Sólarorka – Gardínur fanga orku

Grein/Linkur:   Heitar gardínur og sólrík kona

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:

.

.

Júlí 2006

Heitar gardínur og sólrík kona

Víða um lönd vinna menn að því hörðum höndum að finna orku í einhverri mynd sem komið getur í stað þeirra orkulinda sem ýmist eru á þrotum eða menn vilja einhverra hluta vegna ekki nýta. Vitað er að olían gengur til þurrðar að lokum og þótt alltaf séu að finnast nýjar og nýjar lindir þá eru þær oft á stöðum þar sem erfitt er að vinna olíuna, eða þá að mikil mengunarhætta fylgir vinnslunni nema hvort tveggja komi til. Hins vegar er svo orkuvinnsla sem mikil og almenn andstaða er gegn. Þar er efst á lista kjarnorkan. Þó er það engan veginn svo að í öllum löndum sé andstaða gegn kjarnorkuverum til orkuvinnslu. Finnar byggja fleiri og fleiri kjarnorkuver á meðan Svíar gefa út hverja yfirlýsinguna á eftir annarri um að þeir ætli ekki aðeins að hætta alfarið að byggja kjarnorkuver, heldur einnig að slökkva á þeim sem þeir eiga og rífa þau til grunna. Það standa þeir þó aldrei við því þeir hafa ekki hugmynd um hvað á að koma í staðinn.

Svo er þessi sérkennilega þjóð Íslendingar sem eru að verða æ hallari undir það að ekki aðeins vatnsorkuver heldur einnig gufuaflsstöðvar séu af hinu vonda og skuli stöðva nú þegar. Þennan áróður rekur fólk sem býr í húsum þar sem hitinn er stöðugt yfir 22°C vegna jarðhitans, ljós í hverju horni, kveikt á tölvum og öllum hinum heimilistækjunum, þökk sé raforkunni sem kemur frá vatnsaflsvirkjunum okkar.

Svo er það stóra heimsveldið, Bandaríki Norður-Ameríku, sem heldur áfram að eyða olíu eins og aldrei hafi heyrst að á henni kunni að verða vöntun einn daginn. Og ef teikn eru á lofti um að ekki streymi olía frá olíuauðugum þjóðum þá er bara að senda herinn á vettvang og berja þær til hlýðni. Engum skal líðast að búa til kjarnorkusprengjur nema þeir séu Sámi frænda þóknanlegir. Þeim sem svo mikið sem ýja að því að þeir eigi úran er jafnvel hótað með kjarnorkuárás af forystuþjóð hins frjálsa heims.

En að loknum þessum dómadagslestri aftur að þeim nægtabrunni orkunnar sem er auðvitað sólin sem gefur öllu líf sem lifað getur á jörðu hér.

Síðustu fréttir frá Svíum á þeim vettvangi koma frá Vefnaðarháskólanum í Borås. Þangað koma ungmenni víða að til að læra um vefnað og klæði, hvort sem það eru gólfteppi eða brúðarkjólar. En einn ungur þýskur nemandi hreifst með í leit heimamanna að nýjum orkugjöfum. Ætla mætti að hvergi ættu Bakkabræður afkomendur nema í Svíþjóð ef skoðuð er árátta manna að nýta sólina, þó enginn ætli sér beinlínis að bera sólarljósið inn í hús í höttum eða greipum sér.

Þessi unga kona tók það sem nærtækast var í Vefnaðarháskóla og útbjó gardínur sem drukku í sig sólarljósið. Svo kom myrkrið og þá lýstu þessar sömu gardínur upp stofuna, ja flest dettur fólki í hug. Við vitum það flest að stundum finnst okkur nóg um hvernig sólin flæðir inn til okkar svo oft skermum við sólarljósið af og fáum samt næga birtu. En að geta geymt það þar til dimmir er ekki ónýt uppgötvun og hún er ekki út í bláinn, hana hafa margir vísir menn tekið alvarlega.
Það er stutt síðan við gerðum framliðnum löndum okkar hátt undir höfði eða þeim bræðrunum frá Bakka og bent var á að hugmynd þeirra að bera sólskin í bæinn er ekki svo galin. Sú uppgötvun sem þar var lýst var að fanga sólarljósið. Leiða það að sérútbúnum lömpum í dimmum rýmum og standa þar í glampandi sólarljósi. Bakkabræðrum datt víst aldrei í hug að fanga sólarljós með gardínum því slíkur munaður var ekki til á þeirra bæ enda gluggaborur litlar. En með þessum pistli átti að birtast mynd af konu sem stóð undir sólarlampa sem hellti yfir hana og baðaði í sólskini hvers geislar náði alveg niður á gólf. En blessuð konan varð heldur stutt í annan endann og þess vegna sást skin sólarljóssins ekki nægilega vel. Þá er ekki annað en að birta myndina aftur endurbætta þar sem greinilega má sjá hvernig sólarlampinn Björk hellir geislum sólarinnar yfir konuna allt til gólfs og birtan flæðir um herbergið.

Fleira áhugavert: