Demantar – Blóðdemantar, uppruni

Grein/Linkur:  Ís­land sker sig úr varðandi úti­lokun á blóðdemöntum

Höfundur:  Helgi Steinar Gunnlaugsson, Fréttablaðinu

Heimild:

.

.

Nóvember 2022

Ís­land sker sig úr varðandi úti­lokun á blóðdemöntum

Samkomulag að undirlagi Sameinuðu þjóðanna um að stöðva flæði svonefndra blóðdemanta, var gert 2003. Ísland er eina vestræna ríkið sem enn á ekki aðild að því.

Blóðdemantar eru skilgreindir sem hrádemantar sem eiga sér uppruna á átakasvæðum. Ágóði af þeim er notaður til að fjármagna ofbeldisverk af hálfu skæruliðahreyfinga eða hryðjuverkasamtaka sem ráðast gegn lögmætum ríkisstjórnum.

Í kjölfar margra áratuga borgarastyrjalda í Afríku ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að undirrita hið svokallaða Kimberley-ferli árið 2003. Hugmyndin var að innleiða vegabréfakerfi fyrir hvern og einn demant til að geta rakið uppruna.

Þjóðirnar sem taka þátt í ferlinu gæta þess að þeir demantar sem eru keyptir eða seldir, fjármagni ekki skæruliðahreyfingar. Lögmætt skírteini verður síðan að fylgja öllum demöntum sem fluttir eru úr landi.

Að Kimberley-ferlinu standa 56 þjóðir og er Evrópusambandið talið sem einn aðili. Ísland er eina vestræna þjóðin sem er ekki með.

Elke Ceulemans, talsmaður Kimberley-stjórnarinnar, sagði í fyrirspurn um mögulega þátttöku Íslands, að allar þjóðir sem taka þátt í ferlinu verði fyrst að uppfylla kröfur vottunarkerfisins og geta síðan sent inn umsókn um þátttöku sem er skoðuð af sérstakri nefnd áður en þjóðin er samþykkt sem meðlimur.

„Eftir minni bestu vitund þá hefur Ísland ekki sýnt neinn áhuga á að gerast þátttakandi að ferlinu,“ segir Elke.

Samtökin Global Witness hafa bent á að vandamálið sé mun víðtækara en bara skæruliðahernaður. Stríðsglæpir tengdir demöntum geta einnig átt sér stað undir forsjá ríkisstjórna og hefur iðnaðurinn oft verið bendlaður við barnaþrælkun og umhverfisspjöll.

Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri hjá Íslandsdeild Amnesty, segir að mannréttindasamtök á Íslandi tækju því fagnandi ef íslensk stjórnvöld myndu stíga fyrstu skrefin í að auka mannréttindi í heiminum.

„Við viljum einnig sjá að fyrirtæki stígi fram og virði mannréttindi, sem er eitthvað sem er ekki endilega valkvætt fyrir þau,“ segir Anna.

Hingað til hefur það verið undir íslenskum gullsmiðum og skartgripaverslunum komið, að tryggja að vörur þeirra séu ekki af átakasvæðum.

Flestir demantar hér eru keyptir í Antwerpen í gegnum danska tengiliðafyrirtækið Aktiv Guld.

Unnur Eir Björnsdóttir gullsmiður segir að það sé skýr stefna hjá skartgripaverslun sinni að selja allar vörur með góðri samvisku. Allt sé keypt hjá lögmætum fyrirtækjum.

„Við viljum alls ekki blóðdemanta í okkar verslunum og þess vegna höfum við alltaf verslað við þetta danska fyrirtæki. Við hjá Félagi íslenskra gullsmiða viljum efla okkar fag og hafa allt 100 prósent,“ segir Unnur.

Um 90 prósent af öllum demöntum í heiminum eru slípaðir í borginni Surat á Indlandi. Samkvæmt fréttablaðinu Times of India er þriðjungi af öllum demöntunum smyglað þangað ólöglega frá Angóla, Fílabeinsströndinni, Lýðveldinu Kongó eða Simbabve.

.

Demantaiðnaðurinn hefur oft verið bendlaður við barnaþrælkun og umhverfisspjöll fréttablaðið/epa

.

Saga demanta og verðmæti þeirra

Árið 1888 var fyrirtækið DeBeers stofnað í Suður-Afríku.

Á fjórða áratug seinustu aldar innlimar formaður DeBeers einokunarstefnu og takmarkar flæði demanta til að stjórna bæði framboði og eftirspurn.

Slagorðið „Demantur er að eilífu“ kom út úr árangursríkri auglýsingaherferð DeBeers sem náði að jafngilda demanta við eilífa ást. DeBeers seldi svo steinana sína á uppsprengdu verði þar sem fyrirtækið hafði búið til nokkurs konar vegatálma fyrir hjónaband.

Demantar eru ein auðveldasta afurð í heimi til að smygla. Þeir eru agnarsmáir og finnast ekki í málmleitartækjum.

Mörg ríki í Afríku þar sem demantar finnast, eiga þegar við spillingarvandamál að stríða og jafnvel minnstu steinar geta skilað inn miklum gróða

Fleira áhugavert: