Gólfhiti – Margir kostir, þekkt lausn

Heimild:

.

Október 1995

Hvers vegna ekki gólfhiti?

Hitakerfi í gólfi hefur marga kosti. Gólfhiti er ekki nýjung því Rómverjar notuðu bæði heitt loft og heitt vatn til að hita gólf í hýbýlum sínum.

Gólfhiti er ein af mörgum tegundum hitakerfa, sem byggjast á heitu vatni sem varmagjafa, þó er það ekki eingöngu vatnið sem flytur varmann; að lokum tekur loftið við honum og færir hann til okkar, hvort sem í húsinu er gólfhiti, ofnakerfi eða önnur vatnshitakerfi.

Vatn hefur lengi verið notað sem hitaberi og þau stærstu vatnshitakerfin eru ekki gjörð af manna völdum, nærtækast er að hugsa til hitakerfisins, sem heldur lífi í mönnum og skepnum hérlendis, Golfstraumsins.

Gólfhiti er heldur engin nýjung, Rómverjar notuðu bæði heitt loft og heitt vatn til að hita gólf í hýbýlum sínum.

En hvað er það þá við gólfhitann sem gerir hann eftirsóknarverðan?

Lítum á nokkur atriði.

1. Gólfhiti er lághitakerfi, hiti vatnsins fer yfirleitt ekki upp fyrir 45 gráður, því lægri hiti sem er á hitakerfinu því minna hitatap þar sem um beina leiðni er að ræða því þó veggir og gólf séu vel einangruð verður alltaf eitthvert hitatap. Það má líkja hitastreyminu út úr hússkrokknum við rennandi vatn í skurði; því meiri sem hallinn er því hraðari verður straumurinn, því meiri munur á hitastigi á vatninu í hitakerfinu og hitastiginu úti, því meira hitatap.

2. Hitanemi líkamans er í fótunum, það getur þú sannreynt í heita pottinum, farðu í heitasta pottinn, hitinn er nánast óbærilegur, en hvað gerist ef þú lyftir fótunum upp úr vatninu?

Hitinn verður miklu bærilegri, nákvæmasti hitanemi líkamans, fæturnir, skynja ekki lengur hita vatnsins.

Og það er ekki út í hött að segja að í húsnæði með gólfhita er hægt að hafa hitastigið nokkru lægra, en þar sem önnur hitakerfi eru notuð. Þetta kemur til af því að heitasti flöturinn, gólfið, er við hitanemana, fæturna, hitinn verður miklu jafnari í rýminu, það er ekki svo mikill munur á hita við gólf og loft, ekki eins mikill munur og við önnur hitakerfi.

Semsagt, lægri hitakostnaður.

3. Gólfhitinn getur nýtt hita, sem önnur hitakerfi ráða ekki við, Sums staðar hérlendis eru volgrur, þar sem umtalsvert af vatni seytlar stöðugt upp á yfirborðið svona 20-40 stiga heitt.

Slíkt vatn er erfitt að nýta til upphitunar í ofnakerfum, en getur verið kjörið í gólfhita.

Í hverskonar byggingar

Fram til þessa hefur gólfhiti aðallega verið notaður í stærri byggingar, iðnaðarhúsnæði og þó nokkrar kirkjur, en minna í íbúðarhúsnæði.

Lítum nánar á atvinnuhúsnæði, t.d. flugskýli eða verkstæði fyrir stórar vinnuvélar.

Þegar flugvél eða skurðgrafa er færð í eða úr húsi þarf að opna stórar dyr, víðar og háar, þetta verður að gera hvernig sem viðrar og á hvaða árstíma sem er. Það er óhjákvæmilegt að hitatap verður mikið og fyrst eftir að dyrum hefur verið lokað er kalt í húsinu og það sem verra er; það liggur kalt loftteppi á gólfinu og teygir sig nokkuð upp á við, svosem eins og eina mannhæð, einmitt þar sem starfsmennirnir eru.

En sé hitakerfið í gólfinu vinnur það fljótt á gólfkuldanum, fljótar en nokkurt annað hitakerfi, tvímælalaust til hagræðis starfsmönnum og til verndunar heilsunni.

Það fer ekki mikið fyrir gólfhitakerfi, þú sérð það ekki, finnur aðeins fyrir þægilegum áhrifum þess.

En það er margs að gæta við hönnun og lögn gólfhitakerfis, yfirborðshiti gólfsins á ekki að fara upp fyrir 28 gráður því þá fara „hitanemarnir “ að mótmæla, „við viljum ekki standa á svona heitum fleti“. Það er hægt að nota gólfhita þó parkett sé á gólfum eða teppi, en taka verður tillit til þess í upphafi.

Það er hins vegar spurning hvort kötturinn fæst til að fara út, það er svo þægilegt að liggja malandi á gólfinu.

Fleira áhugavert: