Varmafærlsa – Geislun, lofthreifing, leiðni

Grein/Linkur:  Hvað ertu lengi að keyra til Akureyrar?

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

..

.

Febrúar 2004

Hvað ertu lengi að keyra til Akureyrar?

Sigurður Grétar Guðmundsson  1934-2013

Tveir bíladellukallar deildu harkalega eins og slíkra er von og vísa. Deiluefnið að þessu sinni var heldur einfalt, já mjög einfalt. Hvor væri fljótari að keyra til Akureyrar. Annar sagði túrinn taka fjóra tíma, hinn sagði tvo.

Úr þessu varð heiftúðleg deila sem inn í spannst raup um ágæti eigin bíla og eigin þekkingu á bílum, nema hvað. Að lokum kom í ljós að báðir höfðu rétt fyrir sér, en hvernig gat það staðist? Það var einfalt. Annar átti heima í Reykjavík en hinn á Blönduósi og auðvitað miðuðu báðir við að leggja af stað úr eigin átthögum.

Nýlega var því haldið fram hér í pistli að gamla geislahitunin í lofti og gólfhiti væru gerólík hitakerfi, hitinn frá því fyrrnefnda bærist nær eingöngu með geislun en ekki frá gólfhita, frá því bærist sáralítil geislun.

Sá ágæti tæknifræðingur, Sveinn Áki Sverrisson, sagði í blaðagrein að þetta væri alrangt, 60-70% varmaflutnings frá gólfhita bærist með geislun og þess vegna megi allt eins kalla gólfhitakerfi geislahitun.

Það skondna er að hvorutveggja er rétt.

Sveinn Áki Sverrisson – sjá má hans grein hér að neðan

Örstutt útskýring á því hvernig varmi færist til. Það gerist aðallega á þrennan hátt.

Í fyrsta lagi með geislun. Ótvíræðasti vitnisburðurinn um hitageisla eru geislar sólar, einnig ef setið er fyrir framan arin sem í er opinn eldur.

Í öðru lagi með lofthreyfingu. Allar konur þekkja heita blásturinn frá hárþurrkunni, loftið hitnar við að snerta heita gorma í tækinu og fram kemur heitur loftstraumur. Enginn veit hvað loftsraumurinn var heitur, sem lyfti kjólfaldi Marilyn Monroe á gangstéttinni forðum, en miðað við hennar blíða bros má ætla að hann hafi verið mátulegur.

Í þriðja lagi berst varmi við snertingu tveggja hluta. Það sést best á því að hægt er að sjóða kartöflur í potti sem stendur á heitri hellu. Við snertingu pottsins við helluna streymir varmi eftir föstu efni og hitar vatnið sem kartöflurnar soðna í.

En gerum okkur ljósa grein fyrir hvaða munur er á þessum leiðum varmans, sérstaklega á mun geislunar og lofthreyfingar.

Hitageisli, eins og ljósgeisli, fer alltaf þráðbeina braut, ef eitthvað er sett fyrir hann fer hann ekki lengra, þetta er mikilvægt að hafa í huga í þessari ágætu „deilu“.

Varmi, sem berst með lofti, getur skriðið um öll möguleg skúmaskot, tekið hinar ólíklegustu beygjur, margt getur hindrað hann en hann er seigur og gefst ekki upp.

Þarna kemur fram hinn stóri munur á varma sem berst með geislun og varma sem berst með lofti.

Tveir risar í Evrópu, sem báðir eru frumherjar í framleiðslu á plaströrum og þróun gólfhita, Rehau í Þýskalandi og Wirsbo í Svíþjóð votta að varmi frá gólfhita berst að miklu leyti með geislun. Rehau segir, eins og sést á meðfylgjandi mynd, að flutningur sé 55-70% með geislun. Wirsbo vill ekki fullyrða svo mikið, segir þó að líklega sé þetta til helminga, þó ívið meira með geislun.

En nú kemur rúsínan í pylsuendanum.

Þessar mælingar byggjast á því að herbergið með gólfhitakerfinu sé gjörsamlega autt, þar inni sé ekki svo mikið sem mús! Um leið og einhver búslóð kemur inn, sófi, stóll, borð og stólar, breytist þetta hlutfall.

Um leið og eitthvað er sett fyrir varmageislana fara þeir ekki lengra. En loftið, sem hefur hitnað við snertingu við gólfið, fer um leið að stíga upp. Og það lætur ekkert stoppa sig, það smýgur undan sófanum, undan borðinu og undan stólnum eða hverju sem er.

Það er stígandi loftið sem jafnar hitann í herberginu, það er lofthreyfingin, þessi hæga hreyfing lága hitans sem gerir gólfhitann jafn þægilegan og hann er.

Og eitt að auki. Gleymum ekki kartöflupottinum á plötunni, varmaflutningur með snertingu. Það er svo þægilegt að standa á gólfi sem er með kjörhita fyrir fæturna.

Eigum við að sanna þetta aðeins nánar? Það er glampandi sólskin og allir liggja hálfnaktir úti. Skyndilega hrannast upp ský, það dregur fyrir sólu.

Hvað skeður? Allir hrylla sig, klæðast í föt og jafnvel flýja í hús.

Við sitjum fyrir framan snarkandi arin, það er svo þægilegt að finna varmann skella á sér, að vísu bara á framhliðinni. Allt í einu kemur einhver ugluspegill með stóra gipsplötu og skellir henni milli okkar og arinsins. Hvað skeður? Hitinn hverfur á örskotsstundu, okkur verður jafn kalt á bringunni sem og bakinu.

Myndin frá Rehau segir fleira. Hún segir að varmi frá okkar ágætu panelofnum berist út í rýmið að 17% með geislun en 83% með lofthreyfingu.

En svo kemur sófi fyrir framan ofninn.

Hvað verður um geislunina? Hún hverfur, við erum búin að stöðva hana eins og skýin stöðvuðu geisla sólarinnar.

Því er hægt að fullyrða að þægindi gólfhitans byggjast á því tvennu að loftið, sem hitnar við snertingu við gólfið, jafnar hitann í herberginu betur en nokkurt annað hitakerfi, það er svo lítill munur á hitanum við gólf og loft.

Í öðru lagi varmaflutningur með snertingu, það er svo þægilegt að standa á kjörheitu gólfi.

Geislun kemur þarna lítið við sögu.

.

————————————————————————–

.

Janúar 2004

Gólfhitakerfi eru einnig geislahitunarkerfi ..smella á hlekk

Desember 2003

..Því miður virðist grein Sigurðar Grétar Guðmundssonar úr Lagnafréttum Mbl, mánudaginn 22. desember 2003, ekki vera tiltæk og því ekki aðgengileg hér í gangarunni/sögusafni vatnsiðnaðar.

Fleira áhugavert: