Norðlingaölduveita 2012 – Nýtingar eða verndarflokk

Grein/Linkur: Norðlingaölduveitu í nýtingarflokk

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild:

.

.

Desember 2012

Norðlingaölduveitu í nýtingarflokk

Samkvæmt þingsályktunartillögu um Rammaáætlun er stefnt að þvi að Norðlingaölduveitu verði skipað í verndarflokk.

Kortið hér til hliðar sýnir núverandi virkjanir og veitur á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu – auk þeirra framkvæmda sem Landsvirkjun hefur áhuga á að ráðast þarna í. Þar á meðal er Norðlingaölduveita. Norðingaölduveita felst í því að stífla Þjórsá nokkra km sunnan Hofsjökuls og mynda þannig lón, sem kallað hefur verið Norðlingaöldulón. Þaðan myndi vatninu verða veitt um jarðgöng til austurs, uns það sameinast vatni frá  Kvíslaveitu og fellur til Þórisvatns. Og þaðan í virkjanir Landsvirkjunar, hverja á fætur annarri. Þar með yrði unnt að auka raforkuframleiðslu virkjananna mjög mikið eða vel yfir 600 GWst árlega.

Nordlingaolduveita-samanburdur-litilÁður en lengra er haldið er vert að taka fram að þarna er ekki um að ræða stóra lónið, sem sumir höfðu áhuga á að mynda fyrir nokkuð mörgum árum síðan. Vatnshæð þess átti að ná 575 m yfir sjávarmál og lónið, sem hefði orðið allt að 29 ferkm, hefði teygt sig inn í Þjórsárver; hið einstaka friðland og votlendissvæði. Til allrar hamingju höfnuðu stjórnvöld þeirri framkvæmd og féllust þess í stað á miklu minna lón. Það er Norðlingaöldulónið sem hér er til umfjöllunar (sjá má muninn á þessum tveimur lónum á kortunum tveimur hér að ofan). Lónið í þessari nýju útfærslu mun í hæstu stöðu ná 567,5 m yfir sjávarmál og í mesta lagi verða um 5 ferkm. Út frá umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum er sem sagt himin og haf milli upphaflegra hugmynda um Norðlingaölduveitu og þess sem nú er á dagskrá.

Nordlingaolduveita-LV-1Sem fyrr segir, þá hefur þessi framkvæmd þann tilgang að auka orkugetu virkjana Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu vel yfir 600 GWst á ári. Til samanburðar má nefna, að vinnslugeta Kröfluvirkjunar er 480 GWst á ári og Blönduvirkjun framleiðir um 720 GWst árlega.

Norðlingaölduveita ein og sér – án þess að byggja þurfi nýja virkjun – myndi því auka framleiðslu Landsvirkjunar langt umfram það sem t.d. Kröfluvirkjun framleiðir og slaga hátt í framleiðslu Blönduvirkjunar. Og þessar rúmlega 600 GWst sem Norðlingaölduveita myndi skila er t.d. talsvert mikið meira en fyrirhuguð Hólmsárvirkjun á að framleiða.

Rammaaaetlun-forsida-2Það ætti því ekki að koma neinum á óvart, að Norðlingaölduveita er sögð vera einhver allra hagvæmasti möguleikinn til að auka raforkuframleiðslu á Íslandi. Enda skoraði veitan mjög vel í hagkvæmnisflokkun Rammaáætlunar. Engu að síður er nú lögð fram sú tillaga af hálfu iðnaðarráðherra (sem byggir á tillögu þeirra sem unnu Rammaáætlunina) að fallið skuli frá hugmyndum um Norðlingaölduveitu.

Nordlingaolduveita-LV-4Rökin fyrir því að nýta ekki þennan geysilega hagkvæma raforkuframleiðslukost eru í hnotskurn svohljóðandi [leturbreyting er Orkubloggarans]: „Felur í sér röskunvestan Þjórsár á lítt snortnu landi í jaðri Þjórsárvera, auk áhrifa á sérstæða fossa í Þjórsá. Kvíslaveitur hafa nú þegar virkjað þverár sem falla í Þjórsá að austan, en kvíslum vestan ár hefur verið hlíft. Virkjunarkostur sem liggur á jaðri svæðis með hátt verndargildisem menn eru sammála um að eigi að njóta friðunar. Mannvirki rétt við friðland yrðu til lýta. Því þykir rétt að vernd á svæðinu verði látin hafa forgang.“

Norðlingaölduveita er sem sagt felld á tveimur meginatriðum: Annað er nálægðin við Þjórsárver. Hitt er að þessi framkvæmd myndi skerða rennslið um Þjórsá og þannig hafa áhrif á „sérstæða“ fossana þar fyrir neðan.

Kvislaveita- Hofsjokull-1Þessi rök væru skiljanleg ef þarna væri um að ræða stórt og óraskað víðerni (eins og á við um svæðin við Hólmsá). En svo er alls ekki. Það er löngu búið að raska fossunum þarna í Þjórsá fyrir neðan fyrirhugað Norðlingaöldulón. Það var gert fyrir mörgum árum með Kvíslaveitu (sem sjá má á kortinu hér efst í færslunni, sbr. einnig myndin hér til hliðar). Með þeim framkvæmdum var vatnsrennslið um Þjórsá þarna uppi á hálendinu skert stórlega – og þar með hið villta vatnsrennsli um fossana sem eru neðan fyrirhugaðs Norðlingaöldulóns. Þess vegna er verndun svæðisins við Norðlingaöldu eiginlega marklaus – nema kannski ef á sama tíma yrði beinlínis ákveðið að leggja Kvíslaveitu niður og færa landið og vatnsrennslið þarna austan Hofsjökuls í fyrra horf.

Dynkur-05Já – fossunum neðan Norðlingaöldu var fórnað á sínum tíma með Kvíslaveitu og eru nú varla svipur hjá sjón. Í huga Orkubloggarans er ekki mikið náttúruverndargildi í slíkum fölnuðum fossum. Og þar sem Norðlingaöldulónið yrði þar að auki talsvert langt utan Þjórsárvera, eru öll helstu rök gegn Norðlingaölduveitu fallin.

Þar að auki er Norðlingaölduveita, sem fyrr segir, einhver allra ódýrasti kosturinn á Íslandi öllu til raforkuframleiðslu. Þegar allt er saman tekið þykir Orkubloggaranum rökin að baki því að stöðva Norðlingaölduveitu vera ansið veik og horfa framhjá skynsamlegri forgangsröðun virkjunarkosta á Íslandi. Eðlilegast væri að fallast á framkvæmdina og skipa Norðlingaölduveitu í nýtingarflokk. Eða a.m.k. í biðflokk meðan nánari athugun fer fram á forgangsröðun á þeim fjölmörgu virkjunarkostum sem Alþingi mun að öllum líkindum setja í biðflokkinn.

Fleira áhugavert: