Bakken USA – Olíuævintýri, sagan 2009

Grein/Linkur: Bakken til bjargar?

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Bændaolían á Bakken

Olíuævintýrið á Bakken er líklega besta dæmið um nútíma-gullæði í Bandaríkjunum.

Bakken_Basin

Bakken_Basin – Smella á myndir til að stækka

Ef orkuþyrstir Íslendingar nenna ekki að bíða eftir árangri af olíuleit á Drekasvæðinu, er etv. réttast að skella sér þarna vestur til Dakóta. Þar geta menn keypt sér slatta af hekturum á sléttunni, sett upp glás af vindtúrbínum og svo farið að bora eftir svarta gullinu.

Því nú er orðið nokkuð ljóst að einhverjar stærstu olíulindir Bandaríkjanna leynast þarna á sléttunum. Undir fótum vísundanna. Fylkið sem stundum hefur verið kallað „Saudi Arabía vindsins“ – Norður Dakóta – er þessa dagana að breytast í eina mestu olíuvon Bandaríkjanna.

Þetta nýjasta gullæði hefur nefnilega alls ekki reynst tálsýn. Sumir segja að síðustu árin hafi bæst við einn nýr dollara-milljarðamæringur á hverjum degiþarna westur í Montana og ekki síst á sléttum Norður-Dakóta. Sjaldan hafa jafn margir staurblankir bandarískir smábændur orðið jafn ríkir á jafn stuttum tíma.

Drake_Titusville

Drake_Titusville

Já – þökk sé olíunni á Bakken hefur áratuga hnignun byggðanna í Noður-Dakóta nú skyndilega stöðvast. Og varla hægt að fá barn skírt, því pastorinn er einhversstaðar úti á sléttunni að grafa eftir olíu. Og líklega útfararstjórinn og kráareigandinn líka. Rétt eins og gerðist í Titusville i Pennsylavníu, þegar „brjálaði“ Drake fann olíuna þar árið 1859 og allt varð vitlaust.

Bakken er gríðarstórt svæði, sem liggur innan bandarísku fylkjanna Montana og Norður-Dakóta og teygir sig þaðan norður til Saskatchewan í Kanada. Nafnið „Bakken“ er dregið af Henry nokkrum Bakken, en hann átti landið þar sem fyrsta olían fannst á þessu svæði. Það var árið 1953. Og þá vissu menn strax að þarna væri mikið magn af olíu. Mjög mikið.

Já – það er meira en hálf öld liðin frá því olía uppgötvaðist á Bakken. Samt eru einungis fáein ár síðan olíuvinnsla fór þar af stað fyrir alvöru. Nú er skyndilega allt hreinlega orðið brjálað þarna á sléttunum góðu. Þar sem Síouxarnir og frændur þeirra réðu áður ríkjum.

Sioux Chief

Sioux Chief

Alls er Bakken-svæðið rúmlega 500 þúsund ferkm eða fimm sinnum stærra en Ísland. Ef þarna er mikil olía, verður hún augljóslega ekki sótt gegnum eina eða tvær nettar borholur, heldur þarf þúsundir brunna.

Til eru margar og mismunandi spár um það hversu mikið af svarta gullinu Bakken hafi að geyma. Til að gera langa sögu stutta, skal látið nægja að segja, að nefndar hafa verið tölur frá 500 milljón tunnum og allt upp í 500 milljarða tunna.

Það magnaða er að kannski er síðastnefnda talan alls ekki útí hött! Kannski eru 500 milljarðar tunna af olíu í Bakken. Það væri auðvitað alveg stórkostlegt og einhver stærsti happdrættisvinningur Bandaríkjamanna á síðari tímum. Hér talar Orkubloggið í fullri alvöru og einlægni – og leggur alla kaldhæðni til hliðar. Þetta er kannski ólíklegt – en mögulegt. Og þótt óvissan sé mikil hefur straumur olíufyrirtækja undanfarið legið sunnan frá Texas og öðrum hefðbundnum olíufylkjum, norður til Bakken.

Bakken_layers

Bakken_layers

Já – hugsanlega er þetta einhver allrastærsta olíu-uppgötvun í Bandaríkjunum. En fögnum ekki of snemma. Því olían í Bakken hefur mikla sérstöðu.

Hún liggur nefnilega í mjög þunnum jarðlögumá nokkurra km dýpi. Þetta er samt olía! En hvorki olíusandur (oil sands) né tjörugrýti (oil shale); það er annar og sóðalegri iðnaður sem vonandi verður aldrei stór í sniðum.

Þessar olíulindir þarna á Bakken eru ekki nema u.þ.b. 50 m að  þykkt – og sumstaðar þynnri. Segja má að þær hlykkist eins og breiður örþunnur snákur eða risastór skata á um 1,5-3,5 km dýpi. Já – þetta eru mjög óvenjulegar olíulindir þarna á Bakken og oft mikið vesen að ná að kreista svarta gullið þarna upp. Fyrir vikið hentar hefðbundin bortækni, þar sem borað er beint niður, afar illa til vinnslu olíunnar á Bakken.

US_Oil_Reserves_BAKKEN

US_Oil_Reserves_BAKKEN

Einmitt þess vegna hefur olían í Bakken að mestu legið óhreyfð, þó svo meira en hálf öld sé liðin síðan olía fannst fyrst á svæðinu. Það var einfaldlega alltof dýrt að sækja hana. Það var ekki fyrr en bylting varð í láréttri bortækniá 9. og 10. áratugnum, að menn fóru af alvöru að renna hýru auga til Bakken.

Og þá liðu ekki mörg ár þar til borinn hitti beint í mark. Aldamótaárið 2000 uppgötvaðist stór olíulind á Bakken-svæðinu í Montana. Lindin sú kallast Elm Coulee. Og hún mun vera hvorki meira né minna en stærsta olíulind sem fundist hefur á bandarísku landi s.l. 60 ár (utan Alaska að sjálfsögðu, sbr. Prudhoe!).

Bakken_production_2

Bakken_production_2

Þessi „risalind“ – Elm Coulee í Montana – framleiðir nú u.þ.b. 50 þúsund olíutunnur á dagfrá nokkur hundruð brunnum. Þar upp hafa nú skilað sér um 50 milljón tunnur af olíu og um 115 milljón tunnur á Bakken-svæðinu öllu. Áætlað er að á líftíma sínum muni Elm Coulee skila allt að 270 milljón tunnum. Sumir eru reyndar enn bjartsýnni um framleiðslugetuna í Elm Coulee og giska á að 500 milljón tunnur sé nær lagi. Í dag er heildarframleiðsla Bakken-svæðisins um 100 þúsund tunnur af olíu á dag.

En eins og Orkubloggið nefndi hér ofar, þá er ekki beint sáraeinfalt að ná þessu Bakken-stöffi upp á yfirborðið. Olían í Elm Coulee liggur t.d. í jarðlagi, sem er einungis um 15 m að þykkt. Eina raunhæfa leiðin til að nálgast þessa olíu er að bora niður og svo taka 90 gráðu beygju og reyna að komast vel inn í lindina. Og svo líka beita vatnsdælingu til að hrekja olíuna að borholunni. Sannkallaður línudans.

Flestir brunnar í Montana skiluðu reyndar fremur litlu – nema Elm Coulee. Það sem flestir leita að á Bakken, er einmitt að finna aðrar lindir af sambærilegri stærð og Elm Coulee. Það er stóri draumurinn.

vesturfarar_sydow

vesturfarar_sydow

Orkubloggið hefur einmitt núna – eftir að í ljós kom að íslenski kapítalisminn reyndist byggður á botnlausri sandbleytu – verið að velta fyrir sér að gerast dreifbýlistútta þarna vestur á sléttunum. Feta í fótspor íslensku Vesturfaranna, sem höfðu ekki áhuga á kuldabolanum við Winnipeg-vatn og héldu þess í stað vestur til Dakóta.

Mig hefur hvort sem er alltaf langað að sjá forsetafésin á Rushmore-fjalli – og ein uppáhalds bíómyndin mín er einmitt klassíkin dásamlega North by Northwest! Já – þá kunnu menn sko að búa til bíó. En reyndar skilst blogginu að Rushmorið sé í Suður-Dakóta. Kannski fínn sunnudagsbíltúr þangað frá krummaskuðinu Fargo?

north-by-northwest-cary-grant

north-by-northwest-cary-grant

Í nokkur ár hefur Montana verið langmest spennandi svæðið á Bakken. Og olíu-kapphlaupið á Bakken því að mestu beinst þangað. En eftir því sem olíuverðið hækkaði fóru menn að bora víðar um Bakken. Og skyndilega rauk jarðaverðið á Bakken upp – ekki síst í Norður-Dakóta.

Ástæða þess að Norður-Dakóta hefur nú náð athyglinni frá Montana er einföld. Árið 2007 fannst nefnilega afar myndarleg olíulind Dakótamegin á Bakken-svæðinu. Rétt við smábæinn Parshall í norðvesturhluta fylkisins. Lindin sú er talin geta skilað allt að 700 þúsund tunnum. Allt í einu varð Elm Coulee bara litli kallinn á Bakken og hreint geggjað gullæði greip um sig í Norður-Dakóta.

Bakken_millioner

Bakken_millioner

Smábændur, sem lengst af höfðu varla séð pening nema sem innlögn í bókum kaupmannsins við vegamótin – svona í anda Óðals feðranna– fengu nú óvænt tilboð í olíuréttindin á jörðinni sinni. Og gátu sumir trítlað í smábæjarbankann sinn og lagt milljón dollara inn á gamla sparireikninginn! Ef menn aka um sveitir Norður-Dakóta þessa dagana, má víða sjá brosandi gamlingja sitja á veröndinni og njóta kvöldsólarinnar. Gæti verið að maður eigi þarna fjarskylda ættingja?

En hvað þýða þessar miklu olíulindir Bakken fyrir Bandaríkin í heild? Nú halda lesendur Orkubloggsins kannski að ef 500 milljarðar tunna af olíu séu hugsanlega á Bakken, sé einfaldlega hægt að segja að olíubirgðir Bandaríkjanna hafi þar með aukist úr 21 milljarði tunna í rúmlega 520 milljarða tunna í einu vetfangi. En þetta er örlítið flóknara en svo. Því það verður líklega aldrei hægt að ná upp nema broti af allri þessari olíu þarna á Bakken.

Oftast nær er ekki unnt að vinna nema ca. 50% af þeirri olíu, sem olíulind hefur að geyma. Og stundum minna. Þegar þrýstingurinn í lindinni er orðinn of lítill verður oftast alltof dýrt að ná afganginum upp. Og þá halda menn annað. Sádarnir og fleiri hafa með vatnsdælingu náð að hækka þetta hlutfall verulega – sumir segja í allt að 75%.

Bakken_oil_rig_snow

Bakken_oil_rig_snow

En þunnildin á Bakken bjóða því miður ekki upp á hlutfall í líkingu við þetta. Þar mega menn teljast góðir ef þeir geta náð kannski svona 3-10% af olíunni upp á yfirborðið. Það kann jafnvel að vera, að einungis um 1% olíunnar á Bakken sé vinnanleg olía. Og 1% af 500 milljörðum tunna eru bara 5 milljarðar tunna. Smá spæling. En jafnvel bara 5 milljarðar tunna þykir mikið – meira að segja í Bandaríkjunum.

En hvað er raunhæft að ætla að Bakken geti gefið mikið af sér? Til samanburðar má hafa í huga að á 35 árum hefur norska landgrunnið samtals gefið af sér u.þ.b. 21 milljarð tunna af olíu (og að auki um 8 milljarða tunna af gasi, mælt í ígildum olíutunna).

Orkubloggið er svo ljónheppið að bandaríska jarðfræðistofnunin (USGS) er nýbúin að senda frá sér uppfært álit um Bakken. Reyndar hefur skýrslan öll af einhverjum ástæðum ekki enn verið birt, heldur einungis stutt ágrip með helstu niðurstöðum. Þar segir að gera megi ráð fyrir að á Bakkensvæðinu öllu megi líklega vinna nákvæmlega 3,65 milljarða tunna af olíu. Það er nú allt og sumt.

Bakken_reserves

Bakken_reserves

Já – það er sem sagt svo að nýjasta og stærsta olíuuppgötvunin á bandarísku landi í meira en hálfa öld (utan Alaska) kann að skila vel innan við 4 milljörðum tunna af olíu. Og dýpi Mexíkóflóans gæti kannski skilað 9 milljörðum tunna (eða öllu heldur 3-15 milljörðum) ef spá Chevron reynist rétt.

Bandaríkjamenn brosa breitt þessa dagana yfir bæði Mexíkóflóanum og Bakken. En Orkubloggið rekur nú barrrasta upp hæðnishlátur. Það tekur því varla fyrir Kanana að vera að eltast við þetta smotterí.

bakken-oil_plains

bakken-oil_plains

Af því viðmiðun Orkubloggsins er auðvitað spáin góða, um að Íslandsmegin á Drekasvæðinu séu 10 milljarðar tunna af olíu. Sem skiptast á milli þjóðar með 330 þúsund íbúa. Það væri sambærilegt eins og Bandaríkjamenn myndu finna nýja olíulind með 10.000 milljörðum tunna af olíu. Miðað við fólksfjölda!

Sú góða tala – 10.000 milljarðar – er líka stundum orðuð sem 10 trilljónir. Stórhuga Íslendingar, sem hafa lifað í milljarðaheimi síðustu árin, ættu kannski að gleyma öllu krepputali og aðeins tjá sig í trilljónum héðan í frá. En blessaðir Kanarnir eru nægjusamari – og kætast yfir einungis örfáum milljörðum tunna af nýrri bandarískri olíu.

Það sem við getum lært af umræðunni um Bakken, er kannski helst eftirfarandi: Ef einhver fótur er fyrir því að 10 milljarðar tunna af vinnanlegri olíu og gasi finnist á íslenska Drekasvæðinu, hljóta menn í bandaríska orkumálaráðuneytinu að vera komnir á lyktina. Og tilbúnir að greiða Íslendingum milljarða dollara á borðið fyrir að fá exclusive nýtingarétt á svæðinu. Þar með getum við barrrasta hlegið að einhverju bresku icesave-væli og öðru krepputali. Jafnvel keypt Jómfrúreyjar af Könunum og öll komið okkur fyrir þar í sólarsælunni.

dallas

dallas

A goldmine is a whole in the ground with a liar on top! Að fullyrða að Drekasvæðið íslenska búi yfir 10 miljörðum olíutunna er auðvitað barrrasta eins og hvert annað grín. Taki menn mark á slíkum spádómum hljóta olíufélög eins og t.d. Chevron, ExxonMobil, Marathon Oil – og kannski líka Ewing Oil – öll að koma æðandi og skríða fyrir fótum iðnaðarráðherra. Eins og rakki að biðja eiganda sinn um fyrirgefningu.

Nú bara bíðum við og sjáum hvað setur. Vonandi kemur að því að Orkubloggið þurfi að éta ofan í sig allt þetta nöldur útí olíuspár Drekasvæðisins. Vonandi verður Ísland eitt mesta olíuframleiðsluríki heims, eins og hinar villtu og blautu spár Norsaranna hjá Sagex Petroleum gefa til kynna. Svo við fáum hina raunverulegu Ewinga hingað norður á Klakann góða til að dæla stöffinu upp. Úff, hvað ég er orðinn spenntur.

Fleira áhugavert: