Garðar Karlsson fjallar um sölu jarðarinnar Hlíðarenda í Ölfusi:
„Ég tel engan vafa á því og allir ráðgjafar mínir eru mér sammála um að jörðin muni margfaldast í verði á næstu fimm árum eins og hún hefur gert á síðustu fimm árum. Hver ætlar að svara fyrir söluna þá?“

ENN og aftur hefur það gerst í Ölfusi að stórar og miklar ákvarðanir sem ráða miklu um framtíðarheill sveitarfélagsins og skipta einstaklinga miklu máli eru teknar á bak við luktar dyr, án nokkurrar umræðu og svo rammt kveður að því að jafnvel bæjarstjórnin veit ekki af þessu fyrr en búið er að ganga frá málum.

„Sala ekki á dagskrá“

Á fundi með eldri borgurum rétt fyrir kosningar var bæjarstjórinn Ólafur Áki Ragnarsson spurður að því hvort til stæði að selja jörðina Hlíðarenda. Svar hans var stutt og laggott, skýrt og einarðlegt: „Slíkt er ekki á dagskrá.“ Skömmu síðar, eftir kosningar, er búið að ganga frá sölu Hlíðarenda fyrir litlar 100 miljónir og fyrirtækið sem keypti búið að leggja veg og ræsi yfir vatnslindinni og byrjað að bora. Allir sem hafa staðið að verklegum framkvæmdum vita að nokkurn fyrirvara þarf þegar ráðist er í slík stórverkefni. „Við skulum hinkra, strákar, fram yfir kosningar“ gætu þeir hafa sagt hver við annan mennirnir hjá vatnssölufyrirtækinu og bæjarstjórinn, ég er nýbúinn að segja að „þetta sé ekki á dagskrá“.

Einkaleyfi

Sömu daga, fyrir kosningar, var bæjarstjórinn að ganga frá einkaleyfi þessa fyrirtækis á vatnslindum Þorlákshafnarjarðarinnar. Í uppkasti að þeim samningi sem bæjarstjórinn kom með á fund var gert ráð fyrir því að einkaleyfið næði til Hlíðarendajarðarinnar líka. Þessu mótmæltu bæði Hjörleifur Brynjólfsson oddviti og Baldur Kristjánsson prestur. Samningurinn undanskildi því Hlíðarenda. Þá hefur hugmyndin um að kaupa Hlíðarenda fyrir slikk vaknað. Þegar þeir væru báðir hættir í bæjarstjórn Baldur og Hjörleifur.

Kaupa fyrir slikk

Og þeir kaupa Hlíðarenda fyrir slikk (og halda samt líka vatnsréttindum á allri Þorlákshafnarjörðinni, eða hvað?). Fyrir 100 milljónir sem greiðast eftir fimm ár(!!). Bæjarstjórinn segir í viðtali við héraðsfréttablaðið Gluggann að hann hafi fengið tvo ráðgjafa til að meta jörðina. Annar hafi nefnt töluna 60 milljónir, hinn 120 milljónir „svo við fórum milliveginn“ segir bæjarstjórinn. Með leyfi að spyrja. Hvaða ráðgjafar voru þetta? Hvaða kálfur mat jörðina á sextíu milljónir sem greiðist eftir fimm ár? Sá hefur líklega verið fóðraður á undanrennu! Það var verið að selja jörð í Grímsnesinu á 235 milljónir? Hlíðarendi er 1544 hektarar. Þetta er risaflæmi á dýrasta parti Íslands. Ótakmarkaðar vatnslindir bæði heitar og kaldar. Eftir fimm ár má leikandi fá milljarð fyrir þetta land. Í dag er enginn vandi að fá 2-300 miljónir fyrir þetta land. Sennilega er hér um að ræða stærstu afglöp í sögu sveitarfélagsins Ölfuss.

Glymjandi hlátur kaupendanna

Til viðbótar þessu má nefna að bæjarstjóri sagði okkur að gatnagerðargjöld og önnur gjöld fyrir vatnsverksmiðjuna á Hafnarsandi yrðu 50-75 miljónir króna. Drögum það frá jarðarverðinu og heyrum glymjandi hlátur kaupendanna sem huga vel að hag síns fyrirtækis svo sem eðlilegt er. Okkar hagur hefði verið sá að leigja þeim spildu úr Hlíðarenda fyrst þeir vildu fara þangað og fá árlegar greiðslur.Krossarnir voru ekki þornaðir á atkvæðaseðlunum þegar fyrirtækið var búið að leggja ræsi og leggja veg yfir vatnslindina upp í hlíðina og byrjað að bora. Þurfti ekkert mat, þurfti ekki leyfi, þurfti enga athugun? Og hvað gerðist? Greinilega hefur raskið haft áhrif á lindina, vatnsborðið í tjörninni fyrir framan húsið lækkaði við þetta um a.m.k. tíu sentimetra. Þeir hafa m.ö.o. spillt sinni eigin vatnslind. Vatnslind sem við héldum þegar við kusum að myndi tilheyra okkur ásamt allri þeirri náttúruparadís sem Hlíðarendajörðin er.

Lokaorð

Málið er tvíþætt. Annars vegar leyndin sem var yfir málinu. Við viljum ekkert reka sveitarfélag þar sem menn þegja fram yfir kosningar og láta ekki uppskátt um fyrirætlanir sínar. Stór og góð mál þola umræðu. Vond mál þola illa dagsljós. Hins vegar það að selja þessa náttúruperlu okkar Ölfusinga á spottprís. Ég tel engan vafa á því og allir ráðgjafar mínir eru mér sammála um að jörðin muni margfaldast í verði á næstu fimm árum eins og hún hefur gert á síðustu fimm árum. Hver ætlar að svara fyrir söluna þá?

Höfundur er frístundabóndi og býr í Þorlákshöfn.

.


.

.

Maí 2011

Skuldum breytt í hlutafé og jörð veðsett fyrir milljarð

Hluta af skuldum vatnsfyrirtækis Jóns Ólafssonar hefur verið breytt í hlutafé. Þá hafa erlendir auðkýfingar sem eru vinir hans keypt hlut í fyrirtækinu. Jón keypti jörð undir vatnsverksmiðju sína með hundrað milljóna króna kúluláni frá sveitarfélaginu Ölfusi.

Icelandic Water Holdings framleiðir átappað flöskuvatn undir merkjum Icelandic Glacial á jörðinni Hlíðarenda í Ölfusi, við Þorlákshöfn, en Jón Ólafsson á meirihluta í fyrirtækinu ásamt syni sínum. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að fyrirtækið hafi lokið við hlutafjáraukningu upp á fjörutíu milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 4,7 milljarða íslenskra króna.

Blaðið greinir frá því að tæp 70 prósent af hlutafénu, 28 milljónir dala, um 3,3 milljarðar króna, hafi falist í breytingu á skuldum í hlutafé. Afgangurinn hafi verið nýtt hlutafé.

Við hlutafjáraukninguna hækkaði eignarhluti bandaríska drykkjavörufyrirtækisins Anheurser-Busch InBev í fyrirtækinu úr nítján prósentum í 23,3 prósent. Þá bættust nýir hluthafar við, bandaríski fjárfestingarbankinn JP Morgan auk tveggja kunningja Jóns, en um er að ræða suður-afríska fjárfestirinn Dennis Raeburn og Grikkjann Eiles Mavroleon. Eignarhlutur Jón Ólafssonar og Kristjáns sonar lækkaði við þessar breytingar úr 73 prósentum í 55 prósent, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.

Fékk kúlulán frá sveitarfélaginu Ölfusi fyrir jörðinni

Iceland Water Holdings hefur ekki skilað ársreikningi vegna síðasta rekstrarárs. Félagið tapaði 12,5 milljónum dala árið 2009, þar af voru 10,3 milljónir dala, jafnvirði 1,2 milljarða, beint rekstrartap. Skuldir félagsins námu þá tæpum 67 milljónum dala, tæpum 7,9 milljörðum króna.

Jón fullyrðir að staða félagsins sé nú betri sem þakka megi aukningu í sölu. Stærstur hluti sölutekna koma frá Bandaríkjunum en Jón segir að fyrirtækið hafi nú hafið sölu á vatninu í bæði Rússlandi og Kína.

Frá því var greint fyrir helgi að Landsbankinn hefði stefnt Jóni vegna 420 milljóna króna ábyrgðar sem hann gekkst í vegna lánveitinga Sparisjóðsins í Keflavík (SpKef) til félagsins Jervistone Limited á Jómfrúreyjum. En Landsbankann tók við skuldunum þegar bankinn tók yfir starfsemi SpKef. Jón hefur fullyrt að skuldamál sín gagnvart Landsbankanum hafi ekki áhrif á aðra starfsemi hans eða fyrirtækja í hans eigu.

Þá greindi DV frá því í helgarblaði sínu að Jón hefði byggt upp vatnsverksmiðjuna á Hlíðarenda eftir að sveitarfélagið Ölfus hefði selt honum jörð undir verksmiðjuna gegn 100 milljóna króna kúuláni. Þ.e Jón hefði keypt jörðina af sveitarfélaginu án þess að greiða fyrir hana með peningum, heldur fengið lán fyrir henni frá sveitarfélaginu sjálfu. Í DV kom jafnframt fram að jörðin í Ölfusi væri veðsett fyrir nærri ellefu hundruð milljónir króna, en veðhafarnir eru nokkur fjármálafyrirtæki og íslenskir lífeyrissjóðir.

thorbjorn@stod2.is