Þakrennur – Snjógrindur

Grein/Linkur: Þakrennur þarf víða að endurnýja

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

September 1997

Þakrennur þarf víða að endurnýja

Rennur á húsum eru víða í megnum ólestri. Margir virðast blindir fyrir því, að vatn og snjór, sem sest á þök, geta valdið skaða.

ÞAÐ er ekki svo langt síðan að allar þakrennur voru gerðar úr galvaniseruðu blikki, þess vegna varð smíði og uppsetning á þakrennum í verkahring blikksmiða og svo er enn þó efnisvalið hafi breyst.

Á heldri manna húsum voru þó stundum settar rennur og niðurföll úr eir, eða hjá þeim sem efni höfðu á svo dýru efni. Rennur úr áli komu svo til sögunnar en í dag er það plastið sem hefur tekið forystuna, fjöldaframleidd og innflutt rennukerfi eru algengust, hægt er að púsla saman rennum og niðurföllum á tiltölulega einfaldan hátt en engan veginn án þess að hafa sérþekkingu á því hvernig halli skal vera eða hvernig rennur eiga að vera uppsettar til að þær skili sínu hlutverki.

Það er ótrúlegt hvað rennur eru víða í megnasta ólestri og hvað margir virðast blindir fyrir því að vatn og snjór, sem sest á þök, geta valdið skaða.

Hvað segir byggingareglugerð?

Hún er ekki margorð um rennur en þar eru samt ákvæði sem vert er að skoða. Á bls. 123 stendur m.a.:

„Á þökum skulu jafnan vera þakrennur úr vönduðu efni s.s. áli, plasti, galvaniseruðu járni eða kopar. Þær skulu þannig hannaðar og gerðar að ekki sé hætta á að þær fyllist af krapi og klaka og valdi flóði undir þakklæðningu í leysingu.

Niðurföll, sem ganga út í gegnum útvegg eða niður úr þaki, skulu þannig hönnuð að gerð, að ekki sé hætta á að þau stíflist af krapi eða klakamyndun.

Niðurföll inni í húsi skulu þannig hönnuð að gerð að ekki komi til rakaþéttingar við þau. Þakvatn skal leitt í holræsi.“

Það er full ástæða til að staldra við síðustu setninguna, „Þakvatn skal leitt í holræsi“, því á þessu er mikill brestur í eldri hverfum flestra bæja hérlendis. Hver hefur ekki séð vatn fossa í rigningartíð úr þakniðurfalli á gangstétt og stundum má þakka fyrir ef rennan nær svo langt niður, neðsti hlutinn kannski horfinn vegna tæringar.

Það getur verið erfiðleikum bundið að ráða bót á þessu en það er ótvírætt að húseigandi er skyldur til þess, auðvitað með tilstyrk sveitarfélagsins sem vísar honum á hvert hann geti leitt vatnið.

Ef húseigendur vilja bæta úr eða nágrannar þrýsta á um úrbætur eiga þeir að leita til tæknideilda sinna sveitarfélaga, í Reykjavík til Gatnamálastjóra, byggingafulltrúum kemur málið einnig við.

Hættur

Slæmum frágangi á þakrennum geta fylgt hættur, ekki síst í eldri, þéttbýlum hverfum þar sem hús standa við gangstéttar, sem stundum eru fjölfarnar. Allir þekkja hina umhleypingasömu íslensku veðráttu, hellirigning veldur vatnsflóði á gangstétt þar sem þakniðurfall er ekki tengt niðurfalli en síðan kólnar skyndilega og það kemur frost. Þetta getur valdið hálku eða hálkublettum á gangstéttinni.

Grýlukerti á þakskeggjum eru stórhættuleg, en af hverju verða þau til? Það er yfirleitt ekki nema á eldri húsum sem þau myndast og það er vegna hita en ekki kulda, eða réttara sagt þar sem hiti og kuldi mætast vegna lélegrar einangrunar á efstu plötu. Þar út berst hiti sem veldur bráðnun á snjó sem síðan frýs aftur og þá myndast grýlukerti.

Bætt einangrun er því oft besta lausnin. Bratt þak á húsi, sem stendur við gangstétt, getur skapað hættu ef þar nær að festa snjó, við ákveðin skilyrði getur snjórinn skriðið af stað og niður á gangstéttina fellur mikið, já hættulega mikið, magn af snjó.

Því hlýtur sú spurning að vakna hversvegna snjógrindur, sem hamla snjóskriði, eru nær óþekktar hérlendis. Víða erlendis þykja slíkar snjógrindur sjálfsögð öryggistæki og svo vel vill til að í Byggingareglugerð er ákvæði sem gefur bygginganefndum vald til að fyrirskipa slíkt.

ÖLL hús þurfa þakrennur og þakniðurföll í einhverri mynd.

Fleira áhugavert: