykjavíkur varð fyrsta vatnsveita á Norðurlöndum til að hljóta vottun samkvæmt ISO 9001 gæðastaðlinum. Vottunin er mikilvæg íslenskum matvælafyrirtækjum og getur orðið þeim til framdráttar á erlendri grund þar sem kröfur um gæðavottað vatn verða sífellt algengari.
Orkuveita Reykjavíkur hefur jafnframt fengið vottun á umhverfisstjórnunarkerfi sínu samkvæmt alþjóðlega umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO 14001 en kerfið er tekið út tvisvar á ári af til þess bærum vottunaraðila.

Elliðaárstöð


Útrásarverkefni Orkuveitunnar  Reykjavik Energy Invest 
Útrás Orkuveitu Reykjavíkur er í raun búin að standa yfir frá því um miðja síðustu öld en loftslagsumræða undanfarinna ára hefur aukið eftirspurn eftir endurnýjanlegum og vistvænum orkugjöfum. Á því sviði hafa Íslendingar verið í fremstu röð allt frá því fyrstu húsin í Reykjavík voru tengd hitaveitu árið 1930.
Sem stendur horfa Íslendingar einkum til þeirra heimshluta þar sem fyrirsjáanlegt er að eftirspurn eftir orku muni aukast á næstu árum og þar sem hægt er að mæta þeirri eftirspurn með nýtingu jarðhitans beint eða til raforkuframleiðslu. Tvö fjölmennustu ríki heims, Kína og Indland, teljast til slíkra svæða. Útrásin nær líka til ríkja sem nú þegar nýta jarðhita en hafa þó ekki jafn mikla reynslu og þekkingu og Íslendingar af rekstri virkjana og veitna. Þar á meðal eru svæði í Austur-Evrópu, Austur-Asíu og víðar.
Orkuveita Reykjavíkur hefur tekið þátt í útrásinni með íslenskum verkfræðistofum áratugum saman. Eftir að loftslagsumræðan fór af stað fyrir alvöru komu íslensk fjármálafyrirtæki að útrásinni og hafa þau verið mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem Íslendingar eru að bjóða á alþjóðavettvangi.
Þekking er þjóðarauður og með útrásinni eru íslensk fyrirtæki að skapa útflutningsverðmæti úr þeirri þekkingu sem þau hafa aflað á heimamarkaði. Orkuveita Reykjavíkur hyggst hér eftir sem hingað til verða í fylkingarbrjósti útrásarfyrirtækjanna og því hefur fyrirtækið ákveðið að leggja allt að tvo milljarða króna í sérstakt dótturfélag um útrásarverkefni – Reykjavik Energy Invest.

Fróðleikur
– Vatnsveita Reykjavíkur varð fyrsta vatnsveita á Norðurlöndum til að hljóta vottun samkvæmt ISO 9001 gæðastaðlinum. Vottunin er mikilvæg íslenskum matvælafyrirtækjum og getur orðið þeim til framdráttar á erlendri grund þar sem kröfur um gæðavottað vatn verða sífellt algengari.

– Búseta manna hefur frá upphafi verið háð aðgengi að vatni. Ingólfur Arnarson, fyrsti landnámsmaður Íslands, er talinn hafa byggt bæ sinn þar sem nú er Aðalstræti í Reykjavík en þar var aðalvatnsból Reykvíkinga frá upphafi byggðar í Reykjavík.

– Um aldamótin síðustu er áætlað að í Reykjavík hafi verið um 34 vatnspóstar og vatnsból.

– Orkuveita Reykjavíkur hefur á stefnuskrá sinni að auka aðgengi almennings að hreinu og ómenguðu vatni með uppsetningu á vatnspóstum, ýmist við göngu- og skokkbrautir á strandlengjunni eða á fjölförnum stöðum.

– Orkuveita Reykjavíkur keypti Hitaveitu Rangæinga árið 2005 en veitan hefur frá upphafi virkjað borholur að Laugalandi. Á árinu 2000 var virkjuð borhola að Kaldárholti í Holtum sem stórbætti rekstrarstöðu og afhendingaröryggi veitunnar.

– Með tilkomu Vatnsveitu Reykjavíkur jókst á skömmum tíma vatnsnotkun í Reykjavík úr 18 lítrum á sólarhring í rúmlega 200 lítra á sólarhring á mann.

Fleira áhugavert: