Vindorkuver – Laxárdalsheiði
Grein/Linkur: Vilja vindorkuver á mikilvægu fuglasvæði
Höfundur: Kjarninn
.
.
Janúar 2020
Vilja vindorkuver á mikilvægu fuglasvæði
Tillaga að matsáætlun vegna þriðja vindorkuversins sem áhugi er að reisa á Vesturlandi hefur verið lögð fram og birt á vef Skipulagsstofnunar. Yrðu vindorkuverin öll að veruleika gætu 86 vindmyllur risið og uppsett afl þeirra orðið allt að 375 MW, sambærilegt við afl beggja Búrfellsstöðva Landsvirkjunar. Uppsöfnuð áhrif garðanna vegna nálægðar hver við annan gætu orðið ýmis konar, m.a. á fuglalíf og ásjónu lands.
Í apríl í fyrra lögðu tvö fyrirtæki fram tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum vindorkugarða í Reykhólahreppi. Annars vegar EM-Orka ehf sem ráðgerir allt að 130 MW vindorkugarð í Garpsdal við Gilsfjörð og hins vegar Storm Orka sem hyggst reisa og reka 80-130 MW garð í landi Hróðnýjarstaða í Dölum í Dalasýslu.
Tillaga að þriðja garðinum var svo lögð fram til Skipulagsstofnunar í síðustu viku. Að þeirri tillögu stendur fyrirtækið Quadran Iceland Development ehf. sem fyrirhugar vindorkugarð í landi Sólheima í Dalabyggð. Stjórnarformaður fyrirtækisins er Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Í garði EM Orku er miðað við 35 vindmyllur sem hver og ein yrði allt að 150 metra há. Endanleg stærð fyrirhugaðs garðs Storm Orku var ekki ljós er tillagan var lögð fram síðasta vor. Þó kom fram að uppsett afl í fyrsta áfanga væri áætlað rúmlega 83 MW frá 18-24 vindmyllum.
EM Orka er íslenskt fyrirtæki í eigu EMP Holdings, sem er sameiginlega í eigu EMP IN og Vestas, eins stærsti vindmylluframleiðanda heims. Að baki Storm Orku standa bræðurnir Magnús og Sigurður Jóhannessynir og nýtur fyrirtækið stuðnings vindmylluframleiðandans Siemens Gamesa Renewable Energy.
Vindorkuframkvæmdir eru matsskyldar sakvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaaðili gerir tillögu að matsáætlun og það hafa fyrirtækin þrjú nú öll gert. Skipulagsstofnun tekur síðan ákvörðun um þá tillögu, að fenginni umsögn ýmissa aðila, og getur bætt við atriðum sem fjalla þarf um í framhaldinu. Næsta skref er svo vinna að frummatsskýrslu á umhverfisáhrifum.
Hafa áhrif á fuglalíf og ásýnd lands
Umhverfisáhrif af vindorkugörðum eru að ýmsu leyti önnur en af vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum sem hingað til hafa verið ráðandi í orkuframleiðslu á Íslandi. Þau geta þó verið margskonar. Þau eru til dæmis sjónræn, þ.e. vindmyllurnar hafa áhrif á ásýnd umhverfis, þær hafa einnig áhrif á hljóðvist og geta einnig haft áhrif á fuglalíf, svo dæmi séu tekin. Hins vegar þarf eðli málsins samkvæmt ekki að gera miðlunarlón og sökkva landi líkt og í tilviki margra vatnsaflsvirkjana. Þá er hægt að fjarlægja vindmyllur og skilja við landið í nokkuð sambærilegu ástandi og fyrir framkvæmdir ef vel er að verki staðið.
Í tillögu að matsáætlun Quadran Iceland Development ehf. um vindorkugarð í landi Sólheima kemur fram að fyrirhugað framkvæmdasvæði sé á 3.200 hektara landi á eystri mörkum sveitarfélagsins Dalabyggðar. Þjóðvegur 59, sem er malbikaður að hluta til, liggur í gegnum svæðið á u.þ.b. átta kílómetra kafla og tengir saman Búðardal og Borðeyri. Á framkvæmdasvæðinu er bóndabýli, Sólheimar, ásamt sumarbústað. Í skýrslu fyrirtækisins segir að leigusamningur hafi verið undirritaður við landeigendur í apríl árið 2018.
Stöðugir og sterkir vindstrengir
Jörðin Sólheimar varð fyrir valinu hjá Quadran þar sem staðurinn býður að mati fyrirtækisins upp á stórt landsvæði með stöðugum og sterkum vindstrengjum á afskekktu svæði, fjarri byggð. Þá segir í skýrslunni að svæðið búi einnig að góðu aðgengi við núverandi vegakerfi og stutt sé í tengingu við raforkukerfi.
Á þessu stigi er áætlað að áfangi 1 muni samanstanda af 20 vindmyllum, með hámarksafköst upp á 85 MW. Í öðrum áfanga er fyrirhugað að bæta við sjö vindmyllum og þá gert ráð fyrir allt að 115 MW aflgetu.
Fjölmörg vötn og ár
Í matsáætluninni kemur fram að fyrirhugað framkvæmdasvæði einkennist af tiltölulega sléttu landslagi úr fíngerðum jarðvegi og basalti með aflíðandi hlíðum og fjölmörgum vötnum, ám og vatnsbólum. Gróður svæðisins samanstendur af grasi og frumstæðari tegundum, aðallega mosagróðri. Rask vegna undirbúnings og uppbyggingar vindorkuversins myndi nema minna en 1% af heildarsvæðinu, að mati framkvæmdaaðila.
Fyrir utan byggingu vindmyllanna sjálfra, sem hver og ein yrði á steinsteyptri undirstöðu, yrði rask m.a. vegna nýrra malarvega sem leggja þyrfti inn á svæðið og að hverri vindmyllu og aðveitustöðvum. Samhliða því yrðu lagðir jarðstrengir sem flytja myndu rafmagn frá vindmyllunum.
Svæðið mikilvægt fyrir fuglalíf
Framkvæmdin er fyrirhuguð á Laxárdalsheiði sem er skilgreind sem mikilvægt svæði fyrir fuglalíf og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Area) og svæðið afmarkað sem mikilvægt varpsvæði á alþjóðavísu fyrir himbrima (5% af íslenska himbrimastofninum) og álftir (1,8% af íslenska álftarstofninum).
.
Fuglar geta glatað búsvæðum sínum
Í skýrslunni kemur fram að við byggingu vindorkugarðs sé mögulegt að staðfuglar og varpfuglar verði fyrir röskun og glati búsvæðum sínum. Þegar vindmyllur eru í gangi felast möguleg áhrif í því að fuglar glati búsvæðum sínum eða flytji sig um set, þ.e. forðist vindorkugarðinn og nærliggjandi svæði, fljúgi á spaða myllanna eða önnur mannvirki eða að fuglar komist ekki sinna venjulegu leiða við leit að fæðustöðvum eða svefnstað.
Að fuglum undanskildum er dýralíf sagt takmarkað á svæðinu, fyrir utan ref, sauðfé og mink.
Útsýni yfir svæðið er hindranalaust frá nærliggjandi sveitarfélögum og það er vel sýnilegt frá vegi 59, sem liggur í gegnum það. „Uppbygging og rekstur vindmyllanna mun breyta ásjónu svæðisins og útsýni frá nærliggjandi byggðarlögum og vegfarendum,“ stendur í skýrslunni. Svæðið sé þó afskekkt og þar sé lítið um ferðamenn. Næsti sveitabær er í 2,5 kílómetra fjarlægð og næsta þorp í um það bil 10 km fjarlægð.
Uppbygging tekur tólf mánuði
Í skýrslunni er bent á að mómýrin sem er víða á þessu svæði gegni hlutverki kolefnisviðtaka. Röskun á henni gæti aukið losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið en bent er á að þessi svæði verði kortlögð í grunnathugunum við frekari undirbúning verkefnisins til þess að sneiða megi hjá þeim.
Uppbygging vindorkuversins tæki í heild um tólf mánuði og yrðu starfsmenn á þeim tíma allt að 150. Vinna yrði líklega takmörkuð yfir háveturinn vegna kulda og lítillar dagsbirtu. Framkvæmt yrði í áföngum og gæti vinnan dreifst yfir tveggja ára tímabil.
Vindorkuverið er hannað til að vera starfhæft í 25 ár. Um leið og það verður starfhæft mun eftirlit og stýring vindmylla fara fram í stjórnherbergi annars staðar. Rekstur vindorkuvers krefst lágmarksvinnuafls. Meðan á rekstri stæði er gert ráð fyrir því að ráðnir yrðu átta til tíu starfsmenn til að sinna eftirliti og fyrirbyggjandi viðhaldi. Að auki yrðu tveir til fjórir viðgerðarmenn ráðnir af framleiðanda vindmyllanna til að sinna árlegu viðhaldi.
Við mat á umhverfisáhrifum vindorkugarðanna þriggja þarf að horfa til samlegðaráhrifa þeirra og verður það gert í frummatsskýrslum þegar þar að kemur.
Eitt vindorkuver í tillögu að rammaáætlun
Aðeins eitt vindorkuver, Blöndulundur, er meðal þeirra virkjanahugmynda sem er að finna í þingsályktunartillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar sem til stendur að leggja fram á þingi í næsta mánuði.
Þó enn liggi ekki fyrir hvaða virkjunarkostir verði teknir til afgreiðslu í 4. áfanga rammaáætlunar hafa faghópar þegar tekið til starfa við ýmsar rannsóknir tengdar bæði aðferðafræði og virkjunarhugmyndum sem eru í biðflokki núverandi rammaáætlunar. Þá fór verkefnastjórn áætlunarinnar í sumar í vettvangsferð um fyrirhugað framkvæmdasvæði vindorkuveranna þriggja í Dalabyggð og Reykhólasveit.