Demantar, sagan – Cecil Rhodes, De Beers, Kimberley

Grein/Linkur: Hinn ósigrandi

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Janúar 2009

Hinn ósigrandi

Diamonds are girls best friend”. Söng Marlyn Monroe hér um árið, á sinn einstaka hátt. Undanfarið hefur Orkubloggið stundum minnst á Angóla – bæði í tengslum við olíuna og blóðdemantana þar. Þess vegna er lógískt að staldra aðeins við hinn snarruglaða demantaiðnað heimsins.

diamond_woman_Lesotho_Promise

diamond_woman_Lesotho_Promise

Eins og getið var um áður (Eru demantar eilífir?) þurfti Savimbi, leiðtogi UNITA í angólska borgarastríðinu, illilega á peningum að halda til vopnakaupa á 10. áratugnum. Eftir að fjárhagsstuðningurinn frá Bandaríkjunum hafði þornað upp. Og þá urðu demantanámurnar djúpt inní Angóla helsta uppspretta áframhaldandi stríðsreksturs UNITA. Allt þar til Savimbi var felldur 2002 og friður komst á eftir nærri 30 ára borgarastríð.

Enginn viðurkennir að kaupa eða selja  blóðdemanta. Demanta, sem seldir eru til að fjármagna stríðsátök. En talið er að á þessum síðustu árum 20. aldarinnar þegar blóðbaðið í Angóla var í algleymi, hafi stærsta demantafyrirtæki heimsins, hið alræmda De Beers, látið UNITA hafa milljónir dollara fyrir blóðdemanta.

Demantar og De Beers eru svo samofin að þarna verður ekki skilið á milli. De Beers; óneitanlega hljómar nafnið hollenskt. En bændunum í Höfðanýlendunni í Suður-Afríku hugkvæmdist ekki að græða á afrísku demöntunum, sem fundust á landi þeirra. Það voru aftur á móti hugvitsamir breskir ævintýramenn, sem stofnuðu De Beers.

De_Beers_Logo.svgOg alla 20. öldina stjórnaði þetta eina fyrirtæki, De Beers, meira en 90% af gjörvöllum demantaiðnaði heimsins. Í dag ætlar Orkubloggið að beina athyglinni að upphafi De Beers og hinum makalausa stofnanda þess; Bretanum Cecil Rhodes. Sem þrátt fyrir fremur stutta ævi mótaði sögu sunnanverðrar Afríku mestalla síðustu öld – og gerir reyndar enn.

diamonds!

diamonds!

Orðið demantur mun vera komið af gríska orðinu adamas, sem merkir ósigrandi. Það á vel við, því segja má að bæði Cecil Rhodes og De Beers hafi svo sannarlega verið ósigrandi.

Demantar voru lengst af svo sjaldgæfir og dýrir að þeir voru utan seilingar almennings. En þetta breyttist snögglega fyrir um 130 árum, þegar miklar demantanámur fundust þar sem nú liggur Suður-Afríka. Þetta var á sama tíma og upp var komin stór millistétt í iðnríkjunum, sem vildi gjarnan eignast demantshring eða annað skart skreytt demanti.

Í reynd fannst svo mikið af demöntum í Suður-Afríku og nágrannaríkjunum í lok 19 aldar, að ef þeir hefðu allir farið beint á markaðinn hefði það leitt til svakalegs verðfalls a demöntum. kimberley_1874En nokkrir snjallir menn voru snöggir að átta sig á því, að unnt væri að stjórna framboði af demöntum og þannig ráða verðinu. Og þegar þurfti að koma smá kipp í eftirspurnina var beitt ísmeygilegri markaðssetningu til gera demanta ennþá eftirsóttari í augum almennings. Þannig tókst fáeinum mönnum að byggja upp milljarðaviðskipti, með vöru sem var varla til neins raunverulegs gagns og sáralítið kostaði að framleiða.

Í meira en 100 ár sat De Beers eitt að þessum risabisness, með tilheyrandi ofsagróða. Og náði ætíð að gleypa undir sig alla samkeppni. Nánast hver einasti demantur, sem kom úr jörðu 1880-2000 fór í gegnum hendur De Beers. Og þó svo rússneskir, ástralskir og kanadískir demantar hafi streymt upp á yfirborð jarðar allra síðustu árin, er De Beers ennþá með langstærstu hlutdeildina í demantaviðskiptum veraldarinnar.  Saga demantaiðnaðarins er tvímælalaust ein mesta furðusaga 20. aldarinnar.

diamonds-stones

diamonds-stones

Cecil Rhodes var óvenjulegur maður. Hann var snjall í bisness, en einnig ein af helstu táknmyndum hinnar grimmilegu bresku nýlendustefnu, þar sem heilu þjóðirnar voru rændar náttúruauðlindum sínum. Arfleifð Rhodes lifir enn um alla sunnanverða Afríku, þó nú sé meira en öld liðin frá andláti hans.

Það var nánast tilviljun að Rhodes, sem var fæddur á Englandi 1853, hélt til Afríku. Þessi veikburða enski prestsonur var sendur í hressingarferð til Natal syðst í Afríku aðeins 17 ára gamall. Foreldrarnir hans vonuðu að hlýja loftslagið þar ætti betur við strákinn, en bróðir Rhodes stundaði þá þegar bómullarrækt þarna á suðausturhorni álfunnar svörtu. Sem í huga margra Breta var land tækifæranna á þessum tíma, rétt eins og fleiri nýlendur hins mikla breska heimsveldis.

Eftir meira en 2ja mánaða siglingu steig Rhodes á land í Durban. Þetta var á síðari huta ársins 1870 og Rhodes þá nýorðinn 17 ára. Hann staldraði þó stutt við bómullarræktunina, vegna spennandi frétta sem nú bárust af miklum demantafundi austar í landinu. Framundan var mikið ævintýri hjá þessum unga dreng. Ævintýri sem átti á skömmum tíma eftir að gera hann einn af auðugustu mönnum veraldar og áhrifamesta stjórnmálamanni í Afríku.

diamonds-stones

diamonds-stones

Þetta var á þeim tíma að mestallir demantar heimsins komu frá Indlandi eða Brasilíu, þar sem sumstaðar var hægt að finna þá í árfarvegum. Síðustu aldirnar höfðu mest öll demantaviðskipti heimsins verið í höndum fáeinna gyðingafjölskyldna. Demantaskurður og -slípun átti sér nánast eingöngu stað hjá gyðingum í Antwerpen í Hollandi, auk borgarinnar Surat á Indlandi. Einnig voru London og New York mikilvægar miðstöðvar demantaviðskipta.

big-hole-claims

big-hole-claims

En nú var skyndilega skollið á mikið demantaæði á litlu landsvæði í Höfðanýlendunni; svæði sem nefndist Colesberg Kopje, en fékk síðar nafnið Kimberley.

Þar mátti nú sjá þúsundir ef ekki tugþúsundir manna, sem voru nánast eins og maurar á þúfu á hæðinni þar sem helst mátti búast við að finna þessa snotru kolefnismola. Rhodes frétti auðvitað fljótt af þessu nýjasti æði. Og hann hafði varla verið ár í landinu, þegar hann árið 1871 ákvað að láta bómullina eiga sig og hélt í vesturátt til Kimberley. Á slóðir demantanna.

Demantaævintýrið í Kimberley má rekja til þess að fjárhirðir útí haga (án gríns!) rakst þarna á fallegan glitrandi stein við bakka árinnar Orange. Þetta var 1867 – örfáum árum áður en Rhodes steig á afríska jörð. Auðvitað varð allt vitlaust þegar demantafundurinn spurðist út og þarna í Kimberley myndaðist á skömmum tíma eitthvert mesta þéttbýli í allri sunnanverðri Afríku. Hvítir spekúlantar og ódýrt vinnuafl blökkumannanna kepptist við gröftinn. Smám saman hvarf demantahæðin og þá héldu menn ótrauðir áfram niður í jörðina. Og grófu smám saman einhverja stærstu holu í heimi.

Þarna grófu menn sem brjálaði eftir demöntunum. Unglingurinn Rhodes sá fljótt að það væri til lítils að byrja að pjakka með haka og skóflu innan um fjöldann. Heldur ákvað hann að þjónusta demantaleitarmennina. Sérstaklega var skortur á dælum til að dæla vatni upp úr holunum.

big-hole-claims

big-hole-claims

Upphafið að stórveldi hins bráðunga Rhodes var að kaupa gamla vatnsdælu og flytja hana til Kimberley. Margir greiddu honum fyrir dælinguna með hlutdeild í leitarleyfinu á viðkomandi reit. Rhodes keypti fleiri dælur og lærði fljótt að koma í veg fyrir samkeppni – er sagður hafa unnið skemmdarverk í skjóli nætur ef aðrar dælur komu inn á svæðið. Það kann að vera hrein lygi, en a.m.k. léku viðskiptin í höndum Rhodes og hann eignaðist dágóðan hlut í æ fleiri leitarskikum á svæðinu.

Á skömmum tíma náði Rhodes þannig að eignast stóran hluta allra námuréttinda í Kimberley. Og námurnar á þessum fáeinu hekturum skiluðu honum verulegu fé. Einnig náði hann að semja við annan ungan athafnamann í Kimberley, Barney Barnato, um kaup á námuréttindum Barnato's. Rhodes tókst að sannfæra nokkra þekktustu bankamenn í Englandi um að lána honum pening til að kaupanna. Og þó mörgum þætti hann greiða Barnato óheyrilegt fé fyrir námuréttindin, átti sú fjárfesting fljótt eftir að margborga sig.

big-hole-kimberley

big-hole-kimberley

Með þessu móti eignaðist Rhodes smám saman öll námuréttindin í Kimberley. Þau setti hann í fyrirtæki sitt, De Beers, en nafnið er að rekja til bændafjölskyldunnar sem átti jörðina í Kimberley þar sem fyrstu demantarnir fundust. Rhodes var skyndilega orðinn eigandi að nánast öllum demantanámuréttindum í landinu og þar með valdamesti maðurinn í demantaiðnaðinum.

En þá kom upp smá vandamál. Vegna demantanna sem nú streymdu úr nýju demantanámunum, tók demantaverð að sveiflast mikið frá því sem verið hafði. Rhodes var fljótur að bregðast við og tók nú annað mikilvægt skref til að verða einráður á demantamarkaði heimsins.

Árið 1889 samdi hann við helsta demantadreifingarfyrirtæki heims, Diamond Syndicate í London, um að þeir myndu aðeins eiga viðskipti við De Beers. Reyndar var the Diamond Syndicate  ekki eitt dreifingarfyrirtæki, heldur samtök helstu demantakaupmanna í borginni – sem munu allir hafa verið af gyðingaættum.

Með samningnum tryggðu kaupmennirnir, sem sáu um að birgja demantaskurðarfyrirtækin í Antwerpen og víðar, sér einkaaðgang að mestu demantanámum veraldarinnar. Rhodes tryggði þeim ákveðið magn af demöntum á föstu verði og allir voru ánægðir með stöðugleikann.

debeers_flag

debeers_flag

Þeir sem unnu við demantaskurð og demantaslípun virtust einnig sáttir við að vera lausir við verðsveiflurnar og að hafa stöðugt framboð. Og hinn endanlegi kaupandi lét sér vel líka; a.m.k. seldist demantaskartið án vandræða.

Saman gátu demantakaupmennirnir og De Beers með þessu stýrt verði á demöntum um allan heim. Auðvitað fundust alltaf af og til nýjar námur, sem voru í eigu annarra framkvæmdamanna, er líka renndu hýru auga til demantaiðnaðarins. En Rhodes tókst jafnan að soga þá inní De Beers. Og þannig viðhalda einokuninni og ráða framboðinu.

Ef einhver maldaði í móinn og neitaði samsarfi við De Beers, sletti Rhodes örlitlu meira af demöntum á markaðinn og minnti menn þannig á hvernig hann gæti fellt verðið og kaffært minni spámenn ef þeir ekki hlýddu.

Einungis 35 ára gamall réð Rhodes meira en 95% af demantaframleiðslu heimsins og var orðinn einn af efnuðustu mönnum veraldar. Og nú, að loknum þessu létta forleik, fannst honum kominn tími til að fylgja eftir hinum alvöru metnaðarfullu draumum sínum.

Rhodes-colour

Rhodes-colour

Já – við höfum margsinnis heyrt Björgólf Thor segja að metnaðurinn sé harður húsbóndi. Líklega var Cecil Rhodes sama sinnis. Hann hafði þróað með sér þann netta draum að Stóra-Bretland yrði mesta heimsveldi mannkynssögunnar. Og gaf sér engan tíma til að stofna fjölskyldu – var reyndar lítt bendlaður við kvenfólk.

Sjálfur hugðist Rhodes leggja sitt af mörkum að koma Afríku allri undir hatt bresku krúnunnar. Það er reyndar spurning hvort kallinn hafi verið með öllum mjalla. Innst inni lét hann sig dreyma um að Bretland „endurheimti“ Bandaríkin og næði líka yfirráðum yfir Kína og Japan. Og í erfðaskrá sinni viðraði hann hugmynd um stofnun sérstaks leynifélags, sem skyldi hrinda hugmyndum hans í framkvæmd. Mikið vill meira.

Nú þegar Rhodes var orðinn þekkt nafn og vellauðugur var leiðin greið í stjórnmálin. Hann varð þingmaður í Höfðanýlendunni strax árið 1877 og forsætisráðherra hennar 1890. Með samningum við bresk stjórnvöld náðu fyrirtæki Rhodes undir sig stórum hluta af allri verslun í ríkjunum syðst í Afríku. Og hann sjálfur varð eins konar landstjóri á víðfeðmum svæðum. Það auðveldaði Rhodes að koma enn meiri námuréttindum í hendur De Beers.

rhodes-relaxing

rhodes-relaxing

Sem kunnugt er hlaut breska nýlendan, þar sem nú liggja ríkin Malawi, Zimbabwe og Zambía, heitið Ródesía. Til heiðurs Rhodes, sem átti stærstan þátt í stofnun þessa víðlenda ríkis undir bresku krúnunni.

Einn bekkjarbróðir minn í MBA-náminu s.l. vetur var einmitt frá Zambíu – harðduglegur náungi og mikill ljúflingur. Kannski maður ætti að sníkja heimsókn á heimaslóðir hans þarna við hið mikla Zambesi-fljót og Viktoríufossana? Það væri vel við hæfi – með það í huga, að sem strákur las maður af áfergju um ævintýri læknisins Livingstone á þessum slóðum. Annar bekkjarbróðir minn kom frá Zimbabwe. Sá er hvítur og hann verður því miður seint sóttur heim til Zimbabwe, því fjölskyldan var rekin af jörðinni sinni fyrir nokkrum árum og fluttist til Bretlands.

Theroux_Africa

Theroux_Africa

Þó svo Rhodes sé eitt besta dæmið um mann, sem tókst flest það sem hann ætlaði sér, mistókst honum samt að sameina nýlendurnar í Suður-Afríku í eina nýlendu. Sá draumur hans gekk þó eftir síðar, í kjölfar síðasta Búastríðsins nokkrum árum eftir lát Rhodes. Þar með varð Suður-Afríka til sem eitt ríki undir bresku krúnunni.

En einn af Afríkudraumum Rhodes er ennþá bara draumur. Enn er ekki búið að byggja járnbrautina milli Kaíró í norðri og Höfðaborgar í suðri, sem Rhodes lagði drög að fyrir aldamótin 1900. Ef fólk hefur áhuga á afrískri lestarferðasögu er auðvitað upplagt að næla sér í eintak af hinni bráðskemmtilegu bók Paul TherouxDark Star Safari. Alltaf gaman að fýlupokanum Theroux og frábærri sýn hans á umhverfi og samferðarmenn. Hann er tvímælalaust uppáhaldsrithöfundur Orkubloggsins – allt síðan minn gamli vinur og bekkjarbróðir úr lögfræðinni, Ásgeir Einarsson, kynnti mig fyrir bókum Theroux í London haustið 1991. Fyrir það er ég honum ævarandi þakklátur. Held að ég trítli í bókaherbergið í kvöld, þefi uppi kjölinn af Dark Starf Safari og rifji hana upp fram eftir nóttu.

Rhodes grave Zimbabwe

Rhodes grave Zimbabwe

Hér að ofan hefur verið farið heldur jákvæðum orðum um Cecil Rhodes. En hafa ber í huga að í hinni gömlu Ródesíu nýtur Rhodes lítillar virðingar innfæddra enda táknmynd fyrir harða nýlendukúgun.

Líklega er eftirfarandi tilvitnun, sem höfð er eftir Rhodes, hvað best til þess fallin að sýna okkur inní hugarheim hans: „We must find new lands from which we can easily obtain raw materials and at the same time exploit the cheap slave labour that is available from the natives of the colonies„.

Cecil Rhodes lést 1902; aðeins 49 ára að aldri. Þá talinn einn efnaðasti maður veraldarinnar. En hann átti enga afkomendur. Að eigin ósk var hann grafinn í Matobo-hæðunum í Ródesíu. Þar sem nú heitir Zimbabwe.

Ekki verður sagt skilið við Rhodes og auðæfi hans, nema minnast fyrst á Rhodes-skólastyrkinn. Sem þykir einhver sá alfínasti. Það var einmitt Rhodes, sem kom þessum skólastyrk á með erfðaskrá sinni. Líklega er þekktasti handhafi Rhodes-styrksins maður að nafni Bill Clinton, sem nam við Oxford um 1970. Gamli hippinn, sem „did not inhale“.

oppenheimer_ernest

oppenheimer_ernest

Sama ár og Rhodes lést, steig ungur maður á land í Suður-Afríku, eftir langa siglingu frá London. Hann var kominn til að reyna að kaupa demanta fram hjá De Beers. En málin æxluðust þannig að aðkomumaðurinn heillaðist af viðskiptamódeli Cecil Rhodes. Og lét ekki þar við sitja heldur náði að eignast De Beers og þróaði það áfram sem mesta einokunarfyrirtæki veraldar. Hann stofnaði einnig Anglo American, sem í dag er eitt allra stærsta námafyrirtæki heims.

Þessi ljúflingur hét Ernest Oppenheimer. Og afkomendur hans eru nú fjórum ættliðum síðar ennþá valdamesta fjölskyldan í demantaiðnaði veraldarinnar. Og ein sú efnaðasta í heimi.

En það er önnur saga.

Fleira áhugavert: