Heita vatnið, gufuaflið – Er ekki óþrjótandi

Grein/Linkur: Margt er gott sem gamlir kveða

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Október 1998

Margt er gott sem gamlir kveða

Margir halda að heita vatnið og gufuaflið í iðrum jarðar sé óþrjótandi. En svo er aldeilis ekki.

Þótt víða sé tekist á um fyirætlaðar virkjunarframkvæmdir og miðlunarlón, jafnvel deilt um ýmislegt sem þegar er komið til framkvæmda, heyrast engar deilur um Nesjavallavirkjun, ekki einu sinni um Kröfluvirkjun. Sú var þó tíðin að allt skalf og nötraði vegna deilna um síðarnefndu virkjunina, en líklega eru það færri sem muna eftir því að það var síður en svo einhugur um Nesjavallavirkjun þegar hún var á teikniborðinu.

Það var tekist hart á um þá virkjun í borgarstjórn Reykjavíkur og líklegt er að þeir sem harðast börðust gegn henni hafi lítinn áhuga á að það sé rifjað upp í dag. Nesjavallavirkjun er nú þungamiðjan í því að veita, ekki aðeins Reykvíkingum heldur nær öllum íbúum á höfuðborgarsvæðinu, ódýra og örugga orku til að hita upp hús, til baða og sunds og þar með til heilbrigðs lífs. En það er ekki aðeins heitt vatn sem kemur frá Nesjavöllum, þar er einnig að hefjast framleiðsla á rafmagni og nú hefur borgarstjórn höfuðborgarinnar einróma samþykkt að stórauka raforkuframleiðslu með því að byggja þar nýtt orkuver. En þá kemur hljóð úr horni.

Aðvörun

Jóhannes Zoëga

Það er sjálfur „faðir“ Nesjavallavirkjunar, Jóhannes Zoëga, fyrrum hitaveitustjóri í Reykjavík, sem hefur uppi varnaðarorð. Hann telur að með þessu nýja raforkuveri verði gengið allt of hratt á hitaforðann á Nesjavöllum, sem án þess gæti enst höfuðborgarsvæðinu til upphitunar húsa um aldir, en með raforkuverinu í nokkra áratugi. Ekki skal lagður dómur á það hvort afleiðingar nýja orkuversins yrðu svo hrikalegar, en eitt er víst; þegar maður með reynslu og þekkingu sem Jóhannes sendir frá sér slíka aðvörun, er það skylda allra, sem ákvarðanir taka í þessu mikla hagsmunamáli, að hlusta og hlusta vel og rækilega. Það er skylda þeirra að staldra við og sýna og sanna að slík spá geti ekki ræst, ef það er ekki hægt verður að endurskoða áætlanir um raforkuver á Nesjavöllum.

Angi af miklu stærra máli Þeir sem eiga ofgnótt fjár fara oft illa með það og standa skyndilega uppi slyppir og snauðir, búnir að sólunda öllu. Það þarf ekki að vera um beinharða peninga að ræða í slíkum tilfellum, oft er um ýmis önnur gögn og gæði að ræða sem menn halda að séu óþrjótandi. Til þeirra gæða telst heita vatnið og gufuaflið í iðrum jarðar, margir halda að það sé óþrjótandi og hægt sé að ausa af því að vild án nokkurrar aðgætni og fyrirhyggju. En svo er aldeilis ekki, við verðum að koma þeirri þekkingu til allrar þjóðarinnar að okkur ber skylda til að spara og nýta sem best þessi gæði til að skila þeim til afkomenda okkar, ekki um alla framtíð sem því miður er líklega ómögulegt, heldur í eins langan tíma, í eins margrar aldir og mögulegt er. Heita vatnið er ódýrt, það segja allir vegna þess að þeir hafa viðmiðun við aðra orkugjafa, svo sem olíu. En samt sem áður kostar heita vatnið sitt og það eru ótrúlega margir sem gætu aukið sínar ráðstöfunartekjur í framtíðinni með því að endurnýja hitakerfi og þó umfram allt; stýringu og stillingu hitakerfa.

Vissulega kostar slík endurnýjun eitthvað, oft á tíðum ekki meira en svo að kostnaðurinn afskrifast á 2 til 3 árum og eftir það er um beinan ágóða að ræða, að ekki sé minnst á þægindi og ánægju sem slíkt gefur viðkomandi íbúum. Þetta er það sem snýr að hinum venjulega borgara, en hvað þá um veitukerfin sem koma heita vatninu til okkar. Meðan það viðgengst að vatn sé selt eftir hinu forkastanlega hemlakerfi er þar mikil brotalöm. Hemlakerfið byggist á því að húseigandi ákveður fyrirfram hvað marga lítra af heitu vatni hann ætlar að kaupa sem hámark á mínútu hverri, segjum að það sé 5 lítrar. En þá er heldur ekkert því til fyrirstöðu að hann geti látið renna inn til sín þetta magn á hverri mínútu allt árið um kring þótt hann hafi enga þörf fyrir það. Það er enginn venjulegur mælir á hitagrindinni, aðeins hemill sem skammtar hámarksrennslið. Það ætti að vera forgangsverkefni að útrýma þessu sóunarkerfi, sem ekki aðeins sóar því sem við eigum að skila afkomendunum okkar, heldur virðist gera grandvara borgara að hinum verstu krimmum.

Það er ekki aðeins heitt vatn sem kemur frá Nesjavöllum. Þar er einnig að hefjast framleiðsla á rafmagni og nú hefur borgarstjórn Reykjavíkur einróma samþykkt að stórauka raforkuframleiðslu með því að byggja þar nýtt orkuver.

Fleira áhugavert: