Olíukostnaður, verð – Sagan 1973-2008
Grein/Linkur: Olíuverðið!
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Desember 2008
Olíuverðið!
Þegar stráksi minn, 6 ára, kíkir yfir öxlina á mér er ekki óvanalegt að á skjánum blasi við honum línurit. „Ohh, pabbi… ertu enn einu sinni að skoða verðið!“
Já – hvað er skemmtilegra en að spá í olíuverðið? Líka alveg sérstaklega viðeigandi svona um áramót, rétt áður en flugeldaskothríðin hefst og maður heldur á áramótabrennu til að skvetta olíu á eldinn.
Á NYMEX slefar verðið á olíutunnunni varla í 40 dollarana þessa dagana. Olían hefur nú sem sagt lækkað um rúmlega 70% frá því verðið fór hæst í sumar sem leið. Svo mikil niðursveifla er nánast einsdæmi. Líklega hefur olíuverð aldrei áður lækkað jafn mikið á jafn stuttum tíma. Þetta eru svo sannarlega engir venjulegir tímar.
En hvað gerist næst? Sumir sega að olíuverðið muni hækka umtalsvert strax á næsta ári og fara aftur yfir 100 dollara. Aðrir sjá verðið einungis fara niður á við og að það muni líða mörg ár þar til við sjáum olíutunnuna yfir 100 dollurum.
Í huga Orkubloggsins er svarið um þróun olíuverðs sáraeinfalt: Um leið og OPEC nær tökum á ástandinu mun olíuverðið taka stefnuna í a.m.k. 70 dollara tunnan og jafnvel 90 dollara. Og ný efnahagsuppsveifla mun svo þrýsta verðinu ennþá hærra. Til lengri tíma litið!
Vandamálið er bara óvissan um hvenær þetta gerist. Það er alls ekki víst að Ali Al-Naimi og félagar hans í OPEC nái að koma sér saman um nægjanlega mikinn framleiðslusamdrátt til að lyfta verðinu almennilega. Og við vitum ekki heldur hversu djúp kreppan verður. Ef niðursveiflan í efnahagslífi heimsins þróast eins og þeir svartsýnustu spá, er ástandið núna bara laufléttur forleikur hinnar einu sönnu kreppu. Þá gæti olíuverðið jafnvel haldið áfram að falla og haldist lágt lengi. Kannski upplifum við það senn, að verðið fari jafnvel neðar en nokkru sinni síðustu 60 árin. Kannski. Kannski ekki. Nobody knows nuthing!
Í upphafi olíukreppunnar 1973 kostaði tunnan af olíu tæpa 4 dollara. Sem jafngildir um 20 dollurum í dag (allar verðtölur í þessari færslu eru m.v. núvirði nema annað sé tekið fram – sbr. t.d. græna línan á grafinu hér til hliðar).
Á næstu sjö árum, 1973-1980, hækkaði olíuverðið meira en tífalt! Og fimmfalt ef tekið er tillit til verðbólgu. Nafnverðið á tunnunni fór úr tæpum 5 dollurum 1973 (um 20 dollarar að núvirði) í næstum 50 dollara 1980 (sem jafngildir um 100 dollurum að núvirði).
Mesta stökkið þennan sjokkerandi áttunda áratug 20. aldar – þegar Orkubloggarinn átti sín björtu og góðu bernskuár undir skaftfellskum himinbláma – varð árin 1979 og 1980. Á þessum tveimur árum hækkaði olíuverðið um helming, í kjölfar þess að klerkarnir tóku völdin í Íran 1979 og stríðið hófst milli hinna mikilvægu olíuframleiðsluríkja Íran og Írak. Að núvirði var þetta hækkun úr tæpum 50 dollurum 1978 og í 100 dollara 1980. Ástandið var orðið ískyggilegt. Ný heimsmynd virtist blasa við. Vesturlönd voru orðin háð olíunni frá Mið-Austurlöndum og öðrum aðildarríkjum OPEC.
En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Upp úr 1980 fór aukin fárfesting bandarísku, bresku og nýju norsku olíufyrirtækjanna í olíuleit á 8. áratugnum að skila sér. Og Norðursjávarolían streymdi á markaðinn. Að auki höfðu Vesturlönd hamstrað olíu þegar Íran féll í hendur klerkanna og sátu ennþá uppi með birgðir. Allt lagðist þetta á eitt – eftirspurn eftir olíu varð nú skyndilega miklu minni en framboðið. OPEC vissi ekki í hvorn fótinn þeir ættu að stíga og misstu gjörsamlega tökin á ástandinu. Sádarnir juku framleiðsluna í því skyni að ná stærri bita af kökunni, en þá lækkaði verðið auðvitað enn frekar.
Mest varð fallið 1986 þegar olíutunnan féll um helming í verði á nokkrum mánuðum. Sem var fordæmalaust. Olíuverðið var nú komið úr 100 dollurum 1980 og niður í næstum 20 dollara 1986! Eða nánast sama raunverð og var fyrir olíukreppuna 1973.
Þetta verðfall bitnaði auðvitað afar illa á olíuframleiðsluríkjunum. Og var líklega ein helsta ástæðan að baki hruni Sovétríkjanna, sem varð af gríðarlegum tekjum af olíuútflutningi sínum. Hitt sem dró Sovétið í gröfina var auðvitað gasið, sem verið var að sækja á Tröllasvæðinu norska í Norðursjó. Og stútaði gassölu Sovétríkjanna til Vestur-Evrópu. En það er önnur saga.
Næstu árin eftir 1986 var olíuverðið sæmilega stöðugt og hélst lengst af í kringum 30 dollarar tunnan. Verðið var þó ekki stöðugra en svo að það sveiflaðist ávallt talsvert. Tók verulegan kipp upp á við vegna Persaflóastríðsins 1991, en datt svo fljótt aftur jafnvægi í kringum 30 dollarana.
Lesendur Orkubloggsins skulu hafa það í huga, að í þessu hraðsoðna lufsu-yfirliti er ekkert talað um gengi dollars m.v. aðra gjaldmiðla á hverjum tíma. Augljóslega hefur það alltaf þýtt minni tekjur fyrir OPEC-ríkin, ef dollar hefur fallið en olíuverð haldist stöðugt. Því olíuverðið er í dollurum. Þeir sem vilja átta sig betur á verðþróun olíunnar í víðtækara samhengi, ættu þess vegna líka að skoða hvernig dollarinn hefur sveiflast í gegnum tíðina. Sérstaklega auðvitað síðustu 35 árin – eftir endalok Bretton-Woods. Og líka spá í aukningu kaupmáttar. Í ljósi kaupmáttar er olíuverðið núna mjög lágt. Hreint fáránlega lágt.
Við skildum við olíuna hér ofar í um 30 dollurum 1991. Þegar jafnvægi var aftur komið á eftir skammvinna sveiflu vegna Persaflóastríðsins. En þegar leið á 10. áratuginn gerðust enn á ný óvæntir atburðir. Asíukreppan reið yfir og olíuverðið tók að síga niður á ný. Eftirspurnin hélt ekki í við síaukna framleiðsluna og „heimurinn var að drukkna í olíu“. Eins og Economist orðaði það í frægri grein snemma árs 1998.
Allt í einu var eins og olíukreppan upp úr 1973 hefði aldrei dunið yfir. Þegar Asíukreppan skall á 1997-98 snardró úr eftirspurninni. Olían varð nánast verðlaus – tunnan lafði varla í 15 dollurum. Svo lágt olíuverð hafði heimsbyggðin ekki séð eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari! Til samanburðar, þá var olíutunnan í um 18 dollurum 1946 að teknu tilliti til verðbólgu.
Nú fóru sumir að trúa því að olíuverðið gæti jafnvel hrapað enn frekar. Að offjárfesting hefði átt sér stað í olíuiðnaðinum og framleiðslan væri orðin allt of mikil. Árið 1999 var enn ekki víst hvor Asía færi senn að rísa. Economist skaut á það, að brátt yrði olíuverðið einungis 5-10 dollarar tunnan. Sem var kannski ekki alveg útí hött; framboðið var slíkt að uppsafnaðar birgðir voru fyrir hendi til heilla tveggja mánaða. Nánar tiltekið til 59 daga. Meiri birgðir en sést höfðu í óratíma.
En þetta reyndist samt vera botninn. Í reynd var Asía byrjuð að hjarna við. Álfarnir hjá Economist höfðu rangt fyrir sér og verðið tók að mjakast upp. Hækkaði upp í nærri 40 dollara áður en netbólan sprakk aldamótárið 2000 og árásirnar voru gerðar á New York 2001. Pompaði þá svolítið niður með hlutabréfunum, en reis fljótt aftur og hélt svo áfram að hækka jafnt og þétt næstu sjö árin.
Líklega hefði veröldin ekki upplifað þessa langvarandi hækkunarhrinu 2001-08 nema vegna innrásarinnar í Írak. Að öðrum kosti hefði olíuverðið eflaust stabílerast dágóða stund í kringum 40-50 dollara. En nú varð fjandinn laus og olíuverðið hækkaði og hækkaði, allt fram á mitt ár 2008. Þegar tunnan fór næstum því í 150 dollara, sællar minningar. Já – Orkubloggið minnist hins ljúfa júlídags s.l. sumar þegar spákaupmenn á Nymex greiddu yfir 147 dollara fyrir eina tunnu af olíu. Those were the says.
En skjótt skipast veður í lofti. Eftirspurnin vestanhafs steinféll á seinni hluta ársins sem nú er að kveðja og verðið með. Enginn vill lengur borga fyrir olíusullið, nema skít á priki. Menn eru jafnvel farnir að spá því, að senn sjáum við meiri uppsafnaðar olíubirgðir en í Asíukreppunni 1998. Birgðir sem dugi heiminum í a.m.k. 59 daga. Og að verðið verði sambærilegt og þá – fari vel undir 20 dollarana. Það væri auðvitað fáheyrt nú þegar margir telja víst að peak-oil sé runnið upp og rekstrarkostnaðurinn í olíuiðnaðinum orðinn miklu hærri en var 1998. Þetta verð núna er barrrasta útí hött.
Orkubloggið er sem sagt á því að olíuverðið sé orðið óeðlilega lágt. Þar með er ekki sagt að verðið eigi strax eftir að rjúka upp í 150 dollara tunnan. En hvað er „rétt“ verð á olíu?
Á rúmum 6 árum, 2002 til 2008, hækkaði olíutunnan úr um 20 dollurum og í næstum því 150 dollara. Um leið og tekjurnar í olíuframleiðslunni jukust urðu miklar hækkanir á allri þjónustu, sem olíuiðnaðurinn þarf á að halda. Þess vegna er hreinlega ekki lógískt að olíuverðið verði lágt lengi. Nema þá ein allsherjar verðhjöðnun ríði yfir iðnaðinn og veröldina alla. Stálverð t.d. snarfalli og flotpallar í tugatali hrynji af himnum ofan. Nei – verðið núna er rugl og stenst ekki til lengdar.
Til að finna olíuverð sambærilegt því sem er í dag, þarf að fara aftur til áranna 2003-4. En í reynd er verðið nú miklu lægra en var þá. Þegar haft er í huga að rekstrarumhverfi olíuiðnaðarins er gjörbreytt frá því sem var á þeim tíma. Fyrir fimm árum þóttu 30 dollarar prýðisverð fyrir tunnuna. Skilaði olíufélögunum góðum hagnaði. En það er mjög hæpið að olíuiðnaðurinn í núverandi mynd ráði lengi við svo lágt verð. Í því liggur munurinn!
Það er ekki hlaupið að því að fá nákvæma vitneskju um framleiðslukostnað á olíu. Bæði eru menn fastheldnir á upplýsingar og auk þess miklar útgjaldasveiflur í bransanum, þ.a. allar tölur eru fljótar að úreldast.
En eitt er víst. Með olíuverðið í 40 dollurum núna, er djúphafsvinnslan einfaldlega rekin með tapi. Ekki er fjarri lagi að slík vinnsla þurfi verð uppá 60-80 dollara til að borga sig.
Norðursjávarvinnslan er misdýr, en þolir þetta lága verð líklega víðast. Sama er að segja um vinnslu á landi, t.d. í Bandaríkjunum og Kanada. En hagnaðurinn þar hlýtur að vera sáralítill þessa dagana. Líklega er break-even bæði í Norðursjó og Bandaríkjunum víðast hvar nálægt 40 dollurunum.
Það sem skiptir mestu er hvað Sádarnir vilja fá! Þar kostar stór hluti olíuvinnslunnar einungis örfáa dollara. Eigum við að segja u.þ.b. 5-7 dollara að meðaltali fyrir tunnuna? Meðaltalskostnaðurinn í Mið-Austurlöndum öllum er eitthvað hærri – mögulega í kringum 15 dollara eða rúmlega það.
Vegna kostnaðarhækkana í bransanum allra síðustu ár, er reyndar hugsanlegt að break-even olíuframleiðslunnar í flestum olíuríkjum Mið-Austurlanda sé talsvert hærri en hér hefur verið gefið til kynna. Jafnvel um eða yfir 30 dollarar tunnan.
Gefum okkur samt að lægstu tölurnar séu réttar. Þá mætti ætla að flest OPEC-ríkin séu enn að hagnast mjög á olíusölu. Þátt fyrir miklar verðlækkanir undanfarið.
En málið er bara ekki svo einfalt. Í reynd þola vinir okkar þarna í sandinum alls ekki 30-40 dollara olíuverð til lengdar. Þar er nefnilega ekki um að ræða sjálfstæð olíufyrirtæki, sem aðeins þurfa að hugsa um reksturinn sinn og fáeina hluthafa. Heldur koma nánast allar ríkistekjur flestra OPEC-ríkjanna frá hagnaði af olíu- og gasvinnslu.
Ekki er óvarlegt að áætla að Sádarnir sjálfir þurfi ca. 60-70 dollara fyrir tunnuna til að ríkissjóðurinn þeirra sé réttu megin við núllið (sumir giska reyndar á að sársaukamörk Sádanna liggi við 50 dollara). Þjóðfélagið þar hefur breyst mikið á síðustu árum og ríkisútgjöldin rokið upp. Lægra verð en 60-70 dollarar tunnan þýðir m.ö.o. að þetta mesta olíuríki veraldar safnar skuldum. Þess vegna hljóta þeir nú að draga úr framleiðslunni þar til verðið er komið upp í þessa tölu.
Ríki eins og Íran og Venesúela þurfa enn meira. Jafnvel þó að framleiðslukostnaðurinn þar sé afar lágur, er efnahagurinn í báðum þessum ríkjum hreint skelfilegur. Allt undir 100 dollurum eru hreint arfaslæm tíðindi fyrir einræðisstjórnirnar þar, sem ekkert vit hafa á hvernig reka á þjóðfélag. Og þurfa þar að auki að niðurgreiða svarta sullið ofaní þær 100 milljónir landsmanna sem lifa í þessum tveimur löndum, undir harðstjórn þeirra fóstbræðra Chávez og Ahmadinejad.
Það eru bara svona lúxuspáfar eins og Katararnir, sem geta nánast brosað endalaust, meðan yfirleitt eitthvað fæst fyrir olíu og gas. Þeir vita vart aura sinna tal og vinnslan þar vægast sagt skítbilleg.
Já – þetta er undarlegur heimur. Sádarnir þurfa varla að stingi fingri í sandinn til að upp streymi olía og framleiðslukostnaðurinn er allt niður í 5 dollarar tunnan – sumstaðar jafnvel ennþá lægri. Samt þurfa þeir að fá 60-70 dollara fyrir gumsið til að viðhalda efnahagskerfinu sínu. Þess vegna er þeim Ali Al Naimi, olíumálaráðherra Sádanna, og félögum hans ekki beint hlátur í huga þessa dagana. Og ætla sér ekki aldeilis að klúðra málunum, eins og OPEC gerði hér í Den. Þegar þeir misreiknuð sig svo illilega í Asíukreppunni og verðið féll eins og steinn.
Það sem þeir nú þurfa að gera, er að minnka framleiðsluna duglega og stilla hana þannig að uppsafnaðar olíubirgðir iðnveldanna minnki. Málið er bara það, að svo svakaleg óvissa ríkir nú á mörkuðunum, að enginn hefur minnstu hugmynd um hvað mikinn samdrátt í framleiðslu þarf til að ná verðinu aftur upp fyrir 60 dollara. Ákvörðun um of háan framleiðslukvóta gæti fleygt verðinu undir 20 dollara.
Nú eru uppsafnaðar birgðir líklega sem nemur u.þ.b. 56 daga notkun. Sádarnir þurfa a.m.k. að ná þeim niður í svona 52 daga til að fá sitt „nauðsynlega“ verð. Þetta er lykilatriðið sem allt snýst um þessa dagana. Þessar magic 4ra daga birgðir gætu verið nóg til að hækka verðið um helming frá því sem nú er.
En samstaðan innan OPEC kann að rofna. Ef það gerist og „of mikil“ olía flæðir út á markaðinn, gæti versta martröð Sádanna ræst og umræddar birgðir rokið úr 56 dögum og upp í 58 daga eða jafnvel meira. Það gæti á svipstundu ýtt olíuverðinu niður í 20 dollara – eða jafnvel ennþá neðar! Línudansinn felst í því að ákvarðanir OPEC dragi vel úr framboðinu, en þó ekki svo mikið að einhver aðildarríkin geti ekki kyngt því og samstaðan rofni.
Við búum svo sannarlega í furðulegri veröld. Þar sem olíubirgðir til örfárra daga – nánast fáeinar tunnur af olíu – ráða lífi og dauða atvinnulífs um allan heim. En Orkubloggið trúir því að Sádarnir og OPEC hafi lært af biturri reynslu sinni frá 9. áratugnum og muni í þetta sinn ná takmarki sínu. Þess vegna álítur Orkubloggið það nánast útí hött þegar „sérfræðingar“ eru að spá olíuverði undir 70 dollurum til langframa. Vissulega gæti það gerst að verðið steinliggi í einhvern tíma. En þó aðeins ef Sádarnir og OPEC gjörsamlega klúðra málunum.
Það sem Sádarnir vilja, er að leyfa verðinu að lulla einhverja stund í því sem þeir telja að komi hjólum efnahagslífs Bandaríkjanna í gang á ný. Þessi langstærsti kaupandi þarf að fá svigrúm til að lifna við. Þess vegna leyfa Sádarnir líklega verðinu að vera lágt um tíma. En svo munu þeir fljótlega þurfa og vilja meiri pening; 70 dollara fyrir tunnuna og jafnvel aðeins meira.
Spurningin er bara hversu mikið þeir þurfa að skrúfa fyrir kranann til að koma verðinu upp? Það getur orðið þeim dýrkeypt að skrúfa of rólega fyrir. Orkubloggið trúir því ekki, að hann Olíu-Ali ætli bara að kippa skitnum 2,2 milljón tunnum af markaðnum. Eins og ákveðið var á fundi OPEC í Alsír skömmu fyrir jól. OPEC er nú að framleiða u.þ.b. 32 milljón tunnur af þeim 86 milljónum sem heimurinn allur notar daglega.
Vissulega var þetta einhver mesti samdráttur í sögu OPEC fram til þessa. En hér þarf meira að koma til, kall minn! Ekki klúðra þessu aftur – eins og þegar ekki var hlustað á hann Ahmed Zaki Yamani hér í Den. Gamla orkumálaráðherra Sádanna; ljúflinginn sem Orkubloggið hefur áður sagt frá.
Minnumst þess líka að ef við horfum ekki bara í vinnslukostnaðinn, heldur tökum líka með í reikninginn kostnað við að finna og hefja vinnslu á nýjum olíulindum, hækkar nauðsynlegt lágmarksverð enn frekar. Líka hjá Sádunum. Þá er líklega óhætt að miða við a.m.k. 90 dollara víðast hvar í heiminum. Já – það kostar mikinn pening að finna nýjar lindir. Jafnvel í eyðimörkinni.
Það magnaða er, að þetta er talsvert hærra verð en kostnaðurinn í djúpvinnslunni. Þess vegna er framtíðin björt fyrir olíuleit- og vinnslu á djúpinu mikla. Til lengri tíma litið! Hagsmunir Sádanna og djúpvinnslunnar fara fullkomlega saman. Og Orkubloggið trúir því að Sádarnir muni ná verðinu aftur upp í 90 dollara. Einhver tímann – jafnvel fljótlega.
Og það eru fleiri sem trúa þessu. Þess vegna er t.d. allt ennþá á fullu bæði yst í Mexíkóflóanum og á djúpinu utan við strendur Angóla og Brasilíu. Þó svo tunnan sé þessa dagana einungis í 35-40 dollurum. Djúpvinnslan trúir því að Sádunum takist ætlunarverk sitt – enda er þeim það lífsnauðsynlegt.
Svona hiksti eins og núna ríkir á olíumörkuðunum skiptir djúpvinnsluna þess vegna almennt ekki nokkru máli. Þar er eina vitið að halda sínu striki. En þó mun vissulega eitthvað hægja á mönnum í djúpvinnslunni núna. Því það er erfitt þessa dagana að fjármagna leit og vinnslu á nýjum, áhættusömum svæðum. Fyrir vikið geta olíufyrirtæki kannski ekki viðhaldið þeim hraða í uppbyggingu á djúpinu mikla, sem þau gjarnan vilja. Þarna kann að myndast stífla þannig að þegar efnahagslífið hrekkur í gang á ný verður eftirspurnin langt umfram framleiðslugetuna. Og þá gæti verð á olíu rokið upp í áður óþekktar hæðir.
Þetta er vissulega kannski ekki besti tíminn til að markaðssetja Drekasvæðið íslenska. Það kynni að vera skynsamlegt fyrir íslensk stjórnvöld að setja það dæmi á hold í svona 1-2 ár.
Og auðvitað nota tímann til að leggja grunn að íslensku olíuvinnslufyrirtæki. Íslensku Statoil! Í stað þess að fara „nýlenduleiðina“ og verða bara áhorfandi. Það yrði frekar glatað hlutskipti fyrir íslensku þjóðina.