Sjálfseignarstofnun – Danmörk, Eldhugar

Grein/Linkur:  Hamlet í stinningskalda?

Höfundur:  Ketill Sigurjónsson

Heimild:   Orkubloggið

.

.

Hamlet í stinningskalda?

Hamlet_Laertes

Hamlet_Laertes

„Þarna er efinn“. Nú eru rétt tæp tvö ár liðin frá því ég setti fætur niður hér í Danaveldi. Landinu flata þar sem sjaldan sjást sex vindstig. En hýsir eitt öflugasta vindorkufyrirtæki heims.

Fyrstu mánuðina gat maður gengið um sem stjarna, enda voru Íslendingar að gjörsigra danskt viðskiptalíf. Það sögðu a.m.k. íslenskir fjölmiðlar. Fór í Magasin og heilsaði kumpánlega upp á afgreiðslufólkið – af því maður átti jú sjoppuna. Næstum því. Hló að varúðarröddum Danske Bank. En gramdist þær einnig – Danske Bank minnti mann á það þegar Laertes hafði rangt við í skylmingunum við Hamlet og notaði korða með eitri á oddinum. Þetta gat ekki verið annað en einhver fjárans öfund i Danskinum.

Maður hló reyndar ekki bara að Danske Bank, heldur að dönskum fyrirtækjum almennt. Sem aldrei virðast þora að taka neina almennilega áhættu. Og sitja því eftir, meðan íslenskir víkingar hirða gullið. Þess vegna var súrt þegar hlutirnir byrjuðu allt í einu að fara niður á við heima a Klakanum. En nú er von um að Danir fái líka að kenna smávegis á kreppu. Fasteignamarkaðurinn hér er gjörsamlega frosinn og líkur á danskri bankakreppu hafa aukist umtalsvert.

Ég efast þó um að einhver efnahagslegur harmleikur verði hér í Danmörku. Almennt virðast flest stóru fyrirtækin hér standa nokkuð sterk og vera vel í stakk búin að mæta erfiðleikum. Reyndar er eitt við dansk atvinnulíf sem er afar athyglisvert og nánast einstakt í heiminum. Hér eru nefnilega mörg stærstu og öflugustu fyrirtækin að miklu leyti í eigu sjálfseignarstofnana.

lenin_red

lenin_red

Þetta hafa góðir kapítalistar kallað „fé án hirðis“. Hagnaðurinn af rekstri þessara fyrirtækja rennur nefnilega ekki til einstaklinga eða hefðbundinna hluthafa. Heldur fer hann í að styrkja reksturinn enn frekar – eða að greiddur sé út arður til eignarhaldsfélagsins sem er sjálfseignarstofnun. Minnir sumpart á það hvernig Mál og menning var hér Den!

En úr því að enginn hagnast sjálfkrafa af hagnaðinum, ef svo má segja, mætti spyrja hvort fyrirtækin skorti ekki þann hvata sem nauðsynlegur er til að spjara sig í samkeppni nútímans? Hafandi t.d. í huga geggjunina sem almennt ríkir í kringum 3ja mánaða uppgjörin heima á Íslandi og víða um heim. Hvaðan kemur dræfið til að gera vel, hjá fyrirtæki sem eiginlega enginn á?

Sjálfseignarstofnuninni er stýrt af stjórn, sem ráðstafar peningunum (útgreiddum arði) til ýmissa góðra verka. Oft eru þeir gefnir í ýmis konar menningarstarfsemi eða til að styrkja rannsóknir í t.d. heilbrigðisvísindum eða fara í að byggja upp skóla eða sjúkrastofnanir. Ýmist í heimabyggð eða jafnvel í þriðja heiminum.

hamlet-to_be

hamlet-to_be

Þessir sjóðir eru gjarnan afsprengi mikilla eldhuga, sem stofnuðu og byggðu upp viðkomandi fyrirtæki. En í stað þess að láta börnin eða aðra erfingja taka við, settu stofnendurnir upp sjálfseignarsjóð sem skyldi eiga viðkomandi fyrirtæki.

Sum þessara fyrirtækja eru skráð hér á hlutabréfamarkaðnum. Önnur ekki. Skráðu fyrirtækin eru auðvitað ekki að öllu leyti í eigu sjálfseignastofnunar, heldur er þá einhver hluti bréfanna sem gengur kaupum og sölum. Aftur á móti hefur sjálfseignarstofnunin tögl og haldir um það hverjir mynda meirihluta í stjórn viðkomandi fyrirtækis og ráða því sem þau vilja um stefnumótun fyrirtækisins. Um leið er fyrirtækið nánast skothelt gegn fjandsamlegum yfirtökum – sem kann stundum að gera stjórnendurna afar værukæra. Rannsóknir hafa þó sýnt að fyrirtæki í eigu sjálfseignarstofnana eru almennt mjög vel rekin – oftast betur en hefðbundin hlutafélög. Þetta er einfaldlega stórmerkileg og eiginlega illskiljanlegt.

Þetta fyrirkomulag er svona álíka og ef meirihlutinn í Landsbankanum eða Eimskipafélaginu væri i eigu félags sem við getum kallað Thors-sjóðinn. Bara til að nota eitthvað nafn.

Bthor

Bthor

Þessi Thors-sjóður væri ekki í eigu neinna – hvorki einstaklinga né fyrirtækja. Hann væri algerlega sjálfstæður og starfaði skv. stofnsamningi, þar sem m.a. væri kveðið á um tilgang hans og hlutverk (að styrkja góð málefni). Í sjóðstjórninni sætu þeir sem upphaflegur eigandi hlutabréfanna i áðurnefndum félögum ákvað í upphafi. Líklega einhverjir úr hópi afkomenda hans, þekktir einstaklingar úr atvinnulífinu, prófessorar, fólk úr menningarlífinu o.s.frv. Í tímans rás væru hugsanlega einhverjir af þeim látnir eða hefðu dregið sig í hlé. Í stað þeirri hefði sjóðsstjórnin ákveðið að bjóða öðrum setu í stjórninni, t.d. Björk eða Kára Stefáns. Eða þér, lesandi góður. Sjóðurinn væri og yrði máttarstólpi í íslensku samfélagi um ókomin ár, áratugi og aldir. Þannig virkar þetta hér í Danmörku.

Eldhuginn sem ákvað að stofna sjálfseignarstofnun um eign sína í félaginu hefur um leið tekið einhvern hluta af eigin fé félagsins, eða smáræði af hlutabréfunum, og látið afkomendur sína fá þau. Til að tryggja þeim þokkalega öruggan fjárhag. Auðvitað er misjafnt hversu mikill hluti fyrirtækisins hefur verið skráður á sjálfseignarstofnunina og hversu mikið afkomendurinir fá. En oft er það stærstur hlutinn, sem rennur til sjálfseignarstofnunarinnar.

Ástæður þess að þetta form er svo algengt hér í Danmörku eru óljósar. Þetta þekkist líka t.d. í Svíþjóð, Noregi og Þýskalandi, en er miklu algengara hér í Danmörku. Leitt hefur verið líkum að því að ástæðurnar séu einkum tvær (eða þrjár). Annars vegar óhagstæðar skattareglur þegar hlutafé fer á milli kynslóða. Hins vegar (og að það sé meginástæðan) að það sé afar sterkt í danskri þjóðarsál að auðmenn láti gott af sér leiða. Og það almennilega  – en ekki bara einhvern tittlingaskít til einhverrar mæðrastyrksnefndar eða álíka. Þriðja ástæðan fyrir þessu gæti svo einfaldlega verið að koma í veg fyrir að afkomendurnir sólundi auðnum og sigli öllu í strand. Eins og stundum vill gerast.

Carlsberg_bottle2

Carlsberg_bottle

Dæmi um svona sjóði er t.d. Mærsk-sjóðurinn frá 1946 (fer með meiruhlutann í risafyrirtækinu AP Möller Mærsk), Carlsbergsjóðurinn (á 51% í Carlsberg), Danfoss-sjóðurinn (á 85% í Danfoss), Grundfos-sjóðurinn (á um 85% í Grundfos) og Novo-sjóðurinn (á 26% í Novo Nordisk en fer með 71% atkvæðanna).

Loks vill Orkubloggið nefna þann danska sjóð sem er einn sá alsterkasti en reynar fáir vita af. Enda er sá sjóður hvað mest low profile af þeim öllum hér í Danaveldi. Það er VKR-sjóðurinn, kenndur við stofnandann; prestsoninn Villum Kann Rasmussen frá hinni vindbörðu vesturströnd Jótlands. VKR á m.a. Velux gluggafyrirtækið og fjölmörg fyrirtæki um allan heim, ekki síst í fyrirtæki sem framleiða sólarsellur. Danir eru nefnilega bæði stórir leikendur á sviði vindorku og sólarorku.

En nú er eg orðinn þyrstur og held ég fái mér einn ískaldan Carlsberg. Ekki verra að vita, að hagnaðurinn af flöskunni fer minnstur í lúxusjeppa hjá einhverjum hluthöfum. Heldur miklu fremur í lyfjarannsóknir og vatnsból í Afríku. Skál fyrir því!

Fleira áhugavert: