Ofnhitakerfi – Kol, Ketill, hitaveita

Grein/Linkur: Handlagin og ráðagóð bjargar sér

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Júní 2003

Af hverju eru ofnar hafðir undir gluggum?

Það mun seint takast að samræma þau sjónarmið að ofninn undir glugganum skuli vera eins óþvingaður og mögulegt er til að hann geti skilað varmanum út í umhverfi sitt og hinsvegar tilvera sólbekksins eilífa sem hindrar hitann í að komast sína leið. Ekki eru nein teikn á lofti um að hann hverfi úr hýbýlum manna.

Þannig heldur þessi togstreita áfram, hitatæknin vill sólbekkinn brott en fagurfræðin, í bland við notagildi, segir að hann skuli vera. Hvar á að hafa blómapotta og styttur ef ekki er neinn sólbekkur? Eins og nafnið bendir til er þetta kjörinn staður fyrir blóm því inn um glugga skín sól.

En má þá ekki færa ofninn, er nokkur ástæða til að hann sé alltaf settur undir glugga? Ekki nema von að spurt sé en það er vísast ástæða fyrir flestu, einnig því að setja hitagjafann, ofninn, undir glugga.

Fyrir daga miðstöðvarhitunar

Kolaofn

Þeim fer eflaust fækkandi sem muna þá daga þegar hitað var upp með kolaofnum. Reyndar voru kolaofnar aðeins á betri heimilum og á sveitabæjum voru þeir víða. Líklega hefur verið fátítt að kolaofnar væru í svefnherbergjum, en í stássstofum og borðstofum voru þeir sjálfsagðir á heldri manna heimilum. Til að hægt væri að nota kolaofn þurfti reykháf, eða skorstein eins og þá var sagt fyrir áhrif dönskunnar. Reykháfurinn var þá miðsvæðis í húsinu til að hægt væri að tengja fleiri en einn ofn við hann, en það takmarkaði að sjálfsögðu hvar hægt var að setja upp og tengja kolaofn.

Þess varð að gæta vandlega að kolaofninn fengi nóg loft, eða réttara sagt súrefni, til að eldurinn logaði glatt. Þetta gat haft í för með sér dragsúg eftir gólfi og jafnvel gólfkulda.

Þess vegna kom upp sú þversögn við slíka upphitun að frá ofninum stafaði miklum hita, þó var kalt við gólf og útveggi.

Nú förum við að nálgast skýringuna á því hvers vegna miðstöðvarofnar eru undir gluggum, oftast nær.

Svo kom miðstöðvarhitunin.

Hún var mikil framför, nánast himnasending. Ekki voru menn þó komnir það langt hér á landi á þeim árum að leggja hitaveitur um þéttbýla staði. Kolakyndingin var flutt frá kolaofnunum niður í kjallara og þar voru kolin brennd í katli. Hann hitaði vatn sem streymdi eftir pípum í ofna í öllum herbergjum hússins.

Oft var farið með leiðslur upp með reykháfnum og algengt var að miðstöðvarofnar væru settir þar sem kolaofnar voru áður, einn kom, annar fór. Með þessu var hægt að komast af með eins stuttar lagnir og nokkur kostur var og miðstöðvarofnar urðu eins og krans í kringum reykháfinn.

Allir ofnar á innveggjum, enginn undir glugga.

En þetta hafði einn mjög slæman ókost.

Þá var oft einfalt gler í gluggum og frá þeim stafaði miklum kulda á frosthörðum vetrardögum. Hitinn frá miðstöðvarofninum streymdi til lofts og um leið sogaði ofninn að sér köldu lofti eftir gólfinu, hringrás loftsins var hafin. En því miður tók það með sér mikinn kulda frá glugganum, þaðan steyptist kalt loftið niður á gólfið.

Afleiðingin er augljós, þetta orsakaði gólfkulda, nákvæmlega eins og þegar kynt var með kolaofni.

Hringrás loftsins í herberginu var öfug. Ef hitagjafinn hefði verið undir glugganum hefði heita uppstreymið mætt kuldanum frá glugganum, hitað upp kalda strauminn og varnað honum að komast niður á gólf. Loftið streymdi síðan eftir loftinu, niður með innveggjum og eftir gólfinu að ofninum.

Við slíka hringrás loftsins brá svo við að þá var miklu minni munur á hita loftsins efst og neðst, þetta vann gegn gamla óvininum, gólfkuldanum.

Þetta lögmál er enn í gildi þrátt fyrir allar framfarir, þrátt fyrir alla tækni.

Náttúrulögmálin eru ekki liðin undir lok. Þess vegna eru ofnar settir undir glugga, við gerum það til að verjast gólfkulda.

Hitastreymið verður að vera rétt, upp með útveggjum, upp frá gluggum og niður með innveggjum, þannig þarf það að vera þrátt fyrir tvöfalt gler í gluggum.

Þá er spurningunni í upphafi svarað; þetta er skýringin á því hvers vegna ofnar eru undir gluggum.

Fleira áhugavert: