Þorrinn, góan – Rakastig í lofti

Grein/Linkur: Að þreyja þorrann og góuna

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Janúar 2006

Að þreyja þorrann og góuna

Sumir segja að fyrstu þrír mánuðirnir ársins séu þeir lengstu, lengri en aðrir mánuðir. Þó segir almanakið annað, að þeir séu rétt og slétt jafnlangir og aðrir sem síðar koma og meira að segja sá stysti, febrúar, er í þessum erfiða hópi. En nú eru jólin að baki með sína ljósadýrð, þau voru vin í eyðimörkinni, allt tímaskyn miðaðist við hátíðirnar og næsta viðmið er vorið. Mörgum finnst það langt í burtu en það er að koma brunandi, sanniði til.

Skammdegið leggst þungt á marga en þá er gott að búa í hlýju húsi með sírennandi varma til hitunar og heitt og kalt vatn í krönum, engin hætta á að ekki sé hægt að láta gjóla hreint loft inn um glugga. Þrátt fyrir það finnst sumum þeim ekki líða nógu vel þó þeir annars kunni ekkert illa við myrkrið og byljina, enda er það fleira sem kann þar að koma til. Að undanförnu hefur verið nokkuð fjallað hér í pistlunum um hita í húsum, heitt og kalt vatn til neyslu og þvotta og nauðsyn þess að hafa næg loftskipti. En þarna má bæta einu við og það er rakinn.

Þarna er átt við rakann í loftinu sem umlykur okkur og loftinu sem við öndum að okkur. Hægt er að ganga út frá því sem staðreynd að það er raki í loftinu, en það sem skiptir máli er hve mikill hann er. Rakinn er mældur í prósentum, að hann sé orðinn 100% þýðir hinsvegar ekki að við séum sokkin í vatn heldur í hvaða formi rakinn er. Þegar hlutfallið er orðið svo hátt er, eins og sést á meðfylgjandi súlu, rakinn ekki lengur blandaður loftinu, hann er orðinn að vatni, utanhúss sem þoka eða regn en innanhúss gætu veggir og aðrir fletir verið orðnir löðrandi í vatni. Þetta má glögglega sjá á málmröri í heitu umhverfi sem stöðugt rennur um kalt vatn, rörið verður blautt, það kallast að rörið slagi. Þarna er kominn einn af gömlu óvinunum þremur, slagi, kuldi og dragsúgur. Fyrr á öldum urðu þessir þríburar mörgum öldnum og veikburða áum okkar að fjörtjóni.
En hýbýlin eru allt, allt önnur í dag en áður fyrr og það sem getur þjáð fólk á bestu bæjum er ekki slagi, öðru nafni saggi, heldur þvert á móti of lítill raki. Þegar kalt er í veðri er meiri hætta á að það skorti raka innanhús eða réttara sagt; því meiri munur á hita úti og inni því meiri hætta á skorti á raka. Því veldur m.a. hærra hitastig innandyra á vetrum en sumrum. Mismunandi hitaþörf er sálfræðilega innbyggð í okkur öll. Í glampandi sólskini og heitu veðri að sumarlagi nægir18° hiti innanhúss en í köldu og rysjóttu skammdeginu þurfa þeir hinir sömu jafnvel 24° hita.

En þarna höfum við skala yfir hve mikill raki er í loftinu og þá væri fróðlegt að vita hve mikill eða lítill hann á að vera til að öllum líði vel. Æskileg prósenta raka í lofti innanhúss er að hann sé 40-50%, en vissulega má teygja þetta og segja að niður fyrir 30% skal hann ekki fara og ekki upp fyrir 70%.

En hvernig á maður að vita hver rakinn er? Mannslíkaminn er ákaflega næmur á hita, nokkrar gráður til eða frá finna flestir glögglega. En hins vegar eru fæstir nákvæmir á raka í umhverfinu, þar finna menn ekki mun á nokkrum prósentustigum. Of mikill raki segir aðallega til sín þannig að sú tilfinning vaknar að föt séu þvöl, hins vegar lýsir of lítill raki sér í þurri slímhúð og jafnvel höfuðverk. En rakastigið þarf ekki að vera jafnnákvæmt og hitastigið, það er miklu teygjanlegra.

Þess vegna er tæpast hægt að vita nákvæmlega hve mikill raki er í loftinu, hvort sem er heima eða á vinnustað, nema mæla hann. Rakamælar eru fáanlegir og kosta ekki mikla peninga.

Rakastigið tengist tvímælalaust því hve vel er loftræst og hve mikill hiti er innanhúss. Því minni loftræsing og því hærri hiti geta orsakað lækkandi raka í loftinu og ef rakastigið er ekki rétt er það oftast of lítið, ekki of mikið. Aldnir og veikburða eru miklu viðkvæmari fyrir of litlum raka, þeir sem eru fullfrískir þola sveiflur í raka miklu betur, þó er það einstaklingsbundið eins og annað.

Það eru ekki ný sannindi að rakastigið er mikilvægt og einkanlega að of lítill raki kann að vera mörgum óþægilegur. Fyrir mörgum áratugum var það þekkt að hengja flöt box inn á milli rifja á pottofnum, í þessi box var hellt vatni sem smátt og smátt gufaði upp og jók rakastigið í íbúðinni.

Enn í dag þekkist það að setja vatn í grunna skál þar sem hita frá ofni gætir og láta vatnið gufa upp, hækka þannig rakastigið.

Fleira áhugavert: