Náttúruverndar- og minjastofnun, Náttúruvísindastofnun, Loftslagsstofnun – 3 stofnanir í stað 10
Grein/Linkur: Þrjár öflugar stofnanir í stað tíu
Höfundur: Stjónarráðið
.
.
Þrjár öflugar stofnanir í stað tíu
- Náttúruverndar- og minjastofnun – þar sameinast Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun
- Náttúruvísindastofnun – þar sameinast Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands, ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn
- Loftslagsstofnun – þar sameinast Orkustofnun og öll svið Umhverfisstofnunar utan náttúruverndarsviðs
Gert er ráð fyrir skýrum kjarna í starfsemi hverrar stofnunar og lögð áhersla á sveigjanleika í tilfærslum verkefna til milli stofnana til að auka árangur, skilvirkni og hagræðingu. Endanleg afstaða hefur ekki verið tekin til staðsetninga höfuðstöðva nýrra stofnana, en með tilliti til byggðasjónarmiða er lögð mikil áhersla á fjölgun starfa á landsbyggðinni. Innlegg í þessa vinnu er einnig yfirstandandi skoðun á ÍSOR þar sem leiðarljósið er að tryggja að stofnunin geti áfram veitt orkuiðnaðinum og opinberum aðilum þjónustu og ráðgjöf á sínu sviði.
Sameiningunni er m.a. ætlað að ná þeim markmiðum að:
- Til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.
- Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
- Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu
- Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
- Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni.
- Tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.
Guðlaugur Þór umhverfis-, orku og loftslagsráðherra: „Stóra markmiðið er að efla stofnanir ráðuneytisins til að takast á við gríðarlegar áskoranir sem bíða okkar sem samfélags og eru þar loftslagsmálin efst á blaði. Með nýju stofnanaskipulagi er stefnt að því að auka skilvirkni og draga úr sóun sem hlýst af tvítekningu og skorti á samstarfi. Einnig eru mikil sóknarfæri í fjölgun starfa á landsbyggðinni, fjölgun á störfum óháð staðsetningu og uppbyggingu eftirsóknarverðra vinnustaða.“
Næstu skref
Í undirbúningi er að setja strax af stað vinnu með fulltrúum stofnana varðandi mannauðsmál, húsnæðismál og upplýsingatækni og gert er ráð fyrir að vinna við lagafrumvörp um nýju stofnanirnar þrjár verði í forgangi.
Stofnanir ráðuneytisins í dag eru 13 með um 600 starfsmenn á um 40 starfsstöðvum víða um land og eru 61% starfanna á höfuðborgarsvæðinu. Þær stofnanir sem heyra undir ráðuneytið eru: Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Landmælingar Íslands, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn, Orkustofnun, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Úrvinnslusjóður, Vatnajökulsþjóðgarður, Veðurstofa Íslands og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.