Hitablásarar – Í verslunum, verkstæðum, lagerum

Grein/Linkur: Í Bónus er dregin björg í bú

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Febrúar 2005

Í Bónus er dregin björg í bú

Það er föstudagur síðdegis. Rennihurðir renna hvatlega til hliðar, hún gengur vasklega inn, hann dratthalast á eftir.

Hún hrifsar til sín síðustu kerruna, snýr henni við að bragði og skýtur henni honum í fang, vinnulúnar hendur grípa um rörið ósjálfrátt, augun starandi og viljalaus með öllu, enda líka eins gott.

Hér á hann hvorki að hugsa, hafa skoðun eða segja orð. Hann á að aka innkaupakörfu í kjölfar hennar án þess að rekast á nokkurn annan, því síður á vörurekka og allra síst á þrýstinn afturendann sem er hans eina siglingamerki.

Hjónin eru komin í Bónus í sína vikulegu innkaupaferð síðdegis á föstudegi.

En svo koma einstaklingar, aðallega konur aleinar á ferð, einn og einn kindarlegur einmana karl. Tveir miðaldra menn koma saman, taka hvor sína körfuna, líklega æskuvinir sem fara í Bónus á föstudögum til að rifja upp gamlar grobbsögur og hvíla sig á málhvötum konum sínum sem koma þreyttar heim á þessum dögum eftir erfiði vikunnar. En þetta geta líka verið menn sem eiga miklu meira sameiginlegt, en taka tvær kerrur traustataki svona til öryggis, ekki alveg komnir í gegnum gættina.

Já, það er líf og fjör í Bónus á föstudögum, allir að kaupa ódýrt og þá er auðvitað sjálfsagt að kaupa mikið, hagkvæmni góðra innkaupa eykst með hverjum þúsundkallinum sem hverfur við kassann.

Inni er notalegt, eitthvað annað en þræsingurinn utan dyra.

Nístingskalt hjá mjólkinni og kjötinu, hramsa þar sem fyrst það sem vantar og koma sér aftur fram í hlýjuna.

Þessi gæti sem best verið Bónusblásari, á bílaverkstæði hefur hann örugglega aldrei komið

En hvaðan kemur hlýjan? Eitt er hægt að fullyrða.

Varla nokkur einasta mannpersóna í Bónusbúð hugsar út í það hvaðan hlýjan kemur. Ef það er sæmilega hlýtt þá er hverjum og einum sama og fer áreiðanlega ekki að grufla í því. Ekki nema einstaka sérvitringur sem alltaf er að reka augun í það sem hann á ekki að sjá og hugsa um það sem honum kemur ekki við.

Hvað hangir í loftinu? Tæplega má ætla að kerruökuþórinn á eftir þybbnu konunni taki eftir því þó hann standi skyndilega í heitum loftstraumi á milli tveggja rekka.

Hann er fyrir löngu kominn á sólarströndu með romm í glasi og heyrir hvorki né sér, hvað þá finnur fyrir einhverjum heitum andblæ ofan úr loftinu.

En þar beint yfir honum er eitthvert vinsælasta hitatæki eða varmagjafi sem Íslendingar hafa tekið upp á arma sína.

Hann stendur undir hitablásara.

Í Bónus er öruggt að þetta er vel málaður blásari, líklega hvítur, það heyrist þó nokkuð í honum og það má sjá leiðslur, loka og mæla með gleri utan á kassanum. Hér á hitablásarinn góða vist, hann er í nokkuð hreinu umhverfi, vinnur sitt verk að blása Bónusloftinu hring eftir hring svo það hitni þegar það fer um plötur og rör inni í kassanum.

En það eru ekki allir hitablásarar svo heppnir að vera Bónusblásarar og eiga jafn góða ævi og þessir sem hanga þarna uppi undir lofti.

Tæplega er til nokkur smiðja, verkstæði, lager, eða annar vinnustaður þar sem menn þurfa að taka til hendi, að þar séu ekki þó nokkrir hitablásarar.

Margir eru löngu gleymdir, urra slitnir af gömlum vana, hita lítið sem ekki neitt því þeir eru fyrir löngu orðnir fullir af því ryki og skít sem þeir hafa safnað í sig á langri ævi.

Það skyldi þó ekki vera að slíkur gripur sé á þínum vinnustað? Líttu upp og gáðu, hvað sérðu?

Það er líka forvitnilegt fyrir þann sem kemur með bílinn á dekkjaverkstæðið að líta upp, hvað sést þar, það skyldi þó ekki vera að þar séu nokkrir blásarar sem falla eins og flís við rass að fyrrnefndri lýsingu.

Nokkur áhersluatriði

Það má lengi deila um það hvort hitablásarar séu heppilegustu varmagjafar í verslunum, verkstæðum, lagerum og á fleiri vinnustöðum. Einhverra hluta vegna eru þeir valdir oftar og víðar en nokkrir aðrir varmagjafar þó vissulega sé gólfhitinn farinn að vera þeim nokkur keppinautur og engin ástæða til að sýta það.

En ef hitablásari er valinn þá er fernt sem er höfuðnauðsyn. Í fyrsta lagi að velja hitablásara sem eru lágværir, í öðru lagi að búa þá út með vel valinni stýringu svo ekki verði sóun á heitu vatni en þó hitaþægindi, í þriðja lagi að fá með þeim hreinsigrindur sem varna óþægindum að komast inn í blásarann, grindur sem auðvelt er að taka niður og hreinsa án þess að hreyfa blásarann og í fjórða lagi að einangra vandlega allar leiðslur sem flytja heita vatnið inn í blásarann.

Það er með ólíkindum hvað hinur vísustu menn eru glámskyggnir á þetta; að einangra leiðsluna með heita vatninu.

Hver varmagráða, sem glatast á leiðinni að hitablásaranum, er horfin með öllu og ef hitafallið er verulegt rýrir það stórlega hitastreymið frá blásaranum.

Svo má ekki gleyma því að hitablásarar þurfa eftirlit og viðhald eins öll önnur tæki sem maðurinn hefur skapað.

Fleira áhugavert: