Olía Alaska – Olíuvinnsla, náttúruvernd, sagan
Grein/Linkur: Snjófriðun og olían í Alaska
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Ágúst .2008
Snjófriðun og olían í Alaska
Olíuverðið hækkar nú á ný. Þrátt fyrir heldur slappar efnahagsfréttir frá Bandaríkjunum. Og þrátt fyrir að dollarinn hafi styrkst. Og þrátt fyrir að hægi á Evrópu. Það fer að verða nokkuð augljóst að Bandaríkjamenn verða að auka framleiðsluna. Og þá horfa menn annars vegar til þess að leyfa meiri boranir utan við ströndina. Og hins vegar til Alaska.
Hvort tveggja er mjög umdeilt þarna fyrir vestan. Í Alaska eru það náttúruverndarsjónarmið sem eru gegn olíuvinnslu. Og við strendurnar á „meginlandinu“ hafa menn áhyggjur af mengun við mjög þéttbýl svæði. Í dag ætlar Orkubloggið að horfa til Alaska.
Núverandi forsetaframbjóðendur, þeir Obama og McCain, virðast eiga það sameiginlegt að hvorugur vill leyfa boranir innan náttúruverndarsvæðanna i Alaska. Til að svo verði mun þurfa nýjan Reagan í Hvíta húsið. Mann sem segir „America's economy first whatever it takes“. En vonandi verður löng bið í að nýtt Reagan-Bush par komi fram í dagsljósið. Þar að auki er allsendis óvíst að einhver smá framleiðsluaukning í Alaska myndi hafa umtalsverð áhrif á verðið. „Hátt“ olíuverð kann að vera komið til að vera – einfaldlega vegna þess að peak-oil sé náð.
Hverju gæti olíuvinnsla á þessu náttúruverndarsvæði skilað? Og hvaða svæði eru þetta? Í stuttu máli er þetta landsvæði nyrst í Alaska. Byrjað var að ræða um það á 6. áratugnum að vernda svæðið, sem þykir að mörgu leyti vera einstakt, ekki síst vegna fjölbreytts dýralífs og er einnig afar viðkvæmt fyrir t.d. mengun.
Fyrsta löggjöfin um verndun þess var samþykkt af Bandaríkjaþingi um 1960. Tuttugu árum síðar voru sett ný lög, sem stækkuðu friðlandið. Þar með varð þetta að stærsta verndaða víðerni innan Bandaríkjanna. Og þetta er svo sannarlega ósnortið svæði. Þarna eru t.d. engir vegir. Og einungis hægt að komast að svæðinu eftir Daltonveginum, sem liggur meðfram vesturhluta svæðisins og norður til Prudhoe-flóa.
Alls er náttúruverndarsvæðið um 80 þúsund ferkílómetrar. Sem samsvarar 80% af stærð Íslands. Landsvæðið sem rætt er um vegna olíuvinnslu er þó ekki nema hluti meðfram ströndinni – og er um 6.000 ferkílómetrar. Lögin frá 1980 heimiluðu tilteknar rannsóknir á því afmarkaða svæði, en eigi að hefja vinnslu þarf að fá samþykki Bandaríkjaþings. Þingið treysti m.ö.o. ekki forsetanum til að fá slíkt vald í hendur.
En jafnvel þó farið yrði á fullt í olíuvinnslu þarna norður við Beauforthaf, myndi það ekki hafa nein veruleg langtímaáhrif til lækkunar á verði. Né gera Bandaríkin óháðari innfluttri olíu svo nokkru næmi.
Bandaríska Orkumálaráðuneytið hefur áætlað að hámarksframleiðsla þarna myndi smám saman ná um 800 þúsund tunnum á dag. Og að það myndi taka 10 ár að ná því marki. Og eftir það myndi framleiðslan á svæðinu minnka á ný. Á myndinni hér til hliðar eru gefin þrjú mismunandi dæmi, eftir því hvort þarna myndi finnast lítið magn, meðal eða mikil olía.
Þessi vinnsla er álitin geta lækkað verðið á olíutunnunni um c.a. 1-2% eða svo. Jafnvel ekki nema hálft prósent. M.ö.o. að það sé varla þess virði að fara út í olíuvinnslu á þessu einstaka og viðkvæma svæði.
Einmitt þess vegna hvetja nú margir til þess að byggð verði ný kjarnorkuver í Bandaríkjunum. Vandinn með kjarnorkuverin, er að það tekur soddan óratíma að byggja þau. En það flýtir ekki fyrir að bíða með að fara af stað. Var þetta ekki mikil speki!
Ég er óttalegur virkjanakall. Get barrrasta ekki að því gert. Líklega arfleifð af því þegar maður stóð sveittur í gúmmístígvélunum með strákunum og stíflaði bæjarlækinn á Klaustri. Eftir úrhellisrigningar. Það var alltaf rosalega skemmtilegt. Og síðan þá hefur mér þótt vatnsaflsvirkjanir snilld. Því stærri – því flottari.
En eitt verð ég að viðurkenna. Alltaf þegar ég skoða myndir frá náttúruverndarsvæðunum í Alaska – þessu stórkostlega ósnortna víðerni – fer ég að skammast mín. Fyrir það að hafa verið sáttur við byggingu Kárahnjúkavirkjunar.
Eftir á að hyggja finnst mér nefnilega að við hefðum átt að nota tækifærið. Friða öll öræfin norðan Vatnajökuls. Það tækifæri kemur aldrei aftur. Því miður. Og mér finnst heldur lúið þegar menn skreyta sig með þeim fjöðrum að hafa átt þátt í að stofna stærsta þjóðgarð í Evrópu – sem aðallega er jökull. Frosinn snjór. Menn sem köstuðu á glæ einstöku tækifæri til að skapa einhvern glæsilegasta þjóðgarð i heimi. Og siguðu þess í stað skurðgröfunum á landið. Og friðuðu snjó.