Evrópa, saga – Orkuframleiðni 2008
Grein/Linkur: كيب خليل … og olíuvandræði Evrópu
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Júlí 2008
شكيب خليل … og olíuvandræði Evrópu
Eins og við John Bogle hjá Vanguard höfum alltaf sagt: „Nobody knows nuthin!“
Í Júlí 2008 birtust fréttir um að Alsírmaðurinn Chakib Khelil spáir því að olían fari niður i 80 USD tunnan. Skemmtilegt. Því varla er mánuður siðan þessi sami ljúflingur spáði olíuverðinu i 150-170 USD. T.d. sagði Bloomberg fréttaveitan svona frá þessu þann 29. júlí:
„President Chakib Khelil predicted that the price of oil will climb to $170 a barrel before the end of the year“.
Þetta er óneitanlega athyglisvert. Því Khelil er hvorki Ketill né hver sem er. Ekki aldeilis. Og svo heitir hann reyndar ekki Chakib Khelil, heldur شكيب خليل !
Khelil er forseti OPEC og því nánast æðsti páfinn í olíubransanum. Þetta væri svona álíka og hinn hreini sveinn suður í Vatíkaninu í Róm, breytti um skoðun á ágæti aflátsbréfa á ca. mánaðarfresti. En svona er nú olíumarkaðurinn bara skemmtilega óútreiknanlegur. 80 dollarar eða 160 dollarar? Who cares? And nobody knows nuthin!
Undanfarið hefur Orkubloggið beint athyglinni að orkuvandræðum Evrópu. Í dag ætlar bloggið aðeins að skoða hvaðan Evrópa fær olíuna sína.
Sem fyrr, segir mynd meira en 1000 orð. Og myndin hér til hliðar skýrir sig sjálf (smella á hana til að fá stærri). Aðalatriði er að olíubirgðir innan lögsögu Evrópusambandsins fara hratt minnkandi. Þannig að innflutningur frá löndum utan ESB eykst.
Það getur verið svolítið ruglingslegt að skoða þróun á olíuneyslu ESB. Vegna þess að bandalagið hefur t.d. verið að stækka. Einnig ber að hafa í huga að þegar talað er um olíunotkun og olíuframleiðslu ESB, er Noregur stundum talinn þar með. Þó svo Noregur sé jú ekki í sambandinu – frekar en Ísland. Í reynd er aðeins einn stór olíuframleiðandi innan ESB. Það er Bretland, sem framleiðir u.þ.b. 1,8 milljón tunnur á dag (meðan Norðmenn framleiða hátt i 3 milljón tunnur). Olíuframleiðsla Breta fer hratt minnkandi. Norðmenn kunna að geta aukið framleiðslu sýna á ný, með því að flytja vinnsluna norðar. En Bretland er einfaldlega hnignandi sem olíuframleiðsluríki.
Önnur helstu olíuframleiðsluríki innan EB eru Danmörk (ca. 300 þúsund tunnur á dag), Ítalía (ca. 150 þúsund), Þýskaland (ca. 150 þúsund), Rúmenía (ca. 120 þúsund tunnur) og Holland og Frakkland (hvort um sig með ca. 75 þúsund tunnur). Nokkur önnur Evrópuríki framleiða olíu, en í það litlu magni að það skiptir litlu, eða öllu heldur engu máli, í heildar samhenginu.
Orkubloggið hefur áður nefnt hversu ESB er háð Rússum um gas. Um helmingur af gasinnflutningi ESB kemur frá Rússlandi (hinn helmingurinn að mestu frá Noregi og Alsír). Aftur á móti fær ESB stærstan hluta af olíunni frá Mið-Austurlöndum.
Í dag nota þjóðirnar innan ESB (EES löndin meðtalinn) um 15 milljónir tunna af olíu á dag (til samanburðar má nefna að Bandaríkin nota rúmlega 20 milljón tunnur á dag). Eins og sjá má af tölunum hér ofar, um olíuframleiðsluna innan Evrópu, er framleiðslan þar sáralítil miðað við notkunina eða einungis um 15-20%. Álfan er því mjög háð innflutningi á olíu.
Af þessum 15 milljón tunnum sem ESB notar, flytur sambandið um 85% inn. Eftir ca. 20 ár verður þetta hlutfall líklega 90%. M.ö.o. þarf Evrópa bráðum að flytja inn nánast alla olíuna sem íbúar þar nota.
Hátt hlutfall innfluttar olíu hefur hrjáð Evrópu talsvert lengi. Þetta ástand hefur hvatt Evrópuríkin til þess að nýta aðra orkugjafa. Þessi þróun mun halda áfram. En þrátt fyrir það hversu Evrópa er háð innfluttri olíu, held ég að það sé ekki stórkostlegt áhyggjuefni. Það eru ýmis tækifæri fyrir hendi.
Engu að síður er nú komið að ákveðnum vatnaskilum. Evrópa þarf að gera það upp við sig, hvort hún vill kasta sér í orkufaðm Rússa eða horfa til N-Afríku. Auðvitað verður reynt að halda sem flestum leiðum opnum og nýta alla möguleika í einu. En stóra spurningin er samt: Hvor kosturinn er álitlegri?
Ég veðja á að innan fárra áratuga muni umtalsverður hluti af allri rafmagnsnotkun Evrópu koma frá sólarorkuverum í ríkjunum allt í kringum Miðjarðarhaf. Ekki síst frá N-Afríku. Sólarorkuverin taka nefnilega talsvert pláss og landverðið er miklu lægra sunnan Miðjarðarhafs, heldur en Evrópumegin. Þess vegna er N-Afríka góður kostur fyrir sólarorkuver.
Já – orkuveldi framtíðarinnar mun rísa á rústum Rómaveldis. Enn á ný verða löndin kringum Miðjarðarhaf í brennidepli. Og í þetta sinn í orðsins fyllstu merkingu. Meira um sólarorkuna og brennidepilstæknina síðar.