Ofnasmiðjan Brautarholti – Runtilofnar

Heimild: 

 

Brautarholt Skeiðum

Nóvember 1997

Hvaða efni er í tunglinu?

Í sveitum berjast menn við kvótann ekki síður en til sjávar. Sums staðar hefur verið gripið til þess að stofna iðnfyrirtæki til sveita eins og greint er frá í pistli dagsins.

Þegar ekið er út af hringveginum til vinstri skömmu áður en komið er að Þjórsárbrú erum við komin á Skeið, litla sveit sem afmarkast af Hvítá í vestri þar sem hún liðast um Hestfjall, af Þjórsá í austri og Vörðufell er sem varðhundur í norðri. Hér hefur löngum dafnað gott mannlíf og bændum búnast vel, þótt ekki sé hægt að segja að jarðir séu stórar og víða sést í hraunið sem er undirstaða sveitarinnar. Þegar ekið er upp Skeiðaveg sést varða ein á vinstri hönd, en hún var reist fyrir hálfri öld til minningar um fund á þessum stað, á Áshildarmýri þó meir sé þar hraun en mýri. Þar komu bændur saman fyrr á öldum til að mótmæla yfirgangi fógeta á Bessastöðum, valdsmanns Danakonungs á Íslandi.

Þegar litið er til Hestfjalls sést Ólafsvallahverfið og Ólafsvallakirkja, lítil kirkja sem komin er til ára sinna. Enginn situr þar nú presturinn en áður fyrr voru þar prestar og sumir litríkir. Kunnastur þeirra er líklega Brynjólfur á Ólafsvöllum sem þótti nokkuð sérkennilegur, einkum þóttu ýmsar spurningar hans óvenjulegar þegar hann uppfræddi fermingarbörn um kristindóminn. Brynjólfur prestur húsvitjaði í sínu prestakalli eins og presta var siður fyrr á tímum og hefur efalaust komist í hann krappan, eins og aðrir prestar á þeirri tíð, að þola allt það kaffiþamb sem sóknarbörnin þröngvuðu upp á kennimenn sína í þessu rápi þeirra á bæi. Sú saga er sögð að eitt sinn hafi Brynjólfur komið að Vorsabæ til húsvitjunar, en ekki tókst betur til í það sinn en að prestur féll af baki hesti sínum og var svo óheppinn, eða heppinn, að koma niður í fjóshauginn.

Runtilofn

Eitt sinn sem oftar uppfræddi Brynjófur fermingarbörn og spurði þá upp úr þurru: „Hvaða efni er í tunglinu? Það varð fátt um svör og að endingu sagði klerkur: „Það er ekki von að þið vitið það því Guð veit það ekki og ég veit það varla, en það er eitthvað ógurlega gljúpt, svona eins og fjóshaugurinn í Vorsabæ“. Ofnasmiðja í graskögglaverksmiðju Það er árlegur siður pípulagningamanna á höfuðborgarsvæðinu, meistara og sveina sameiginlega, að heimsækja eitthvert fyrirtæki sem tengist iðninni. Fyrir skömmu brugðu menn sér austur yfir Fjall og komu að Brautarholti á Skeiðum en þar hefur um langan aldur verið skóli sveitarinnar, allfrægur fyrir um fjórum áratugum, en stillum okkur um að rifja upp þá sérkennilegu sögu. Þar er einnin ágæt sundlaug og bensín- og greiðasala.

Í húsi sem Ræktunarsamband Skeiðamanna byggði er búið að stofnsetja ofnasmiðju sem framleiðir Runtal ofna. Ef einhver er ekki viss um hvað Runtal ofnar eru er hægt að gefa þá leiðbeiningu að séu rendurnar láréttar á ofninum er líklega um Runtal ofn að ræða, ef þær eru lóðréttar er þetta panelofn. Þarna hafa heimamenn í samvinnu við Ofnasmiðju Suðurnesja stofnsett ofnasmiðju, það má segja að hluti af framleiðslunni hafi verið fluttur frá Keflavík á Skeið, mikið mega Suðurnesjamenn þola ofan á kvótaránið.

En þetta er hluti af þeirri þróun að auka iðnrekstur í sveitum því þar berjast menn ekki síður við kvótann, þennan Þorgeirsbola nútímans og fróðlegt verður að sjá hvernig ofnaframleiðslan dafnar á Skeiðum. Alltént leist gestunum vel á tól, tæki og framleiðslu og augljóst að ekki er gestrisnin útdauð í íslenskum sveitum. Á heimleið var orkuver Hitaveitu Reykjavíkur á Nesjavöllum heimsótt og enn sannaðist að gestrisnin lifir og voru menn leiddir um hús og búnaður og vélar útskýrð af vel máli förnum leiðsögumanni.

Fleira áhugavert: