Hitakerfi – Kalt í sumum herbergjum

Grein/Linkur: Kuldaboli sýnir klærnar

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Mars 1998

Kuldaboli sýnir klærnar

Öllum finnst eðlilegt að láta yfirfara og stilla vél í bíl. En meiri hluti hitakerfa í 20-30 ára gömlum húsum hefur aldrei verið hreinsaður eða endurstilltur. Það er engin furða þó mörgum verði bylt við á þessum milda vetri þegar skyndilega kemur fimbulfrost og norðangarri. Þessi skyndilegu veðrabrigði leiða í ljós marga vankanta á hitakerfum húsa, vankanta sem enginn tók eftir meðan veðráttan lék við okkur eins og á góðu vori.

En af hverju stafa þessir van kantar, af hverju er kalt í sumum herbergjum, þetta á að vera í lagi, er ekki svo?

Ástæðunni fyrir því að ekki er nægur hiti verður líklega best lýst með lítilli dæmisögu.

Ung hjón keyptu þrjátíu ára gamalt hús og fengu pípulagningameistara til verka. Að sjálfsögðu var ákveðið að rífa öll tæki úr baðinu, flísaleggja að nýju og fá ný og falleg hreinlætistæki. Þau sem fyrir voru enda jafngömul húsinu, orðin úr sé gengin og ekki í takt við tímann.

Að sjálfsögðu var farið yfir allar lagnir og meðal þess sem pípulagningameistarinn lagði til að gert yrði var að skipta um alla sjálfvirka ventla á ofnum og stilla hitakerfið. Húseigendur urðu forviða. „Hvað segirðu, skipta um ofnkranana, er þetta ekki Danfoss?“ Vissulega var þetta Danfoss, en þrjátíu ára gamall Danfoss sem aldrei hafði verið litið á og var engan veginn í takt við tímann.

Vanþekking eða sinnuleysi

Það er nú svo með öll mannanna verk að þau eru ekki og verða aldrei fullkomin, ekki einu sinni Danfoss. Þetta er mönnum ljóst á sumum sviðum, öllum finnst eðlilegt að láta yfirfara og stilla vél í bíl svo dæmi sé tekið.

En það eru ótrúlega mörg hitakerfi, já mikill meirihluti hitakerfa, í 20-30 ára gömlum húsum, sem aldrei hefur verið litið á til hreinsunar og endurstillingar.

Það er þessi vanþekking eða sinnuleysi á viðhaldi sem kemur í ljós þegar kuldaboli gamli ræskir sig, svo kannske er koma hans ekki að öllu leyti slæm.

Þó einhver hiti sé á ofni, svo sem nægjanlegur þegar tíðin er eins og verið hefur undanfarið, þá er ekki víst að hann fái þann hita sem þarf til að veita nægjanlegan yl í norðanroki samfara hörkufrosti.

Orsökin getur verið hálfstíflaður ofnkrani, það geta verið stíflaðar eða fastar blöðkur í þrýstijafnara, það geta verið óhreinindi í sigtum á inntaki, það geta verið óhreinindi í hemlum á hitaveituinntakinu.

Allt eru þetta atriði sem eru í sjálfu sér mjög eðlileg, allt breytist með tímanum og ef viðhaldi og eftirliti er ekki sinnt þá gerist þetta.

Allt eru þetta atriði sem er ekki á færi annarra en fagmanna að finna og lagfæra, sumt í verkahring pípulagningamanna, annað í verkahring viðkomandi hitaveitu.

Frosthætta

Það eru magrir sem óttast að það frjósi í leiðslum þegar harður frostakafli kemur og vissulega er ástæða til að óttast það, sérstaklega í eldri húsum og lélega einangruðum. Hættan kann að vera mest í neysluvatnskerfinu, í kranavatnsleiðslunum. Í þeim er vatnið kyrrstætt alla nóttina, oftast nær og janvel allan daginn. Það er svo víða sem enginn er heima nema á morgnana og kvöldin og þessi langa kyrrstaða vatnsins í pípunum kann að skapa frosthættu í lélega einangruðum húsum. Þessi hætta eykst ef miklu frosti fylgir mikill vindur, þá smýgur frostið alls staðar inn þar sem minnsti óþéttleiki er.

Ráðið gegn þessu er að skrúfa sem oftast frá krönum og láta renna, jafnvel að láta örlítið renna stöðugt ef þurfa þykir. Hitakerfin eru ekki eins viðkvæm, með auknum kulda úti eykst þörfin á hita inni og rennslið um hitakerfið eykst.

Sjálfvirkir ofnkranar auka öryggið, rennslið er stöðugt og jafnt en áður var hitastýringin oft einn hitastillir í stofu og einn mótorloki á inntaki. Þá var annaðhvort fullt rennsli inn á hitakerfið eða algjörlega lokað, þá gat stundum verið frosthætta í rörum. Snjóbræðslukerfi eru mjög algeng og varúðar er þörf þar, sérstaklega þar sem hitarennslið til þeirra er eingöngu afrennslið af hitakerfi hússins, ekkert beint rennsli frá mæli. Við slíkar aðstæður hefur geysimikil kólnun orðið á tröppum og plönum áður en þess fer að gæta innanhúss og afrennslið fer að aukast og hitastig þess að hækka.

Til að mæta því við fyrrgreindar aðstæður er skynsamlegt að hækka þó nokkuð stillingu sjálfvirks ventils á einhverjum litlum ofni, svo sem í forstofu og hækka þannig afrennslishitann af hitakerfinu.

Það verður ekki til mikilla fjárútláta, en getur komið í veg fyrir rekstrartruflun á snjóbræðslukerfinu.

Snjóbræðslukerfi eru mjög algeng og þar er varúðar þörf, sérstaklega þar sem hitarennslið til þeirra er eingöngu afrennslið af hitakerfi hússins en ekkert beint rennsli frá mæli.

Fleira áhugavert: