Katar – Gaslindir, Olíulindir
Grein/Linkur: Arabískir gæðingar
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
September 2008
Arabískir gæðingar
Það hlaut að koma að því að orkupeningarnir í Arabíu uppgötvuðu Klakann góða. Nú hefur arabískur fjárfestir að nafni Mohammed Bin Khalifa Al-Thani, eignast bæði hlut í Alfesca og Kaupþingi.
Þessi viðskipti munu hafa komist á vegna góðra sambanda sem Ólafur í Samskipum hefur þarna í eyðimörkinni.
Orkubloggið fagnar því ákaflega að fá Katara inn í íslenskt fjármálalíf. Katar – eða Qatar – er líklega ríkasta land í heimi. Vegna geysilegra gaslinda og olíu. Íbúar þessa sandfláka á Arabíuskaganum lifðu lengi vel á því að selja fisk og perlur. En á 20. öld varð heldur betur breyting á, enda búa Katarar yfir þriðju mestu gasbirgðum í heimi og eru nálægt því að komast á topp-tíu listann yfir ríki með mestu olíubirgðirnar.
Reyndar sitja ljúflingarnir i Qatar nú líklega í 4. sæti allra ríkja heims, þegar litið er til samanlagðra olíu- og gasbirgða. Framar þeim standa aðeins þrjú ríki; Rússland, Sádarnir og Íran. Sem eru öll margfalt fjölmennari lönd en Qatar, sem er aðeins með um eina og hálfa milljón íbúa (þar af munu einungis um 900 þúsund vera Katarar – afgangurinn er innflutt vinnuafl!). Auðæfin þarna eru því hreint æpandi mikil.
Gasbirgðirnar í Qatar eru áætlaðar um 15% af heildarbirgðum heimsins. Meðan Saudi Arabía er stórveldi olíunnar eru Katarar konungar gassins. Gasframleiðsla þeirra er hreint ævintýraleg. Undanfarið hafa dunið á okkur fréttir um að hefðbundin orkuframleiðsla (olía) sé hugsanlega í hámarki nú um stundir og muni fara hnignandi héðan í frá. En fyrir Katarmenn er þetta lítið áhyggjuefni; þeir hafa á áratug náð að þrefalda gasframleiðsluna.
Þetta er miklu meiri aukning en sem nemur aukinni orkunotkun þeirra sjálfra. Þess vegna vex gasútflutningur Qatar hratt. Það eru ekki nema um 12 ár síðan Qatar hóf að flytja út gas svo einhverju næmi. Í dag er þetta litla land meðal tíu stærstu gasútflytjenda heims og það land sem flytur út mest allra af fljótandi gasi.
Mestur hluti gassins kemur frá stærstu gaslind í Mið-Austurlöndum. Hún er nefnd North Field og er að finna undir Persaflóanum, skammt utan við strönd Qatar. Sbr. kortið hér til hliðar.
Öllum þessum auðlindum er stýrt af ríkisfyrirtækinu Qatar Petroleum. Lengst af var orkulindunum í Qatar reyndar stjórnað af gamla heimsveldinu Stóra-Bretlandi. Qatar má rekja rætur sínar sem ríki, til falls tyrkneska Ottómanaveldisins í lok heimsstyrjaldarinnar fyrri. Þá náðu Bretar áhrifum á svæðinu og þeir gáfu ekki eftir yfirráð sín fyrr en 1971. Olíulindarnir voru í eigu hins alræmda Iraq Petroleum Company, sem stýrt var af breskum og bandarískum olíufélögum. En Qatar varð sem sagt loks sjálfstætt ríki árið 1971 og í kjölfarið var orkuframleiðslan í landinu þjóðnýtt. Þetta var á svipuðum tíma og stórmennin í Bretlandi sendu herskip á Íslandsmið til að aðstoða breska togara við rányrkju sína og koma í veg fyrir útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar í 50 sjómílur.
Já – við eigum ýmislegt sameiginlegt með gömlu nýlendunum. Og ég veit ekki af hverju menn hér tala um Breta sem vinaþjóð okkar. Spurningin er hvort Katarar fara nú í ríkari mæli að fjárfesta í endurnýjanlegri orku? Svona til að vingast enn meira við Íslendinga – og um leið vega upp á móti kolefnislosuninni, sem gasið orsakar.
Ein af þeim síðum internetsins, sem Orkubloggið hefur gaman af, er „Sjortvjúið“ hans John Authers hjá Financial Times (the Short View). Undanfarnar vikur hefur þar skollið á manni sama auglýsingin: „Qatar Financial Centre – At the Heart of Business!„. Soldið slappt slagorð finnst mér. En gaman væri ef þeir hjá QFC færu að beina sjónum sínum að endurnýjanlegri orku. Eins og t.d. frændur þeirra hjá Masdar í Abu Dhabi, sem undanfarið hafa verið stórtækir í að fjárfesta í vind- og sólarorkuverum.
Nú er að sjá hvort jarðvarminn fangi athygli Katarmanna. Úr því þeir eru komnir inn í íslenska fjármálalífið.
En kannski er nærtækara að það verði íslenski hesturinn, sem fái athygli Katarmanna. Umræddur Mohammed í Kaupþingi mun nefnilega vera mikill hestaáhugamaður. A.m.k. þegar kemur að hestaveðhlaupum.
Reyndar eru arabísku gæðingarnir öllu snarpari en íslenskir töltarar. Spennandi verður að fylgjast með hvað kemur út út því, þegar slíkur gæðingur og nokkur íslensk útigangshross rugla reitum saman.
Loks vill Orkubloggið nefna að saga ríkjanna á Arabíuskaganum og þar norður af er afskaplega heillandi. Enda er ein af uppáhalds kvikmyndunum mínum Arabíu-Lawrence, með Peter O'Toole. Frábær mynd með frábærum leikara. Létt ofleikin en tær snilld engu að síður. En það er önnur saga.