Norðursjór, 10.000 vindmyllur – Á næstu árum og áratugum

Grein/Linkur: Tíu þúsund risastórar vindmyllur

Höfundur: Borgþór Arngrímsson, Kjarninn

Heimild:

.

Mynd – signwiki.org

.

Maí 2022

Tíu þúsund risastórar vindmyllur

Á næstu árum og áratugum verða reistar 10 þúsund vindmyllur, til raforkuframleiðslu, í Norðursjónum. Samkomulag um þessa risaframkvæmd, sem fjórar þjóðir standa að, var undirritað í Danmörku sl. miðvikudag

Mette Frederiksen, Ursula van der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB, Olaf Scholz kanslari Þýskalands, Mark Rutte forsætisráðherra Hollands og Alexander De Croo forsætisráðherra Belgíu hittust í Esbjerg.

Mynd – EPA

Margir Íslend­ingar þekkja Sunn­an­vind, lagið sem Örvar Krist­jáns­son söng, við texta Jóns Sig­urðs­sonar (í bank­an­um) en lagið samdi Pat Ball­ard. For­sæt­is­ráð­herra Dan­merkur og full­trúar Evr­ópu­sam­bands­ins, Þýska­lands, Hollands og Belgíu þekkja lík­lega ekki þetta lag en vita hins­vegar vel um gagn­semi vinds­ins, úr hvaða átt sem hann blæs.

Mette Frederiksen, Ursula van der Leyen for­seti fram­kvæmda­stjórnar ESB, Olaf Scholz kansl­ari Þýska­lands, Mark Rutte for­sæt­is­ráð­herra Hollands og Alex­ander De Croo for­sæt­is­ráð­herra Belgíu hittu­st, ásamt emb­ætt­is­mönn­um, í Esbjerg á suð­vest­ur­strönd Jót­lands. Til­efni fund­ar­ins var und­ir­ritun sam­komu­lags, sem verið hafði í und­ir­bún­ingi um nokk­urt skeið. Sam­komu­lagið snýst um vind­myllur til raf­orku­fram­leiðslu.

Sam­komu­lagið sem und­ir­ritað var í Esbjerg gerir ráð fyrir að löndin fjög­ur, Dan­mörk, Þýska­land, Hol­land og Belgía setji upp á næstu ára­tugum tíu þús­und vind­myllur úti fyrir ströndum land­anna, í Norð­ur­sjó. Þessi áætlun er liður í mark­miði Evr­ópu­sam­bands­ins um að hlut­leysi í kolefn­is­jöfnun verði náð árið 2050. Eigi það að takast þarf að halda vel á spöð­un­um.

Und­ir­bún­ingur sam­komu­lags­ins hefur staðið lengi og teng­ist ekki, nema þá óbeint, átök­unum í Úkra­ínu.

150 gíga­vött

Þegar myll­urnar tíu þús­und verða komnar í gagnið eiga þær að geta fram­leitt sam­tals 150 gíga­vött, sem nægir til að sjá 230 millj­ónum heim­ila fyrir raf­magni. Til sam­an­burðar má nefna að þær myllur sem í dag má sjá víða úti fyrir ströndum Dan­merkur fram­leiða sam­tals 2,3 gíga­vött.

Skaga 250 metra upp í loftið

Myll­urnar tíu þús­und verða engin smá­smíði, rúm­lega 250 metra háar, frá yfir­borði sjáv­ar, meira en þre­föld hæð Hall­gríms­kirkju­turns­ins í Reykja­vík. Til­raunir með myllur af þess­ari stærð hafa um nokk­urt skeið staðið yfir í Norð­ur­sjónum á vegum tveggja fram­leið­enda, Vestas og Siem­ens. Í Dan­mörku eru í dag tvær myllur sem eru hærri, þær standa báðar á landi og sú hærri skagar heila 330 metra upp í loft­ið.

Sam­kvæmt sam­komu­lag­inu sem und­ir­ritað var í Esbjerg sl. mið­viku­dag mun tæpur fjórð­ungur myll­anna tíu þús­und standa á dönsku haf­svæði, úti fyrir vest­ur­strönd Jót­lands.

Sam­tengt dreifi­kerfi

Það er ekki nóg að geta fram­leitt raf­magn, það þarf líka að vera hægt að koma því til neyt­end­anna. Árum saman hafa stjórn­mála­menn og sér­fræð­ingar rætt um nauð­syn þess að tengja saman raf­orku­kerfi Evr­ópu­land­anna. Þjóð­verjar hafa lengi glímt við „flösku­háls“ í sínu flutn­ings­kerfi, milli norð­ur­hluta lands­ins og suð­ur­hlut­ans. Þjóð­verjar hafa þurft að reiða sig á kol, olíu og gas til raf­magns­fram­leiðslu. Nú stendur til að bæta úr þessu með eins konar sam­teng­ingu, þá þurfa Danir til dæmis ekki að stöðva myll­urnar til að koma í veg fyrir að kerfið hrynji (eins og danskir fjöl­miðlar orða það) vegna offram­leiðslu, sem ekki er hægt að losna við. Þegar myll­urnar kom­ast í gagn­ið, verða í sumum til­vik­um, útbúnar svo­nefndar orku­eyj­ar, eins konar dreifi­virki, þar sem orkunni frá mörgum myllum verður safnað sam­an, ef þannig má að orði kom­ast, áður en hún verður send áfram. Orku­eyj­arnar verða sam­tengdar og með því móti hægt að dreifa orkunni milli landa (á vissan hátt hlið­stætt lands­net­inu hér á Íslandi) burt­séð frá hvar orkan verður til. Vegna þess að orku­eyj­arnar eru mun kostn­að­ar­sam­ari en að senda ork­una beina leið til lands frá hverju „myllu­svæði“ eins og gert hefur verið til þessa verður „gamla“ aðferðin notuð í mörgum til­vik­um. Þess má geta að Danir höfðu í fyrra ákveðið að byggja eina orku­ey, hug­mynda­fræðin sú sama og nú er ákveðin í 10 þús­und mylla verk­efn­inu.

Mjög flókið

Að byggja og reisa 10 þús­und risa­stórar vind­myll­ur, koma þeim fyrir á hafs­botni, leggja kapla og leiðslur til orku­eyj­anna, koma orkunni til lands og svo áfram til not­enda er mjög flókið verk­efni, og dýrt. Það mun hins­vegar skapa mörg störf, eng­inn hefur nefnt tölur í því sam­bandi en ljóst er að þau muni skipta þús­und­um. Kostn­aður og fjár­mögnun hefur ekki mikið verið rætt fram að þessu en danskir líf­eyr­is­sjóðir hafa lýst yfir miklum áhuga á að fjár­festa í þessu verk­efni.

Til­gang­ur­inn er tví­þættur

Þjóðir Evr­ópu­sam­bands­ins hafa lengi haft ákveðnar áhyggjur af hve háðar þær hafa verið Rússum um orku­kaup. Inn­rás Rússa í Úkra­ínu hefur ekki orðið til að draga úr þeim áhyggj­um. ESB þjóð­irnar reyna nú hver af annarri að finna leiðir til að losna úr klóm rúss­neska bjarn­ar­ins að þessu leyti, stóra vind­myllu­verk­efnið er ein þeirra leiða. Myllu­verk­efnið er enn­fremur skref í grænu orku­skipt­un­um.

Á frétta­manna­fundi sem hald­inn var við und­ir­skrift sam­komu­lags­ins í Esbjerg spurði einn við­staddra hvort hægt væri, í ljósi veð­ur­fars­breyt­inga, að tryggja nægan vind á Norð­ur­sjónum næstu ára­tugi. Danski orku­mála­ráð­herr­ann taldi ótta um logn á Norð­ur­sjó ástæðu­laus­an.

Fleira áhugavert: