Brunaþéttingar
Grein/Linkur: Brunaþéttingar
Höfundur: Verkís
.
.
Brunaþéttingar
Í þeim verkefnum þar sem ekki liggja fyrir hefðbundnar verklýsingar og teikningar deilihönnuða sýna ekki frágang á brunaþéttingum geta komið upp vafamál um hvernig skuli gengið frá brunaþéttingum. Í þessu minnisblaði verður fjallað um brunaþéttingar. Í þeim tilfellum sem deilihönnuðir leggja til annan frágang, sem jafnframt telst fullnægjandi, skal notast við frágang deilihönnuðar. Deilihönnuðir eru í þessu samhengi hönnuðir raflagna, loftræsingar, neysluvatns og frárennslislagna.
Almennt
Brunahólfun gr. 9.6.11. í byggingarreglugerð:
„Þegar lagnir liggja í gegnum brunahólf skal tryggja að brunamótstaða þéttingar sé að lágmarki
jöfn brunamótstöðu brunahólfsins.“
„Gera skal ráðstafanir til að eldur geti ekki borist meðfram brunahólfandi veggjum. Þar sem
brunahólfandi veggur gengur að útvegg eða þaki skal brunahólfun ávallt ná út að ystu vegg- og
þakklæðningum eða út í gegnum þær.“
Iðnmeistarar mega brunaþétta með eigin lögnum en til að þétta með lögnum annarra þarf að hafa
sérstök réttindi. Þeir sem bjóða þjónustu við að annast brunaþéttingar mannvirkja skulu hafa
starfsleyfi útgefið af Mannvirkjastofnun í samræmi við 38. gr. a. í lögum nr. 75/2000 og ákvæði
reglugerðar nr. 1067/2011.
Verktaki/iðnmeistari skal kynna sér brunahólfun mannvirkis. Þ.e. vita hvernig byggingunni er skipt
í brunahólf. Þessar upplýsingar liggja almennt fyrir á aðaluppdrætti arkitekts.
Brunaþéttingar eru flokkaðar eftir kröfum til brunahólfandi skila. Þær eiga að uppfylla sömu kröfur
og skilin; EI 60, EI 90 eða EI 120. Mikilvægt er að hafa hugfast:
• Frágangur á brunaþéttingum er mismunandi eftir því úr hvaða efnum
byggingarhlutinn er gerður sem verið er að fara í gegnum.
• Við skulum jafnframt hafa í huga að fara skal eftir leiðbeiningum á því
efni/þéttingum sem verið er að nota.
• Byggingarvörur á markaði skulu vera CE-merktar
Viðbótarkröfur á brunaþéttingar geta verið vegna rakaálags, kröfur um þol gagnvart gróðri, rotnun
og nagdýrum, kröfur vegna hljóðeinangrunar. Jafnframt getur verið óskað eftir því að auðvelt sé
að bæta við lögnum í gegnum brunaþéttinguna.
Raflagnir
Strengir og rafmagnsrör yfir 20mm í þvermál
Þétta skal með raflögnum sem fara í gegnum brunahólfandi skil. Þegar strengir eða rafmagnsrör
(undir 20mm) fara í gegnum steypta eða létta byggingarhluta sem eru einangraðir og a.m.k.
150mm þykkir er nóg að þétta með strengnum eða rörinu með viðurkenndu brunakítti.
Strengir og rafmagnsrör yfir 20mm í þvermál:
Lagt er til að nota brunaklípur sem eru sérstök rör ætluð til brunaþéttinga á raflögnum. Fara skal eftir leiðbeiningum framleiðanda um frágang og fyrirkomulag.
Brunaþéttingar á strengjum í strengstigum:
Þar sem strengstigar fara í gegnum brunahólfandi skil er lagt til að þeir verði teknir í sundur til að fyrirbyggja hitaleiðni og koma í veg fyrir að hreyfing á strengstiganum eyðileggi brunaþéttinguna, sjá mynd hér fyrir neðan. Brunaþéttingin sjálf skal vera fyrir rafstrengi og nægjanlega þykk fyrir brunaskilin (oftast 200mm). Fara skal eftir leiðbeiningum framleiðanda og virða takmarkanir. Oftast er um að ræða harðpressaða steinull með eldvarnarmálningu sem sniðin er í gatið (umhverfis strengina) svo er þétt með lausri steinull og að lokum er kíttað með strengjunum beggja vegna. Sjá dæmi á mynd hér fyrir neðan.
Almennt gildir það sama um hæðaskil og veggi, en stundum er mælt með sérsökum auka frágangi við hæðaskil og þá skal fara eftir þeim leiðbeiningum. Það skal þó tekið fram að í þessu húsi eru hæðaskil REI 90 og því þarf brunaþéttingin a.m.k. að uppfylla þá kröfu.
Pípulagnir
Vatnsrör
Brunaþéttingar með vatnslögnum úr plasti, alpex og öðru sambærilegu undir 32mm. Hér er nóg að nota brunakítti beggja vegna skilanna. Annað hvort er um að ræða steyptan vegg eða gifsvegg með tvöföldu gifsi beggja vegna og einangraður með steinull. Byggingarhlutinn þarf að vera a.m.k. 150mm þykkur. Þar sem rörin eru með brennanlegri einangrunarkápu þarf að fjarlægja kápuna þar sem rörið fer í gegnum vegginn. Ef um er að ræða steinullarkápu (óbrennanleg) er ekki nauðsynlegt að rjúfa kápuna. Vatnsrör yfir 32mm má nota herpihólka Þegar pípulagnir eru úr óbrennanlegum efnum er nóg að þétta með þeim beggja vegna við brunahólfandi vegg (lagnir undir ≤110mm í þvermál).
Frárennsli
Notaðir er við herpihólka á frárennslislagnir yfir 32mm. Þar sem um steypta veggi eða hæðaskil er að ræða má nota þensluborða sem eru sambærilegir og herpihólkar en nota steypuna sem viðspyrnu í stað stálhrings. Þessir borðar eru aðallega notaðir í hæðaskilum í þessu verki, sjá mynd hér að neðan.
Þegar lagnir koma yfir 110mm, en úr óbrennanlegum efnum, þarf að einangra þær beggja vegna skilanna til að tryggja að varmaleiðni valdi ekki íkveikju handan skilanna. Að öðru leyti er kíttað með þeim og þétt á viðeigandi hátt.
Loftræsikerfi
Skv. Brunahönnun og byggingarreglugerð kemur eftirfarandi fram: „Loftræsikerfi skal þannig hannað og frá því gengið að það rýri hvorki brunahólfun byggingar né stuðli að útbreiðslu elds og reyks við bruna.“ Jafnframt er vísað í DS 428.
Á loftræsiteikningum kemur fram hvar eiga að vera brunalokur og hvar ekki. Allur frágangur á brunalokum skal vera í samræmi við framleiðanda viðkomandi brunaloku. Frágangur getur verið mismunandi eftir því hvort skilin eru EI 90 eða EI 60, jafnframt þarf sérstakan frágang þegar brunaloka er ekki í veggnum eða þétt upp við hann.
• Frágangurinn skal hindra að hiti og reykur af völdum bruna streymi í gegnum byggingarhlutana.
• Þar sem viðurkennd bruna- eða logaloka er í stokkum sem liggja í gegnum brunahólfandi
byggingarhluta skal festa þær og brunaþétta með þeim skv. leiðbeiningum framleiðenda
lokanna og þéttiefnanna. Það sama á við um EI 30/E 60 (ve ho i ↔ o) A2-s1,d0 stokka
sem liggja í gegnum brunahólfandi byggingarhluta.
• Þar sem stór göt eru í brunahólfandi byggingarhluta og þar sem margar lagnir með
óskilgreinda brunamótstöðu liggja saman í gegnum gat skal brunaþétta þau með öruggum
hætti.
• Brunaþétta skal með öðrum stokkum sem liggja í gegnum brunahólfandi byggingarhluta
þannig að brunamótstaða þeirra rýrni ekki.
Ef frágangur á stokkum sem liggja í gegnum brunahólfandi byggingarhluta er ekki gerður með viðurkenndum brunalokum eða einangrunarkerfi skal styrkja kantaða stokka gegn formbreytingum t.d. með því að staðsetja stokkavinkla eða bita í innan við 150 mm fjarlægð frá byggingarhlutanum. Festa skal vinklana eða bitana með mest 200 mm millibili í kringum stokkinn.
Ef álitamál eru um frágang á loftræsistokkum m.t.t. brunavarna skal haft samband við loftræsihönnuð sem leitar ráða hjá brunahönnuði ef á þarf að halda.