Bakken olíulindin – Norðvesturríkjum Bandaríkjanna
Grein/Linkur: Bakken til bjargar?
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Janúar 2009
Bakken til bjargar?
Er ekki Tívolí örugglega miklu stærra en Bakken?
Sumir segja að Bakken geymi allt að 500 milljarða olíutunna. Og svæðið komi til með að bjarga olíuframleiðslunni í Bandaríkjunum. Í dag ætlar Orkubloggið að halda brott frá Tívolíi Drekasvæðisins – og bregða sér yfir á Bakken. Í norðvestur-ríkjum Bandaríkjanna.
Bakken gæti nefnilega haft að geyma eina stærstu olíulind í Bandaríkjunum. Bjartsýnisblöffarar tala um allt að 500 milljarða tunna! En áður en bloggið fer að snuðra um Bakken, er vert að staldra við og fara nokkrum orðum um olíubirgðir Bandaríkjanna.
Bandaríkjamenn horfa fram á það, að allar núverandi olíulindir þeirra verði þurrausnar innan fárra ára. Þekktar olíubirgðir þeirra eru um 21 milljarður tunna og að auki líklega um 35-40 milljarðar tunna af gasi, umreiknað í olíutunnuígildi (vegna mikilla gasbirgða vill gamli olíurefurinn Boone Pickens einmitt að Bandaríkin komi öllum flutningabílaflota sínum á gas í stað díselolíu).
Olíuframleiðslan í Bandaríkjunum er nú rétt innan við 3 milljarðar tunna á ári, en ársnotkunin er um 8 milljarðar tunna. Þess vegna þurfa Bandaríkin að flytja inn um 5 milljarða tunna af olíu árlega. Og kaupa stóran hluta þeirrar olíu frá „vinaþjóðum“ eins og Venesúela og Arabaríkjum í Mið-Austurlöndum.
Þetta þykir mörgum Bandaríkjamanninum frekar óþægileg staða. Ekki aðeins það að viðskiptavinirnir eru fremur ótraustir vinir, heldur kostar þetta líka þjóðina slatta af pening. Sem mestur endar sem dúnfylling í sænginni hans Húgó Chavez í Venesúela, Abdúlla Sádakonungs og hjá öðrum þess háttar gæðingum. Það er óneitanleg heldur skítt fyrir bandarískan almenning að þurfa að halda slíkum pótintátum uppi.
Miðað við olíuframleiðslu og þekktar olíubirgðir Bandaríkjamanna, mun olían þar klárast innan tíu ára. En að sjálfsögðu mun olíuframleiðsla vara miklu lengur í Bandaríkjunum. Því það eru alltaf að finnast nýjar olíulindir, sem þá bætast við núverandi birgðir.
Bandarísk stjórnvöld halda nákvæmt „bókhald“ um þessar ófundnu olíu. Olíubirgðirnar sem ekki hafa enn fundist, en þokkalegar líkur eru á að finnist. Á ensku kallast þetta oftast „undiscovered, technically recoverable oil reserves“ eða óuppgötvaðar, vinnanlegar olíubirgðir. Einhverjar stærstu slíkar ófundnu olíulindir í heimi eru taldar geta leynst í Írak, sem sumpart útskýrir umtalsverðan áhuga Bandaríkjamanna á því stríðshrjáða landi.
Óuppgötvaðar olíubirgðir í Bandaríkjunum eru nú taldar nema allt að 120 milljörðum tunna. Í þeirri tölu eru náttúruverndarsvæðin í Alaska ekki meðtalin. Þau svæði eru talin geta búið yfir u.þ.b. 11 milljörðum tunna í viðbót (eins og vikið verður að hér síðar).
Til samanburðar má nefna að menn gæla við að óuppgötvaðar olíubirgðir í Írak séu hugsanlega 350 milljarðar tunna. Og að heimskautasvæðin hafi að geyma hátt í 100 milljarða tunna. Þessum birgðum er stundum lýst sem olíu framtíðarinnar.
Þetta eru vel að merkja óuppgötvaðar birgðir (rétt eins og meint olía á Drekasvæðinu eða íslenska landgrunninu yfirleitt). Flestar eru þessar ófundnu lindir í Bandaríkjunum taldar vera fremur litlar. Og munu því einungis bæta mjög hægt við vinnanlegar, þekktar birgðir (proven reserves). Þar liggur einn stærsti vandi bandarísku þjóðarinnar. Það vantar nýjar risalindir.
Þar að auki er auðvitað alger óvissa um það, hversu mikið af þessum 120 milljörðum tunna af olíu munu yfirleitt finnast. Það eina sem er nokkurn veginn öruggt, er að Bandaríkjamenn eiga með all góðri vissu um 21 milljarða tunna af olíu í jörðu. Og það gengur hratt á þessar proven reserves. Til að Bandaríkin þurfi ekki innan fáeinna ára að flytja inn 80-90% af allri olíuneyslu sinni, þurfa að finnast nýjar risalindir. Og það sem allra, allra fyrst.
Menn eru að gæla við að úti á regindjúpi Mexíkóflóans sé að finna 3-15 milljarða tunna af olíu. Og náttúruverndarsvæðin í Alaska (ANWR; friðuðu svæðin í Alaska) eru sögð geyma annað eins eða jafnvel örlítið meira. Bandaríska jarðfræðistofnunin (USGS) hefur skotið á að ANWR kunni að geyma 6-16 milljarða tunna af vinnanlegri olíu.
Þegar metið er hvort þessi olía muni finnast og skila sér upp á yfirborðið, er oftast miðað við meðaltalið. Sem er um 11 milljarðar tunna í ANWR og um 9 milljarðar tunna á djúpi Mexíkóflóans. Þessi tvö svæði gætu m.ö.o. hugsanlega gefið af sér allt að 20 milljarða tunna af olíu – og í besta falli 31 milljarð tunna. Allt eru þetta þó einungis spár – óvissumörkin eru mikil.
Sennilega verður reyndar aldrei farið í það, að vinna olíu innan ANWR. Því Obama og margir aðrir vilja alls ekki heimila olíuleit- eða vinnslu á náttúruverndarsvæðunum í Alaska. Ekki einu sinni John McCain vildi heimila slíkt, þ.a. nokkuð breið sátt ríkir um það vestan hafs að stúta ekki Alaska. Jafnvel ekki í nafni olíunnar.
Í dag er Mexíkóflóinn því bjartasta vonin um að auka megi proven oil reserves í Bandaríkjunum, svo einhverju nemi. Sem fyrr segir er talið að það svæði geti skilað allt að 15 milljörðum tunna… en kannski samt ekki nema 3 milljörðum tunna. Og eins og áður var nefnt, er kannski líklegast að Mexíkódýpið gefi af sér tölu þarna mitt á milli; ca. 9 milljarða tunna. Þessar tölur sýna nokkuð vel að spá bandarískra stjórnvalda um meintar ófundnar olíubirgðir Bandaríkjanna upp á 120 milljarða tunna, er í reynd afar óviss, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Annað svæði sem miklar vonir eru bundnar við í Bandaríkjunum er Bakken. Á MonDa-svæðinu; Montana og Norður-Dakóta.
Bakken virðist reyndar vera eina vonin um almennilega stóra, nýja olíulindin í Bandaríkjunum fyrir utan Mexíkóflóann og Alaska. Sumir segja að þar séu 500 milljarðar tunna af olíu! Aðrir telja að Bakken muni aldrei geta staðið undir meiri framleiðslu en samtals 500 milljónum tunna. Þarna munar aðeins þúsundfalt í ágiskununum!
En hvort sem Bakken hefur að geyma 500 milljarða tunna af olíu eða einungis 1/þúsundasta af því (500 milljón tunnur), þá eru flestir sammála um að olíulindirnar í Bakken séu stórar. Mjög stórar.
Til samanburðar má nefna að um Drekasvæðið hafa menn haft uppi hugmyndir að þar séu um 2-10 milljarðar tunna Íslandsmegin í lögsögunni. Sem Orkublogginu þykir óréttlætanlega háar spár. Meðan ekkert hefur verið borað í æðar Drekans ættu menn ekki að vera að nefna svona rosalega háar tölur.
Kannski er vert að hafa í huga, að þegar menn segjast hafa fundið gullnámu er oft ástæða til að efast. Vestur í Ameríku er stundum sagt að slíkir menn séu jafnan lygarar. A goldmine is a whole in the ground with a liar on top! Sumir segja reyndar að þessi tilvitnun sé höfð eftir sjálfum Mark Twain – föður Stikilsberja-Finns. En það er önnur saga.
En hvað er Bakken stórt dæmi? Er þetta fölsk gullnáma eða er Bakken bjargvættur Bandaríkjanna? Munu finnast þar 500 milljarðar af olíutunnum… eða kannski bara hálfur milljarður tunna?
Og spurningin sem er ekki síður mikilvæg; hversu hátt hlutfall af Bakken-olíunni verður unnt að ná upp? Verða það 70% eins og Sádarnir eru byrjaðir að grobba sig af? Eða á bilinu 30-50% eins og algengast er? Eða kannski bara 1% eins og sumir vilja halda fram – vegna þess að gumsið á Bakken er óaðgengilegra en mestöll önnur olía í heiminum?