Snjóbræðsla – Gervigrasvellir

Grein/Linkur:  Skammsýni eða slæm ráðgjöf?

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:

.

snjobraedsla

Ásvöllur Hafnarfirði 2016 – Mynd Vatnsvirkinn

.

Október 2006

Skammsýni eða slæm ráðgjöf?

Holskefla prófkjöra gengur yfir landið, nánast allir stjórnmálaflokkar efna til prófkjöra í flestum kjördæmum. Áður fyrr komu mikilúðlegir karlar saman á lokuðum fundum, stilltu upp á lista, lögðu fyrir fámenna fundi þar sem búið var að undirbúa jarðveginn vandlega og allt samþykkt. Það kom fyrir að einn og einn maður var með múður, en þaggað var niður í slíkum kónum allsnarlega. Það eru nú nær fjörutíu ár síðan prófkjör voru tekin upp hérlendis sem leið til að velja frambjóðendur og ekki annað sýnna en prófkjörin muni halda velli. Þó eru flestir sammála um að þau séu gallað form, en svo sé um allar aðferðir til að velja frambjóðendur á lista.

Meðal þeirra sem sendu frá sér ályktun á þessum viðkvæmu prófkjörstímum voru Ungir jafnaðarmenn á Suðurlandi. En hér kvað við annan tón en prófkjörstón, áhugamál þeirra voru ekki flokkspólitísk. Þeir sendu Bæjarstjórn Árborgar ákveðna ályktun, sem var svohljóðandi:

„Við, í Ungum jafnaðarmönnum á Suðurlandi, mótmælum þeirri fyrirhuguðu ákvörðun bæjaryfirvalda Árborgar að hita ekki upp nýja gervigrasvöllinn á Selfossi nú í vetur. Án upphitunar er hætta á að þessi mikilvæga fjárfesting verði fyrir frostskemmdum og mun þar að auki hafa gífurlega heftandi áhrif á starf knattspyrnufélaganna á svæðinu, bæði meistaraflokka og yngri flokka sem og það góða starf sem nú er unnið í Knattspyrnuakademíu Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Ekki er hægt að skýla sér á bak við þau mistök fyrri meirihluta að upphitun vallarins hafi ekki verið á fjárhagsáætlun ársins 2006 því nú er ábyrgðin hjá nýjum meirihluta og skorum við á hann að leiðrétta þessi mistök sem fyrst.“

Svo mörg voru orð Ungra jafnaðarmanna á Suðurlandi.

Gevigrasvellir eru mjög víða í byggingu og því ekki úr vegi að skoða nánar þessa ábendingu unga fólksins á Suðurlandi. Það kostar talsvert að byggja gervigrasvöll en það er alltaf afstætt hvort eitthvað er dýrt eða ekki. Eflaust eru margir sem sjá ofsjónum yfir þeim fjármunum sem varið er í íþróttamannvirki. En við skulum ekki staldra við það, fullyrða má að það sé þjóðarsátt um að kosta þar miklu til, íþróttaiðkun ungmenna er mjög mikil og flestir því sammála að hún hafi mikil jákvæð áhrif á þroska og framtíð ungmenna landsins.

.

gervigrasvollur

Íþróttavöllur Þorlákshöfn

.

En aftur að gervigrasvöllum og því sem í ályktun Ungra jafnaðarmanna stendur. Út frá þeim fullyrðingum, sem þar koma fram, hlýtur sú spurning að vakna hvort það sé ekki óskynsamlegt að fara ekki alla leiðina og verja til þessara valla því sem til þarf; í fyrsta lagi að ending þeirra verði sem mest og í öðru lagi að notagildi þeirra verði sem best.

Það er ekki nokkur vafi á því að gervigras mun endast mun verr sé ekki hitalögn í vellinum. Það gefur auga leið að álag á frosnu gervigrasi slítur því miklu meira en þegar það er ófrosið. Oft kemur sú tíð á Suðurlandi, og víðar á landi hér, að það er snjólaust, oft rigning og þar á eftir frost. Þetta er það veðurfar sem skapar hálku, bleytan á götum og hvarvetna á jörð frýs, einnig á gervigrasi. En það er enginn snjór og ekkert sem hindrar notkun vallanna. Þá er ekki vafi á að álagið á gervigrasið er margfalt á við það ef það er algjörlega ófrosið og vatn hefur náð að hripa niður í jarðveginn.

Þess vegna má ætla með rökum að þessi sparnaður í stofnkostnaði stytti líftíma gervigrassins umtalsvert. Þar við bætist að þeir dagar kunna að vera þó nokkuð margir sem ekki er hægt að nota völlinn vegna þess að á honum er snjór, það snjóar á Suðurlandi eins og í öðrum landshlutum.

En hvað um rekstrarkostnað, yrði hann ekki þungur baggi?

Vissulega er talsverður rekstrarkostnaður því fylgjandi að reka snjóbræðslukerfi, hvort sem það er í gervigrasvelli eða annars staðar. En því miður virðast sveitarfélög fá óyfirvegaða ráðgjöf um rekstrarkostnað. Kostnaður er áætlaður út frá því hve varmaþörfin er mikil til að halda vellinum frostfríum. Það má miða við 150-300 vött á fermetra svo við gefum okkur eitthvert viðmið, þá er reiknað út frá því að kerfið þurfi alltaf hámarkshitun. En þannig á alls ekki að áætla varmaþörfina, það er hægt að beita snjóbræðslukerfinu á miklu orkuvænni hátt. Benda má á það að jafnvel er hægt að þola það að völlurinn teppist vegna snjókomu nokkra daga og jafnvel verði að moka snjó af honum. En þá kemur notagildi snjóbræðslukerfisins í ljós, undir snjónum er ekki frosið og hált yfirborð heldur er þar í fyrstu blautt yfirborð sem jafnar sig á mjög skömmum tíma. Ef ekkert hitakerfi væri í vellinum væri hann frosinn, flugháll og búast mætti við skemmdum á gervigrasinu ef hann væri notaður við slíkar aðstæður.

Ráðgjöf er ekki alltaf jafn yfirveguð og hún ætti að vera, þannig var það hjá nágrönnum Selfyssinga í Þorlákshöfn. Þar var byggður gervigrasvöllur og tæknilegir ráðgjafar áætluðu að það mundi kosta 3-4 milljónir að reka snjóbræðslukerfið á vetri. Sveitarstjórn ákvað því að sleppa því að hita völlinn og lét fylgja með að það snjóaði ekki í Þorlákshöfn meir en að hámarki 6 daga á vetri. Snjódagarnir hafa undanfarna vetur reynst fleiri. En hvað ráðgjöfina varðar þá er miklu nær að áætla að rekstrarkostnaður kerfisins hefði ekki orðið nema 10% af því sem ráðgjafarnir áætluðu, það sem þurfti að kosta til í rekstri var rafmagnskostnaður í dælum. Þannig háttar nefnilega til í Þorlákshöfn að við hliðina á gervigrasvellinum er grunnskóli þorpsins, íþróttahúsið og sundlaugin. Það má því áætla að afrennsli af hitakerfum þessara stóru bygginga, sem líklega eru mörg þúsund rúmmetra að stærð, hefði nægt fyllilega til að hita upp gervigrasvöllinn.

Sveitarstjórn var raunar bent á þetta í tíma en hún hafði sína ráðgjafa og treysti þeim betur en óbreyttum þorpsbúa þó eitthvað þættist hann vita í varmafræðum.

Og því munu gervigrasvellirnir á Selfossi og í Þorlákshöfn endast mun skemur en ella og nýting þeirra verður mun minni vegna vöntunar á snjóbræðslukerfi.

Ályktun Ungra jafnaðarmanna á Suðurlandi á fyllilega rétt á sér.

Fleira áhugavert: