Er hitareikningurinn hár – Af hverju?
Grein/Linkur: Háir hitareikningar en kalt í húsinu
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Mars 1996
Háir hitareikningar en kalt í húsinu
Rennslisstillingin má ekki gleymast. Hver ofn á að fá það vatn í gegnum sig, sem hann ræður við að nýta eða kæla.
Getur þetta gengið upp að það sé kalt í húsinu en hitareikningarnir þó háir?
Því miður er þetta ótrúlega algengt á höfuðborgarsvæðinu, vatnseyðslan mikil en hitinn lélegur. Þannig getur ástandið verið ár eftir ár en þrátt fyrir það situr fólk heima í stofu við ónógan hita og borgar hitareikningana með ólund.
Ekki nema von að ólund geri vart við sig, en hvað veldur? Er þetta hitaveitunni að kenna, mælir hún vatnsmagnið ekki rétt?
Rétt mælt en vitlaust gefið innanhúss
Í hnotskurn er vandinn innanhúss og það verður að ráða bót á honum þar. Það er vitlaust gefið þannig að vatnið steymir inn í gegnum mælinn og fer út aftur auðveldustu leiðina eins og vatn gerir alltaf.
Hver hefur ekki í leik í æsku reynt að stífla lækjarsprænu með sandi eða mold, þegar stíflan er fullgerð hækkar vatnsborðið og brýst í gegn þar sem mótstaðan er minnst. Það er nákvæmlega þetta sem gerist í hitakerfinu þar sem ástandið er „háir reikningar/lélegur hiti“. Í litla ofninum er mótstaðan minnst, í stóra ofninum í stofunni er hún mest, litli ofninn er sá staður í „stíflunni“ sem fyrst gefur eftir og þar streymir vatnið í gegn, eftir situr sá hluti „stíflunnar“ sem er stóri ofninn, hann fær engan eða lítinn hluta af vatninu í gegnum sig.
Þessvegna er kalt í stofunni þegar sjóðheitt er í forstofu, forstofusalerni, í göngum, geymslum eða kjöllurum. Þar er frárennslið frá ofninum, neðri leiðslan næstum jafnheit og innrennslið, efri leiðslan. Á meðan sitja þú og þínir hundfúlir í stofunni og vita ekkert af þeirri sóun sem á sér stað annars staðar í húsinu.
Það má líkja þessu við að kaupa sér flösku af eðal rauðvíni, njóta þess niður fyrir axlir og hella afganginum í vaskinn.
Örstutt námskeið
Það er geysilega mikilvægt að hver húseigandi hafi nokkurn skilning á því hvað er að gerast, hann verður að geta leitað sér aðstoðar og verður að vera þess umkominn að geta skilið hvað sá sem kemur á vettvang segir og gerir.
Það eru til tvennskonar sjálfvirkir ofnkranar, retúrlokar sem hafa verið í ótrúlegu uppáhaldi fagmanna á Íslandi en hvergi annars staðar og eru á neðri leiðslu ofnsins, hinsvegar túrlokar sem eru á efri leiðslu ofnsins.
Retúrlokinn stjórnast eingöngu af hitastigi vatnsins sem rennur út af ofninum, en túrlokinn stjórnast af hitastigi loftsins í herberginu.
Það er ekki nóg að setja vandaða, fullkomna loka á alla ofna og láta þá opna og loka fyrir vatnið eftir þörfum, sá sem setur upp lokann verður að fullkomna sitt verk.
Það má ekki gleyma innri föstu stillingunni sem er gerð í upphafi í eitt skipti fyrir öll. Það er rennslisstillingin sem má ekki gleymast, að stilla rennslið inn á hvern ofn miðað við stærð hans og stærð þess rýmis sem á að hita, lögmálið er: hver ofn á að fá það vatn í gegnum sig sem hann ræður við að nýta eða kæla.
Í öllum nýrri gerðum af túrlokum er nákvæmur búnaður til þessarar stillingar, en það verður hins vegar að nota hann til að árangur náist. Í eldri lokum er hann ekki en líklega er kominn tími til að endurnýja þá og látirðu framkvæma það áttu kröfu á að allir ventlar verði rennslisstilltir, vatnið látið renna í gegnum alla ofna í einu dágóðan tíma og síðan mælt með nákvæmum hitamæli að útrennsli frá öllum ofnum sé svipað. Síðan þarf að stilla innrennslið á mælagrind, að það sé hæfilega mikið.
Ef þetta er gert getur þú notað hitastillana á hverjum ofni, fengið það hitastig í hvert rými sem þú óskar en samt verið viss um að það er ekki verið að sóa heitu vatni, varminn er kreistur úr því eins og mögulegt er.
Þá er eðal rauðvíninu ekki lengur hellt í vaskinn.