Ólafsfjörður neysluvatn – Geislatæki, mengun 2017
Grein/Linkur: Kaupa geislatæki til að ráða bót á mengun
Höfundur: Jón Þór Kristjánsson
.
.
Október 2017
Kaupa geislatæki til að ráða bót á mengun
Sýni sem voru tekin úr vatnsveitu Ólafsfjarðar í gær benda til þess að enn sé mengun í vatninu. Ákveðið hefur verið að kaupa tæki til þess að geisla vatnið og ná þannig varanlegri lausn. Í bili er íbúum áfram ráðlagt að sjóða neysluvatn.
Mengunin gerði fyrst vart við sig þann 5. október síðastliðinn. Sýni innihéldu E. coli gerla og var Ólafsfirðingum ráðlagt að sjóða neysluvatn. Miklar rigningar gerðu það að verkum að yfirborðsvatn komst í vatnsbólið í Brimnesdal, sem talið er að hafi orsakað mengunina. Strax var hafist handa við að einangra vatnsbólið og hreinsa vatnsveituna.
Kólígerlar í litlu magni
Síðan hafa reglulega verið tekin sýni, síðast í gær, sem benda til að mengunin sé enn til staðar. Hún er þó mun minni en í síðustu viku, enda mældust engir E. coli gerlar, heldur einungis kólígerlar í litlu magni. Talið er að þeir séu skaðlausir, en óæskilegir. Þvi er öllum íbúum áfram ráðlagt að sjóða allt neysluvatn.
Geislatæki hreinsar vatnið
Ármann Sigurðsson, deildarstjóri tæknideildar Fjallabyggðar, segir í samtali við fréttastofu að ákveðið hafi verið að fjárfesta í geislatæki til þess að hreinsa vatnið sem kemur úr Brimnesdal. Slík tæki eru yfirleitt notuð í vatnsveitum þar sem síað yfirborðsvatn er notað. Alla jafna er ekki talin þörf á að geisla lindarvatn, eins og í Ólafsfirði, en í ljósi þess hve erfitt hefur reynst að uppræta mengunina er talið brýnt að koma slíkum búnaði upp. Ástæðan er sú að yfirborðsvatn virðist enn komast í vatnsbólið í Brimnesdal.
Kostar 5-6 milljónir
Á morgun verður óskað eftir tilboðum í tækið, en ekkert slíkt er til á landinu og því gæti tekið tíma að útvega það. Þegar það er komið til Ólafsfjarðar gæti tekið um tvo daga að koma því í notkun. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er 5-6 milljónir og því þurfa bæjaryfirvöld að samþykkja viðauka við fjárhagsáætlun til þess að ráða bót á vandanum.