Orkumál – Ný hugsun, ný nálgun

Grein/Linkur: Þörf á nýrri hugsun og nálgun í orkumálum

Höfundur: Landsnet

Heimild:

.

.

Ágúst 2023

Þörf á nýrri hugsun og nálgun í orkumálum

„Við teljum, samkvæmt þessari spá, að markmiðum um orkuskipti verði ekki náð árið 2040 heldur muni það taka tíu ár í viðbót að því gefnu að takmarkanir verði ekki í framboði af orku. Tímarnir eru að breytast og við þurfum á nýrri hugsun að halda, fjölbreytilegum orkukostum og virkum og gagnsæjum raforkumarkaði ef við ætlum að ná þessum markmiðum.  Það þarf allt að vinna saman, markaðurinn, uppbyggingin, ábyrg notkun og takmörkun á umhverfisáhrifum“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets og vísar þar til nýrrar raforkuspár Landsnets sem gefin var út í dag.

Virkjanakostir í nýtingarflokki munu ekki duga til að mæta fullum orkuskiptum 

Samkvæmt raforkuspá Landsnets munu orkuskiptin kalla á aukna eftirspurn eftir raforku í takt við það sem þau munu raungerast ásamt því að raforkunotkun heimila og þjónustuaðila mun halda áfram að aukast í takt við aukinn fólksfjölda. Einnig er gert ráð fyrir að þörf atvinnulífsins fyrir aukna raforku muni halda áfram að þróast í svipuðum takti og verið hefur. Fyrirsjáanlegt er að aflskortur verði viðvarandi samkvæmt spánni en til að mæta vaxandi þörf fyrir raforku er nauðsynlegt að bregðast hratt við á framboðshliðinni. Áform þau sem uppi eru um nýjar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir ásamt stækkunum núverandi virkjana duga ein og sér ekki fyrir orkuskiptum.
´

Ný hugsun og nálgun nauðsynleg

Nauðsynlegt er að horfa til annarra kosta s.s. vindorkuvera og til lengri tíma sólarorkuvera. Áhrif nýrra breytilegra orkugjafa eru að sveiflur í orkuframleiðslu munu aukast verulega en framleiðsla vindorkuverka er háð vindafari og sólarorkuvera birtu. Vatnsorkuver munu áfram gegna mikilvægu hlutverki í raforkukerfinu og ekki síst það að tryggja jafnvægi milli notkunar og orkuvinnslu. Þau munu þó ekki ein og sér duga til að mæta sveiflum og munu notendur því þurfa að aðlaga notkun að breytilegu framboði af orku. Einnig munu þurfa að koma til nýjar aðferðir við orkugeymslu og stýringar. Má þar m.a. nefna að smærri notendur geta til dæmis hlaðið rafbíla sína þegar framboð af orku er mikið og stærri fyrirtæki þá aðlagað sína starfsemi að breytilegu orkuframboði og verði. Til að þetta gangi upp er mikilvægt að til staðar sé virkur og gagnsær viðskiptavettvangur fyrir orku. Samspil markaðsþróunar og uppbyggingar er því nauðsynlegt ásamt ábyrgri notkun og takmörkun á umhverfisáhrifum.

Helsta óvissan liggur í hraða orkuskiptanna og tækniþróun rafeldsneytis

Til að bregðast við óvissu um þann hluta orkuskipta sem snýr að millilandaflugi og siglingum, sem jafnframt er sá hluti orkuskiptanna sem krefjast munu mestrar orku, eru settar fram tvær ólíkar sviðsmyndir um þróun þeirra og tilheyrandi eftirspurn. Fyrri sviðsmyndin sýnir hvernig eftirspurn eftir orku muni þróast ef fullum orkuskiptum verður náð árið 2040 í takt við núverandi áætlanir stjórnvalda. Sú seinni ef að fullum orkuskiptum verður náð tveimur áratugum síðar en stefna stjórnvalda segir eða árið 2060. Í þeirri  sviðsmynd er gert ráð fyrir að sá hluti innleiðingar orkuskipta sem krefst mestrar raforku nái yfir 37 ára tímabil héðan í frá.  Ástæður þess gætu verið að tæknin sem þarf til að framleiða rafeldsneyti fyrir skip og flugvélar verði lengur í þróun og eða hagkvæmni þess ekki nægileg til þess að styðja við örari framgang og innleiðingu.

Fleira áhugavert: