Seyra Árnessýslu – Nýtt til landgræðslu, sagan 2016

Grein/Linkur: Seyran græðir upp afréttinn

Höfundur: Samúel Örn Erlingsson,  RUV

Heimild:

.

Mynd: Hannibal Kjartansson – RÚV

.

Febrúar 2016

Seyran græðir upp afréttinn

Mestöll seyra úr uppsveitum Árnessýslu verður á næstu árum nýtt til landgræðslu á afréttum. Fimm sveitarfélög hafa tekið saman höndum um þetta í samkomulagi við Landgræðslu ríkisins og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Seyran er nú þegar blönduð með kalki og síðan borin á landið. Blöndunarstöð hefur þegar verið tekin í notkun í nágrenni Flúða.

Það er á hendi sveitarfélaga að farga þeirri seyru sem til fellur. Í Hrunamannahreppi er aðeins þar til gert hreinsikerfi á Flúðum. Annars þarf að tæma rotþrær og flytja seyruna burt og hingað til hefur hún verið keyrð í Álfsnes í Reykjavík til förgunar, með tilheyrandi kostnaði. Á fjórða þúsund manns býr í uppsveitum Árnessýslu. Megnið af seyru á svæðinu fer í rotþrær við býli og sumarbústaði. Bústaðirnir eru geysimargir, alls er í Árnessýslu á áttunda þúsund sumarbústaða, góður helmingur sumarhúsa í landinu. Flestir þeirra eru á þessu svæði, í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Hrunamannahreppi. Framtakið byggir á frumkvæði Hrunamanna sem hófu að fella niður seyru á afmörkuðu svæði á afréttinum.

„Góður árangur“

„Við byrjuðum á þessu tilraunaverkefni í samstarfi við Landgræðslu ríkisins fyrir góðum tveimur árum“., segir Ragnar Magnússon oddviti Hrunamanna. Hrunamenn lögðu seyruna í rásir, um tíu sentimetra ofan í jarðveginn í lokaðri Landgræðslugirðingu. Ragnar segir að árangurinn sé góður.  „Þetta hefur eflt gróðurinn. Við gerðum tilraun á því að setja bæði grasfræ með að hluta til og síðan ekki. Og það er í raun og veru ótrúlega lítill munur á því hvort það er sett grasfræ eða ekki, því það er greinilega heilmikið líf í jarðveginum ef hann fær smá bætiefni með“. Samkomulag sveitarfélagana fimm og Landgræðslunnar felur í sér að seyrunni verði safnað á einn stað, meðhöndluð samkvæmt reglugerð þar um og blönduð kalki.

Þekkt og margreynd aðferð

Ragnar segir að blöndun seyru og kalks sé þekkt aðferð víða erlendis. „Við fórum til Færeyja og skoðuðum hvernig heimamenn gera þetta þar. Okkur leist gríðarlega vel á þetta. Við sáum þar að við getum slegið tvær flugur í einu höggi, að hætta að flytja seyruna til Reykjavíkur og nýta hana frekar á til uppgræðslu á okkar svæði. Með því að blanda kalki við seyruna á ákveðinn hátt drepst allt sem lifandi í seyrunni. Þannig getum við dreift henni á yfirborð innan landgræðslugirðingar. Við stefnum að því að keyra þetta inn á afrétt hjá okkur og eins fer eitthvað inn á Haukadalsheiði“.

Blöndunarstöð tekin til starfa

Sveitarfélögin fimm létu smíða fyrir sig blandara í Danmörku sem nú blandar seyru og kalk í blöndunarstöð nokkru fyrir ofan Flúðir. Búið að blanda töluverðan áburð, sem er tilbúinn til dreifingar i vor. Ragnar telur að árangurinn verði ekki síðri en fyrr, enda kalk yfirleitt bætandi efni í íslenskan jarðveg. Verkefnið kostar, en sparar líka önnur útgjöld. „Það er ekki stórkostlegur munur á kostnaðinum við þetta. Þetta er svona innan marka bara.  Þetta er nátturlega miklu nátturuvænna, minni flutningskostnaður og það náttúrlega mengar minna. Og gott að geta grætt upp hrjóstrugt land í leiðinni“.

Fleira áhugavert: