Regnvatn – Markviss nýting, græn svæði

Grein/Linkur: Nýjar lausnir í nýtingu regnvatns

Höfundur: Nína Richter

Heimild:

.

Urriðaholt Garðabæ

.

September 2022

Nýjar lausnir í nýtingu regnvatns

Við erum ekkert almennt séð að gefa þessu gaum,“ segir Halldóra Hreggviðsdóttir jarðfræðingur og hagverkfræðingur um afdrif regnvatns í þéttbýli á Íslandi. Halldóra er meðal fyrirlesara á Fundi fólksins 2022 sem fram fór í Norræna húsinu 

Fréttablaðið/Samsett

Á fyrirlestrinum Blágræðir innviðir í bæjum kynnti Halldóra fyrir gestum nýjustu lausnir í nýtingu regnvatns, þar sem beita má hagkvæmari leiðum til að veita þeim á græn svæði, sem binda skaðleg efni af götunum í jarðveg þar sem þau brotna niður.

„Þessu er bara reddað, borgaryfirvöld og Veitur redda þessu mjög vel og taka vatnið allstaðar þar sem það rennur af flötunum. Þannig hefur þetta regnvatnskerfi verið hannað síðustu áratugina,“ segir hún.

„Núna er mengunin að renna af götunum og plastagnir af dekkjunum okkar og malbiksagnir og olía og allskonar. Sumstaðar fer þetta í setvatnið. En í gömlum hverfum er þetta að fara bara beint út í sjó,“ segir Halldóra.

Hún segir spennandi og ekki alveg nýtt af nálinni, nýjar grænar leiðir sem kallaðar eru blágrænir innviðir. „Þá erum við að nota gróður og jarðveg til að taka við regnvatninu. Við reynum að beina því ekki strax í burtu heldur koma því í jörð sem fyrst,“ segir hún.

Markvissari nýting á grænum svæðum

„Við notum grænu svæðin okkar markvissar.“ Þannig segir Halldóra ástæðu til að fjölga grænum svæðum á götum og torgum og sér í lagi þar sem plantað er trjám. „Þá fá trén regnvatnið sem kemur beint niður í beðin. Í stað þess sem gerist til dæmis á Laugaveginum, þar sem trén eru að reyna að vaxa upp úr malbikskössum.“

Halldóra nefnir dæmi erlendis þar sem gömul tré hafa vaxið í nágrenni við ný tré, þar sem nýju trén hafa fengið að njóta regnvatnsins með þessari nýju tækni. Nýju trén séu margfalt fallegri.

„Það er svo skrýtið hvað við fórum langt í að gera þessa hluti flókna. En jarðvegurinn er ótrúlega góður í að sía mengunarefni og brjóta þau niður,“ segir hún.

Halldóra var meðal skipuleggjenda hverfisins í Urriðaholti í Glæsibæ. „Það er fyrsta hverfið á Íslandi þar sem þetta er gert, og svínvirkar,“ segir hún.

Aðspurð hvað einstaklingar geti gert til að vinna í þessa átt, segir hún að skilningur sé fyrsta skrefið. Halldóra hyggst sjálf útbúa regngarð í garðinum sínum á næstunni. „Þú getur búið til fallegt beð í garðinum þínum þar sem þú leyfir regnvatninu af þakinu að renna út í grasið. Þú getur búið til lítinn regngarð þar sem þú setur krús í botninn og setur plöntur sem finnst gott að vera stundum í raka og stundum í þurru. Þú færð fallegasta beðið í garðinum,“ segir hún.

„Við erum að átta okkur á því hvaða tré lifa best í þessu umhverfi. Þetta er ofsalega spennandi óplægður akur.“

Fleira áhugavert: