Norðursjór, 10.000 vindmyllur – Á næstu árum og áratugum
Grein/Linkur: Tíu þúsund risastórar vindmyllur
Höfundur: Borgþór Arngrímsson, Kjarninn
.
.
Maí 2022
Tíu þúsund risastórar vindmyllur
Á næstu árum og áratugum verða reistar 10 þúsund vindmyllur, til raforkuframleiðslu, í Norðursjónum. Samkomulag um þessa risaframkvæmd, sem fjórar þjóðir standa að, var undirritað í Danmörku sl. miðvikudag
Margir Íslendingar þekkja Sunnanvind, lagið sem Örvar Kristjánsson söng, við texta Jóns Sigurðssonar (í bankanum) en lagið samdi Pat Ballard. Forsætisráðherra Danmerkur og fulltrúar Evrópusambandsins, Þýskalands, Hollands og Belgíu þekkja líklega ekki þetta lag en vita hinsvegar vel um gagnsemi vindsins, úr hvaða átt sem hann blæs.
Mette Frederiksen, Ursula van der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB, Olaf Scholz kanslari Þýskalands, Mark Rutte forsætisráðherra Hollands og Alexander De Croo forsætisráðherra Belgíu hittust, ásamt embættismönnum, í Esbjerg á suðvesturströnd Jótlands. Tilefni fundarins var undirritun samkomulags, sem verið hafði í undirbúningi um nokkurt skeið. Samkomulagið snýst um vindmyllur til raforkuframleiðslu.
Samkomulagið sem undirritað var í Esbjerg gerir ráð fyrir að löndin fjögur, Danmörk, Þýskaland, Holland og Belgía setji upp á næstu áratugum tíu þúsund vindmyllur úti fyrir ströndum landanna, í Norðursjó. Þessi áætlun er liður í markmiði Evrópusambandsins um að hlutleysi í kolefnisjöfnun verði náð árið 2050. Eigi það að takast þarf að halda vel á spöðunum.
Undirbúningur samkomulagsins hefur staðið lengi og tengist ekki, nema þá óbeint, átökunum í Úkraínu.
150 gígavött
Þegar myllurnar tíu þúsund verða komnar í gagnið eiga þær að geta framleitt samtals 150 gígavött, sem nægir til að sjá 230 milljónum heimila fyrir rafmagni. Til samanburðar má nefna að þær myllur sem í dag má sjá víða úti fyrir ströndum Danmerkur framleiða samtals 2,3 gígavött.
Skaga 250 metra upp í loftið
Myllurnar tíu þúsund verða engin smásmíði, rúmlega 250 metra háar, frá yfirborði sjávar, meira en þreföld hæð Hallgrímskirkjuturnsins í Reykjavík. Tilraunir með myllur af þessari stærð hafa um nokkurt skeið staðið yfir í Norðursjónum á vegum tveggja framleiðenda, Vestas og Siemens. Í Danmörku eru í dag tvær myllur sem eru hærri, þær standa báðar á landi og sú hærri skagar heila 330 metra upp í loftið.
Samkvæmt samkomulaginu sem undirritað var í Esbjerg sl. miðvikudag mun tæpur fjórðungur myllanna tíu þúsund standa á dönsku hafsvæði, úti fyrir vesturströnd Jótlands.
Samtengt dreifikerfi
Það er ekki nóg að geta framleitt rafmagn, það þarf líka að vera hægt að koma því til neytendanna. Árum saman hafa stjórnmálamenn og sérfræðingar rætt um nauðsyn þess að tengja saman raforkukerfi Evrópulandanna. Þjóðverjar hafa lengi glímt við „flöskuháls“ í sínu flutningskerfi, milli norðurhluta landsins og suðurhlutans. Þjóðverjar hafa þurft að reiða sig á kol, olíu og gas til rafmagnsframleiðslu. Nú stendur til að bæta úr þessu með eins konar samtengingu, þá þurfa Danir til dæmis ekki að stöðva myllurnar til að koma í veg fyrir að kerfið hrynji (eins og danskir fjölmiðlar orða það) vegna offramleiðslu, sem ekki er hægt að losna við. Þegar myllurnar komast í gagnið, verða í sumum tilvikum, útbúnar svonefndar orkueyjar, eins konar dreifivirki, þar sem orkunni frá mörgum myllum verður safnað saman, ef þannig má að orði komast, áður en hún verður send áfram. Orkueyjarnar verða samtengdar og með því móti hægt að dreifa orkunni milli landa (á vissan hátt hliðstætt landsnetinu hér á Íslandi) burtséð frá hvar orkan verður til. Vegna þess að orkueyjarnar eru mun kostnaðarsamari en að senda orkuna beina leið til lands frá hverju „myllusvæði“ eins og gert hefur verið til þessa verður „gamla“ aðferðin notuð í mörgum tilvikum. Þess má geta að Danir höfðu í fyrra ákveðið að byggja eina orkuey, hugmyndafræðin sú sama og nú er ákveðin í 10 þúsund mylla verkefninu.
Mjög flókið
Að byggja og reisa 10 þúsund risastórar vindmyllur, koma þeim fyrir á hafsbotni, leggja kapla og leiðslur til orkueyjanna, koma orkunni til lands og svo áfram til notenda er mjög flókið verkefni, og dýrt. Það mun hinsvegar skapa mörg störf, enginn hefur nefnt tölur í því sambandi en ljóst er að þau muni skipta þúsundum. Kostnaður og fjármögnun hefur ekki mikið verið rætt fram að þessu en danskir lífeyrissjóðir hafa lýst yfir miklum áhuga á að fjárfesta í þessu verkefni.
Tilgangurinn er tvíþættur
Þjóðir Evrópusambandsins hafa lengi haft ákveðnar áhyggjur af hve háðar þær hafa verið Rússum um orkukaup. Innrás Rússa í Úkraínu hefur ekki orðið til að draga úr þeim áhyggjum. ESB þjóðirnar reyna nú hver af annarri að finna leiðir til að losna úr klóm rússneska bjarnarins að þessu leyti, stóra vindmylluverkefnið er ein þeirra leiða. Mylluverkefnið er ennfremur skref í grænu orkuskiptunum.
Á fréttamannafundi sem haldinn var við undirskrift samkomulagsins í Esbjerg spurði einn viðstaddra hvort hægt væri, í ljósi veðurfarsbreytinga, að tryggja nægan vind á Norðursjónum næstu áratugi. Danski orkumálaráðherrann taldi ótta um logn á Norðursjó ástæðulausan.