Gíneuflóinn, olía – Angola, Nígería
Grein/Linkur: Frá miðbaugi að Eyríki
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Desember 2008
Frá miðbaugi að Eyríki
Eins og dyggir lesendur Orkubloggsins vita, þá er nú byrjað mikið djúpborunarævintýri í Mexíkóflóanum. En það er jafnvel hægt að finna ennþá meira spennandi hafsvæði.
Þannig virðist Brasilíudýpið utan við Rio de Janeiro geyma brjálæðislegar olíulindir. En kannski er Gíneuflóinn bestur? Hann er a.m.k. töfraorðið í djúpvinnslubransanum í dag.
Olíuvinnsla á sér nokkuð langa og merka sögu í sumum þeirra ríkja, sem liggja að Gíneuflóanum. Þar er Nígería líklega dæmið sem flestir þekkja. Nígeríski olíuiðnaðurinn þykir reyndar einhver svakalegasta táknmynd þeirrar spillingar og harðræðis sem á sér víða stað í olíuríkjum þriðja heimsins. Milljarðar hverfa í vasa embættismanna og mannrán og skemmdarverk eru nánast daglegt brauð. Og þegar spillingin lætur ekki á sér kræla í smátíma reynist það “svikalogn” – því skýringin er að það hefur skollið á fellibylur.
Nígería hefur í áratugi verið langstærsti olíuframleiðandinn í Afríku. Komst upp í 2,5 milljón tunnur á dag fyrir nokkrum árum, en hefur allra síðustu árin verið að dansa í kringum 2 milljón tunnur. Lengst af hafa það verið Líbýa og Alsír sem komið hafa á hæla Nígeríu á olíuvinnslulista Afríku.
En nú hefur hið ótrúlega gerst á örskammri stundu. Snemma árs (2008) stökk Angóla upp í annað sætið með um 1,7 milljón tunnur og hratt vaxandi framleiðslu. Og um mitt árið varð ljóst að vesenið í Nígeríu var búið að minnka framleiðsluna þar í 1,8 milljón tunnur – meðan Angóla bætti við sig og var komið í 1,9 milljón tunnur á dag!
Þar af fara nú um 500 þúsund tunnur beint til Kína. Bandaríkin og Kína eru í miklum slag um olíuna frá semi-marxistunum í Angóla. Samdrátturinn í Nígeríu er talsvert áhyggjuefni fyrir Bandaríkin og ekki beint þeirra óskastaða hvernig Kínverjarnir laumuðust í angólsku olíuna.
Bandaríkin vilja minnka þörf sína fyrir á olíu frá Mið-Austurlöndum og því lykilatriði að þeir eigi góðan aðgang að Afríku. Þar að auki er mjög praktískt fyrir þá að flytja olíuna frá Vestur-Afríku beint yfir Atlantshafið. Þess vegna streyma nú olíuskip sömu leið og þrælaskipin streymdu fyrir tveimur öldum.
Já – Angóla er allt í einu orðinn mesti olíuframleiðandi Afríku. Hver hefði trúað því fyrir svona fimm árum? Enn sem komið er, fer mest af vinnslunni þar fram örskammt utan við ströndina. Og þetta er sannkallað hágæðagums. Nú eru sum olíufyrirtækin byrjuð að færa sig út á dýpið, utan við þröngt landgrunnið. Og eru vongóð um að djúpvinnsla geti innan skamms aukið framleiðslu í lögsögu Angóla um heilar 500 þúsund tunnur á dag.
Angóla hreinlega æðir áfram þessa dagana. Kannski verður Angóla búið að ná olíuframleiðslumagni Norðmanna eftir örfá ár. Og mun taka yfir virðulegan sess Noregs sem eitt mesta olíuútflutningsríki heims. Ekki leiðum að líkjast.
Meðan Angóla er nú í einhverri mestu olíu-uppsveiflu sem sögur fara af síðustu árin, fer olíuframleiðsla Norðmanna nefnilega hnignandi. Þess vegna er ekki skrítið að norsku skotthúfurnar í StatoilHydro eru nú þessa dagana einmitt að koma sér þægilega fyrir með flotpalla úti á Gíneuflóanum. Sama hvenær norska olían verður búin; Norðmenn ætla sér áfram að verða leiðandi í olíuvinnslu úr hafsbotni út um alla heim.
Horfur eru á að olíuævintýrið þarna í Gíneuflóanum sé eitt hið allra mest spennandi í bransanum þessa dagana. Menn eru komnir með vinnsluna út á allt að 3 þúsund metra dýpi og virðist enginn endir ætla að verða á því hvað þarna er að finna. Auk Mexíkóflóans er Gíneuflóinn að verða æðislegasti leikvöllur þeirra sem eru tilbúnir að leggja á djúpið. Þess vegna eru menn hjá fyrirtækum eins og Chevron, Shell og auðvitað Statoil nú með trylltan glampa í augum, þegar þeir horfa til Vestur-Afríku. Ásamt Kínverjunum auðvitað.
En hvaða olíusvæði skyldi verða heitast eftir að nýjabrumið hverfur af Vestur-Afríku-ævintýrinu? Það gæti orðið sjálft Norðrið. Verða kannski Barentshaf og jafnvel Drekasvæðið íslenska táknmynd nýrra tíma í olíuvinnslu? Upphaf olíulandnámsins mikla á Norðurskauti?
En áður en það mikla ævintýri hefst, væri kannski ráð að Ísland sameinist fyrst Grænlandi. Útlit er fyrir að mikil olía eigi eftir að finnast í grænlenskri lögsögu. Auðvitað ættu Grænland, Færeyjar, Ísland og Noregur að mynda eitt sambandsríki. Og taka upp sameiginlegan gjaldmiðil. Eiríkskrónu! Sem bæði rímar vel við Eirík rauða og Eyríki. Sem er tillaga Orkubloggsins um nafn á hið nýja ímyndaða draumastórveldi á Norðurhjaranum.