Olíuiðnaðurinn – Ríkin í og utan OPEC

Grein/Linkur:  Frjálsa olían á niðurleið

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

Nóvember 2009

Frjálsa olían á niðurleið

Þegar rætt er um olíuuppsprettur heimsins er þeim gjarnan skipt gróflega í tvennt: Um 40% heimsframleiðslunnar kemur frá OPEC-ríkjunum og um 60% frá ríkjunum utan OPEC. Þetta hlutfall hefur haldist furðufast síðustu 20-25 árin eða svo.

OPEC_Oil_BarrelsInnan OPEC  eru nokkrir af stærstu olíuframleiðendum heims. Eins og t.d. Alsír, Angóla, Íran, Írak, Katar, Kuwait, Líbýa, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Saudi Arabía og Venesúela. Sannarlega glæsilegur hópur.

Ríkin utan OPEC, sem lengi vel hafa framleitt u.þ.b. 60% olíunnar, eru afar mislit hjörð. En þarna eru t.a.m. allir olíuframleiðendurnir á Vesturlöndum; t.d. Bandaríkin, Kanada, Mexíkó, Noregur og Bretland. Og líka Kína og Brasilía. Og auðvitað Rússland!

Þegar aftur á móti er litið til þess hvaða ríki eru mestu olíuinnflytjendurnir annars vegar og olíuútflytjendurnir hins vegar, kemur eftirfarandi í ljós: Þeir sem flytja inn olíu eru nær öll OECD-ríkin, ásamt Kína og Indlandi. Og þeir sem eru helstu olíuútflytjendurnir eru OPEC-ríkin, auk vestrænu olíuveldanna Noregs og Mexíkó. Og auðvitað Rússland!

OPEC_russia-g8

OPEC_russia

Það má því segja að veröld olíunnar hvíli á tveimur stoðum. Önnur stoðin er OPEC. Hin er Rússland. Þetta eru stóru aðilarnir í framleiðslu OG útflutningi á olíu. Okkur hinum er þar af leiðandi afar mikilvægt að fá olíu frá þessum tveimur stoðum – helst á sem bestu verði.

Hlutfall OPEC í olíuframleiðslunni hefur í grófum dráttum haldist lítið breytt síðustu tvo áratugi. OPEC-ríkin leitast við að stýra framboðinu, meðan ríkin utan OPEC aðhyllast aftur á móti (flest) frjálsan markaðsbúskap. Sökum þess að olíuverð hefur nánast alltaf haldist mun hærra en sem nemur kostnaði í olíuvinnslu, hafa olíufyrirtækin á Vesturlöndum lengst af reynt að framleiða eins mikið af olíu og mögulegt er. OPEC hefur aftur á móti verið í því hlutverki að reyna að bremsa framboðið af, til að fá sem allra hæst verð fyrir olíuna sína.

Það er óneitanlega mjög athyglisvert að skoða valdabaráttuna í olíuiðnaðinum. Þar virðist lengi vel hafa ríkt ákveðið valdajafnvægi. Þar sem OPEC hefur „leyft“ Vesturlöndum og öðrum ríkjum utan OPEC að vera með u.þ.b. 60% af olíuframleiðslunni. Þetta jafnvægi hefur um leið komið í veg fyrir of mikið kverkatak OPEC á olíumörkuðunum. Þar með hafa OPEC-ríkin líka að mestu fengið að vera í friði fyrir hernaðarmaskínu Vesturlanda. Allt þar til Bandaríkin réðust á Írak.

En allt er breytingum háð. Miðað við þá miklu aukningu sem orðið hefur í eftirspurn eftir olíu síðustu tvo áratugina, er í reynd með ólíkindum að ríkin utan OPEC hafi náð að geta framleitt 60% olíunnar. Ástæður þess að þau náðu að auka framleiðslu sína, jafnframt aukinni eftirspurn, eru augljóslega ekki hinar hnignandi olíulindir í Alaska eða Norðursjó. Nei – aukninguna má fyrst og fremst þakka miklum vexti í rússneska olíuiðnaðinum!

Russia_geopolitics

Russia_geopolitics

Hlutfall Rússa í olíuframleiðslu ríkjanna utan OPEC er svo sannarlega ekkert smáræði. Um ¼ allrar olíunnar utan OPEC kemur frá Rússunum.

En nú eru uppi vísbendingar um að olíuframleiðsla Rússa hafi náð toppi. Og þar að auki er Rússland ekki beinlínis á sömu nótum eins og almennt gerist um olíuiðnaðinn í OECD. Öllum helstu olíufyrirtækjunum í Rússlandi er stjórnað af ríkisvaldinu og rússnesku olíufélögin eiga í reynd miklu meira sameiginlegt með ríkisolíufélögunum í Arabíu, Venesúela og öðrum ríkjum innan OPEC, heldur en með einkareknu vestrænu olíufélögunum.

Þetta er farið að valda Bandaríkjamönnum, Evrópubúum og öðrum OECD-ríkjum nokkrum ugg. Olíuframleiðsla Vesturlanda er að dragast hratt saman og jafnvel þó svo Rússarnir nái að kreista upp ennþá meiri olíu, er útlit fyrir að ríkin utan OPEC nái samt ekki að viðhalda hlutfalli sínu í olíuframleiðslu heimsins. Flest þessi sömu ríki eru einmitt líka mestu olíuinnflytjendurnir, svo þetta er ekkert gamanmál. Þar að auki eru Rússar ekkert sérstaklega traustir bandamenn og gætu einn daginn verið komnir inn í OPEC.

Í stað þess að tala um OPEC-ríki annars vegar og ríki utan OPEC hins vegar, er hugsanlega skynsamlegast að skipta olíuiðnaðinum í ófrjálsa olíu og frjálsa olíuFrjáls olía er þá olíuframleiðsla utan OPEC og utan Rússlands. Sé þessi póll tekin í hæðina blasir við sú staðreynd að hin frjálsa olíuframleiðsla hefur minnkað um 5% á örfáum árum. Og er nú innan við 45% af heildarframleiðslunni.

Oil_Non-OPEC-ex-Russia_2004-2009

Oil_Non-OPEC-ex-Russia_2004-2009

Vesturlönd (utan Rússlands) virðast m.ö.o. nú í fyrsta sinn í langan tíma eiga í erfiðleikum með að halda hlutfalli sínu í heimsframleiðslunni. Síðustu fimm árin hefur dagsframleiðsla þeirra dregist saman um heilar 2 milljón tunnur. Þetta segir eiginlega allt sem segja þarf. Þrátt fyrir vaxandi eftirspurn eftir olíu hefur framleiðsla á frjálsri olíu minnkað. Fyrir vikið eru OPEC og Rússland nú með meirihlutann í olíuiðnaði veraldarinnar. Þetta er líklega ein alvarlegasta ógnunin sem Vesturlönd standa frammi fyrir. Ekki aðeins efnahagslega, heldur er líka næsta víst að þessi þróun verður ekki beinlínis til að efla heimsfriðinn.

Eini ljósi punkturinn er sá að nú eru komnar fram vísbendingar um að olíuþörf Vesturlanda kunni að hafa náð hámarki. Það er fyrst og fremst aukinn áhugi á sparneytnari bílum sem því veldur.

Oil_future-production-2

Oil_future-production

Um þetta er þó enn algjör óvissa. IEA og margir fleiri spá þvert á móti aukinni olíueftirspurn frá Vesturlöndum a.m.k. næstu 20 árin. En EF notkun Vesturlanda á olíu nær að dragast saman – jafn hratt eins og framleiðsla á frjálsri olíu minnkar – skapast kannski ekki stórvandamál. Ef aftur á móti myndast gat – ef olíuframleiðsla Vesturlanda mun áfram dragast hraðar saman en sem nemur olíunotkun þeirra – þá er voðinn vís.

Þau eru mörg EFin. Það er einmitt þess vegna sem stjórnvöld víðsvegar um Vesturlönd leita nú logandi ljósi að nýjum möguleikum til að knýja samgöngukerfið. Hinn hraði samdráttur í olíuframleiðslu Vesturlanda mun ekki aðeins hafa mikil áhrif í heimspólitíkinni, heldur verða einhver allra mikilvægasti hvatinn í þróun atvinnulífs, vísinda og tækni.

Varla er ofsagt að í reynd hafi nýlega orðið vatnaskil í orkumálum veraldarinnar. Þetta eiga Íslendingar að nýta sér. Og leggja höfuðáherslu á að að mennta ungt fólk um orkumál. Það væri farsæl leið til að efla íslenskt atvinnulíf og skapa hér ný tækifæri til framtíðar.

Háskólarnir hérna ættu að einbeita sér að orkugeiranum. Og að sama skapi eiga stjórnvöld að setja olíuleit á oddinn og hvetja fyrirtæki sem eru að þróa nýja orkutækni til að koma til Íslands – með því að skapa þeim hagkvæmt starfsumhverfi hér. Finnar veðjuðu á farsímatæknina. Við ættum að veðja á orkutæknina.

Fleira áhugavert: