LSH Frankfurt 1999 – Skólpdælur, hitakefi, lofttæmingar

Grein/Linkur: Skólpinu dælt, ofnarnir lofttæmdir

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Maí 1999

Skólpinu dælt, ofnarnir lofttæmdir

Skólpdælur af mismunandi stærðum voru sýndar á lagnasýningunni í Frankfurt.. Athygli vakti einnig, að talsvert var þar sýnt af vegghita.

Gömlu steinröralagnirnar, sem liggja í grunnum eldri húsa, munu á næstu árum valda miklum vanda. Þetta er ekki einkennilegt, hrörnun þessara lagna er mjög eðlileg, aldurinn segir til sín.

Það er mikið rask þegar slíkar lagnir eru endurnýjaðar og ástæða til að staldra við í hvert sinn og athuga vel og vandlega hvernig skuli standa að endurnýjun. Á lagnasýningunni í Frankfurt voru að sjálfsögðu sýnd frárennslisrör úr plasti, steypujárni og einnig úr ryðfríu stáli, sem engum sögum fer af að hafi verið notuð hérlendis.

En þarna voru einnig sýndar aðrar lausnir, skólpdælur af mismunandi stærðum, sumar hafa verið notaðar hérlendis með góðum árangri. Sumar dælurnar voru ekki stærri en það að þær anna því sem til fellur af skólpi á einu heimili, en á sýningunni voru einnig sýndar millistærðir sem ráða við meira magn. Það er vissulega athugandi við endurlagnir í eldri hús hvort ekki sé í sumum tilfellum vænlegra að brjóta sem minnst, gleyma gömlu lögnunum og gera þær óskaðlegar, en nota dælur til að losna við skólpið.

Það má minna á að það þótti fáránlegt fyrir hálfri öld að nota dælur á hitakerfi, vatnið í miðstöðvarkerfunum átti að stíga upp við hitun og ekki orð um það meira.

Þannig er það enn með skólpið, það skal renna af sjálfu sér, aðdráttarafl jarðar skal sjá um þann flutning.

En er það sjálfsagður hlutur?

Gólfhitakerfi aukast stöðugt

Við tölum stundum um gólfhita hérlendis eins og hann sé einhver nýjung, en svo er alls ekki, þó ekki hafi hann verið algengur. Það er mikið að breytast og í Vestur-Evrópu er hann að verða eitt algengasta hitakerfið í húsum. Hérlendis hefur hann átt erfitt uppdráttar vegna þess að hann var oft rangt eða ekki hannaður, rör ekki rétt lögð, en þó réði það úrslitum að of heitt vatn var í kerfunum og gólfin því of heit.

Því miður eru enn í dag finnanlegir pípulagningamenn, sem leggja og tengja gólfhitakerfi þannig að fullheitu vatni, allt að 75 C, er hleypt inn á kerfin. Það er ekkert annað hægt að segja um slík vinnubrögð en að þau eru stórlega vítaverð og er sjálfsagt að rökstyðja það ef óskað er.

En í Frankfurt vakti það athygli að talsvert var sýnt af vegghita, sem heldur er ekki nein nýjung, en hefur yfirleitt ekki sést á sýningum.

Við endurlagnir er það ekki slæmur kostur að nota vegghita þar sem ekki er hægt að koma gólfhita fyrir vegna lágmarks lofthæðar.

Hinsvegar eru margir framleiðendur plaströra, sem reyna að skapa heildstæð kerfi, að koma til móts við endurlagnamarkaðinn með því að framleiða grennri plaströr en áður hafa sést í gólfhitakerfum, þau grennstu sem sáust voru 6 mm, ­ þetta er ekki prentvilla.

Öllum brögðum beitt

Margir framleiðendur ganga æði langt til að vekja á sér athygli, þó ekki sé um stórbrotna vöru að ræða. Í einum básnum stóðu þrjár þeldökkar ungar stúlkur og að sjálfsögðu fáklæddar. Þær virtust önnum kafnar, þegar nánar var að gáð voru þær í starfi sem nánast hver maður þekkir, þær voru að tappa lofti af ofnum. Og hvað var svona merkilegt við það að tappa lofti af ofnum?

Einfaldlega lítið plastbox sem var fast á loftskrúfulyklinum og tók við vatninu þegar loftið þraut og kom þar með í veg fyrir að það læki niður á teppi eða parkett.

Hinsvegar kann að vera að æði margir af þeim karlpeningi, sem stóðu með augun á stilkum við þennan bás, hafi ekkert tekið eftir þessu undurverki, þar er að sjálfsögðu átt við loftskrúfulyklana snjöllu.

Fleira áhugavert: