Vatnið, stórkostlegt – Auka þarf þekkingu

Grein/Linkur:  Vatnið er stórkostlegur vökvi

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:  

.

.

Mars 1995

Vatnið er stórkostlegur vökvi

Þekking á íslenzka vatninu þarf að aukast hjá öllum lagnamönnum. Þar gildir einu, hvort það er heitt eða kalt, á hátíðum og tyllidögum er það sjálfsögð skylda landsfeðra að mæra íslenska náttúru, sérdeilis þó hreina loftið og heimsins besta vatn. Allt er þetta gott og blessað, þó ekki sé allt sem sýnist. Við öndum að okkur hreinu lofti oftast nær; það er helst í suðaustan hitabylgju frá V-Evrópu sem við sjáum óhreinindi í loftinu, ógeðfellda verksmiðju- og iðnaðarmengun. Áburðarverksmiðjan sendir stundum á köldum stilludögum gult ský út yfir Faxaflóa, þó sagt sé að að búið sé að koma í veg fyrir þetta fyrir löngu.

Víðast hvar eigum við íslendingar kost á hreinu köldu vatni til drykkjar og matargerðar, en það er þó ekki algilt. Heita vatnið er ómetanlegur fjársjóður, sem við munum tæpast eftir, ekki einu sinni á hátiðisdögum, svo sjálfsagt er heita vatnið fastar í minni þeirra, sem ekki njóta þess, þeir gera sér betri grein fyrir þægindunum og hreinlætinu, sem meirihluti landsmanna nýtur.

Vatn í mismunandi formi

Við þekkjum vatnið best og notum það mest í fljótandi formi, þegar það er 0 – 100 gráðu heitt. Undir 0 gráðunni er það í föstu eða frosnu formi og hefur geysimikla þýðingu fyrir fiskveiðiþjóð eins og okkur; yfir 100 gráður breytist það í gas sem við köllum gufu eða eim. Sá eiginleiki lék stórt hlutverk við upphaf iðnbyltingarinnar, gufuvélin var fram á miðja öldina hreyfiafl svo margs. Í upphafi þessarar aldar var sú vél svo sjálfsögð í skipum að ekki kom annað til greina, þegar Íslendingar stofnuðu sitt fyrsta skipafélag og eignuðust sín fyrstu millilandaskip frá því á söguöld, en að nefna það Eimskipafélag Íslands og það er nafnið enn þó enga eigi það eimvélina..

Okkur finnst sjálfsagt að við sjáum ætíð vatnið; ís og snjór hafa ekki farið fram hjá neinum á þessum vetri, hafið byltist við strendur og ár renna til sjávar, gufa stígur upp af hverum. En vatnið er allstaðar, það er í andrúmsloftinu þó við sjáum það ekki, það er samt þar , sem betur fer en mismunandi mikið.

Öll eru þessi fræði þó svolítið á skjön við sig sjálf, þannig er ekki alltaf gefið að vatn breytist í gufu við 100 gráður, það fer eftir undir hvaða þrýstingi vatnið er. Hitaveita Reykjavíkur dælir upp vatni sem er hátt í 200 gráðu heitt en heldur því undir þrýstingi og þvingar það þar með til að vera í fljótandi formi eins og það var í iðrum jarðar. Vatnið getur einnig gufað upp undir 0 gráðunni, það má hengja út þvott til þerris þó frostið sé allt að 10 gráður og þvotturinn þornar, eitthvað verður um bleytuna.

Hversvegna þolum við meiri hita í þurrgufubaði, sem nú eru víða í heimahúsum, en í blautgufubaði, en eitt þekktasta blautgufubaðið er á Laugarvatni. Skýringin er einföld; í blautgufubaðinu þröngvar gufan sér að og inn í kroppinn og færir með sér hita, en þurrgufubaðið örvar svita til að streyma út úr líkamanum og það heldur líkamshitanum niðri. Ef við hinsvegar skvettum vatni á heita steinana í þurrgufubaðinu eykst rakinn og við finnum fyrir mikilli hitaaukningu, en ef horft er á hitamælinn hefur hann ekki haggast, hitinn er sá sami.

Þekking á vatni

En þetta hefur aðra hlið, sem snýr að öllum sem fást við vatnslagnir hvort sem er fyrir heitt eða kalt vatn. Íslenska vatnið er ekki aðeins íslenskt vatn. Vatnið úr þessari lind á þessu landsvæði kann að vera allt öðruvísi samansett en borholuvatnið á öðrum stað. Meira að segja er samsetning heitavatnsins á höfuðborgarsvæðinu ekki alltaf sú sama; það fer eftir því hvaðan það kemur. Er það úr Mosfellsbæ, er það úr Laugardalnum eða er það úr Þingvallavatni, hitað upp á Nesjavöllum?

Smátt og smátt hefur það verið að seytla inn í vitund lagnamanna að þeir þurfa að stórauka þekkingu sína á íslenska vatninu. Það er sama við hvaða jötu þeir starfa, hjá hinu opinbera, hjá veitukerfunum, við hönnun, sem pípulagningamenn. Eftir innihaldi vatnsins á að velja lagnaefni. Sem dæmi má nefna að efni, sem finnast í hluta af heita vatninu á höfuðborgarsvæðinu, geta verið skaðleg eirrörum, en vinna gegn súrefnisupptöku plaströra.

Sú var tíðin að allar lagnir voru snittuð járnrör, ýmist svört eða galvanhúðuð. En það er til vatn, sem verður með öllu ódrykkjarhæft ef það er leitt eftir galvanhúðuðum járnrörum; á einum stað er þetta lagnaefni ónothæft en sjálfsagt á öðrum.

Það ber allt að sama brunni; þekkingin þarf að aukast hjá öllum lagnamönnum á íslenska vatninu, hvort sem það er heitt eða kalt.

ÞAÐ er ekki sama hvaða lagnaefni er valið.

Fleira áhugavert: