Vatnstjón árið 1998 – Breyta þarf um stefnu

Grein/Linkur: Tryggingafélögin verða að breyta um stefnu í vatnstjónamálum

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Febrúar 1998

Tryggingafélögin verða að breyta um stefnu í vatnstjónamálum

Þess eru mýmörg dæmi, að gefizt er upp eftir „skóbótarviðgerðir“ á lögnum og allar lagnir endurnýjaða. Afleiðingin er tvöfaldur kostnaður.

ÞAÐ væri að bera í bakkafullan lækinn að fara að tíunda einu sinni enn hve gífurlegir fjármunir fara í ginnungagap vatnsskaða vegna skemmdra lagna í húsum og ekki þarf að búast við því að úr þeim dragi á næstu árum. Það er neikvæð uppskera af því sem til var sáð fyrir tveimur til þremur áratugum, skaðinn er þegar skeður eða er að ske.

Af hverju stafa þessir miklu vatnsskaðar á lögnum hérlendis? 

Það er ekki úr vegi að fara um það nokkrum orðum, það hefur margt verið um það skrafað og skeggrætt og oftar en ekki nokkuð yfirborðskennt, jafnvel með sleggjudómum.

Helstu orsakir þessara miklu skemmda, sem verða á lögnum, eru rangar lagnaleiðir og það dauðahald sem haldið hefur verið í lagnahefðir. Í fyrsta lagi hefur sú hefð, að troða öllum hita- og neysluvatnslögnum inn í veggi, verið okkur dýr. Í öðru lagi sú aðferð, sem kom fram á flestum lagnateikningum um miðjan sjötta áratuginn að leggja fyrrnefndar lagnir í gólfraufar í neðstu plötu, þær lagnir eru víða að grotna í sundur. Í þriðja lagi eru frárennslislagnir í grunnum eldri húsa, flestar úr steinrörum, unnvörpum að gefa sig í dag.

Í fjórða lagi eirlagnir í húsum á höfuðborgarsvæðinu, þær eru víða skaðvaldur.

Hvers vegna?

Það er engin furða að margur húseigandinn spyrji; hvernig gat þetta gerst að menn veldu rangar lagnaleiðir, svo sem að troða lögnum í gólfraufar í kjallaraplötum, árum saman? Er enginn ábyrgur?

Eina afsökunin er sú að menn vissu ekki betur þegar verkin voru unnin en þetta væru ágætar aðferðir. Það vill einnig brenna við að þótt illur grunur fari að læðast að mönnum um ágæti þess sem gert er, þá er mjög erfitt að fá ráðandi valdamenn og hönnuði til að breyta um stefnu.

Við höfum aldeilis nærtækt dæmi sem er framkomnar aðvaranir um að varasamt sé að nota galvaniseruð stálrör í neysluvatnslagnir vegna tæringarhættu, en því hefur jafnvel verið mætt með skætingi af valdsmönnum.

Þó leyft hafi verið um árabil að leggja heimæðar fyrir kalt vatn úr plasti á höfuðborgarsvæðinu eru menn neyddir til að leggja síðasta legginn inn og upp úr sökkli úr galvaniseruðum stálrörum. Þegar yfirmenn kaldavatnsmála eru spurðir hvers vegna ekki megi leggja heimæðina úr plasti alla leið er svarið ekkert eða „af því bara“ eins og hjá krökkunum.

Annað dæmi er yfirgengileg íhaldssemi byggingayfirvalda í Reykjavík, sem árum saman hafa bannað alla framþróun í lagnaefnum á sínu svæði.

.

.

Tryggingafélögin borga og borga

Það eru geysimiklir fjármunir sem tryggingafélögin greiða á hverju ári vegna vatnstjóna. Það er stundum verið að kasta hnútum að tryggingafélögunum fyrir að þau reyni að koma sér undan greiðsluskyldu, en sannast sagna er að þau teygja sig oft æði langt til að koma til móts við sína viðskiptavini, greiða örugglega og fljótt það sem þeim ber og vel það.

Hins vegar þurfa tryggingafélögin nauðsynlega að taka allar sínar starfsaðferðir vegna vatnstjóna til gagnrýnnar endurskoðunar og þau ættu að hlusta á góð ráð. Í dag er það meginregla að ef fram kemur leki í húsi sem tryggt er, sendir viðkomandi tryggingafélag pípulagningameistara á vettvang með þeim fyrirmælum að gera við lekann sem hann og gerir, tryggingafélagið borgar viðgerðina. Það sem nánast alltaf er gert er að brjóta upp gólf eða veggi, gera við skemmdu leiðsluna og hylja að nýju.

Því miður gerist þetta aftur og aftur í sama húsinu, því auðvitað er staðreyndin sú oft og tíðum að lögnin í húsinu er ónýt með öllu.

Þetta er sama aðferðin og notuð var við gömlu góðu gúmmiskóna í sveitinni í gamla daga; við hvert nýtt gat var sett á ný bót þangað til þeir duttu endanlega í sundur, þá varð að kaupa nýja.

Kjarni málsins er sá að það verður að hætta þessum „skóbótaraðferðum“ sem tryggingafélögin fyrirskipa, því miður.

Þegar leki kemur fram í húsi, sem er aldarfjórðungs gamalt og eldra, er ekki vit í öðru en byrja á því að meta ástand lagna í húsinu áður en byrjað er að brjóta og bramla.

Oftar en ekki mun þá niðurstaðan verða sú að skynsamlegasta lausnin sé að „gleyma“ gömlu lögnunum og leggja nýjar lagnir úr bestu fáanlegum lagnaefnum nútímans og velja þannig lagnaleiðir að hugsanlegir lekar eftir hálfa öld komi fljótt í ljós og auðvelt sé að ráða bót á þeim án rasks á veggjum og gólfum.

Það eru mýmörg dæmi þess á undanförnum árum að loksins þegar búið hefur verið að verja andvirði nýrra lagna í „skóbótarviðgerðir“ er gefist upp og allar lagnir endurnýjaðar.

Afleiðingin er tvöfaldur kostnaður.

Heildarlausnir verða oftast ódýrari en smáskammtaviðgerðir.

Fleira áhugavert: