Rafmangsflutningur – AC DC

Grein/Linkur: AC DC

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

AC DC

Went down the highway
Broke the limit, we hit the town
Went through to Texas, yeah Texas

Eitt það skemmtilegasta sem Orkubloggarinn lék sér að sem snáði, var að fikta með skrúfjárni í rafmagnstækjum ýmiss konar. Svo sem að rífa í sundur gömul útvarpstæki og skoða innihaldið gaumgæfilega.

AC_poster

AC_poster

Og það var ekki bara spekúlerað í tækjunum eða rafmagnsklóm. Innstungurnar í gamla húsinu austur á Klaustri voru líka spennandi viðfangsefni, en rafmagnið þar kom beint ofan af Systravatni. Þetta fikt olli auðvitað stundum tilheyrandi „straumköstum“ af og til. Það að fá 230 volta straum var alltaf jafn undarleg og óþægileg tilfinning. Þó svo afleiðingarnar hafi aldrei orðið alvarlegri en stutt dofakennd tilfinning í puttunum, skýra þessar rafstraums-tilraunir bloggarans kannski ýmislegt í síðari tíma hegðun hans?

Nema þá að persónuleiki Orkubloggarans hafi meira mótast af því, að sofa alla sína barnæsku í litla herberginu beint ofan við miðstöðvarkompuna. Þar sofnaði bloggarinn jafnan undir notalegu muldrinu í olíukynntri miðstöðinni. Hér skal þó tekið fram að sá sem síðastur gekk til náða í fjölskyldunni, hafði það verkefni að slökkva á miðstöðinni. Enda sú gamla til alls vís ef hún fengi að malla yfir nóttina. Slíkar miðstöðvar áttu það nefnilega til að springa í loft upp og gátu þá tekið hálft húsið með sér.

shell_logo

Shell

Olían sem kynnti miðstöðina kom úr olíugeyminum sem grafinn var handan við vegginn, rétt um metra frá rúmi Orkubloggarans. Einu sinni í mánuði eða svo renndi Finnur úr Vík á Shell-tankbílnum upp heimreiðina, tengdi leiðsluna við olíugeyminn og fyllti á. Those where the days. Kannski ekki skrýtið þó bloggarann langi að bjóða í Skeljung.

Ósléttur veggurinn milli olíugeymisins og næturfleti bloggarans var lengst af prýddur stóru plakati með mynd af spænsku nautaati. Frá fyrstu sólarlandaferð bloggarans til Torremolinos og Malaga með Guðna í Sunnu. Síðar voru þar myndir af ungum Bubba Morthens, Utangarðsmönnum og fleiri slíkum snillingum unglingsáranna. Þ.á m. voru auðvitað stuttbuxnastrákurinn fíngerði Angus Young og félagar hans í AC DC!

Sem kunnugt er stendur AC DC fyrir Alternating Current og Direct Current. Eða riðstraum og jafnstraum upp á ástkæra ylhýra. Það er svolítið athyglisvert að „feður rafmagnsins“, þeir Thomas Edison og Nikola Tesla, háðu það sem stundum hefur verið nefnt Straumstríðið. Edison er sagður hafa hallast að því að jafnstraumur (DC) væri skynsamlegasta leiðin til raforkuflutninga, meðan Tesla aðhylltist aftur á móti riðstraum (AC).

Það varð fljótt ljóst að straumtap varð meira þegar notast var við jafnstraum heldur en riðstraum. En Edison taldi heppilegast að framleiða raforkuna nálægt notendum og þá myndi rafmagnstap ekki verða vandræði. Hann hafði sjálfur varið miklu fé í að þróa jafnstraums-flutningskerfi og kann það að hafa verið ein ástæða þess að hann barðist svo hatrammlega gegn riðstraumnum. Fræg er sagan af því þegar Edison kom að smíði fyrsta rafmagnsstólsins, til þess m.a. að sýna fram á hversu riðstraumur væri hættulegur. Það verk var unnið fyrir New York ríki til að framkvæma dauðarefsingu með mannúðlegri hætti en hengingu. Og svo sannarlega reyndist þetta riðstraumstæki banvænt. Þúsund volta riðstraumurinn náði reyndar ekki að deyða fangann, hinn þrítuga William Kemmler, en svo hækkuðu menn í 2.000 volt og steiktu Kemmler.

Tesla_Nikola_3

Tesla_Nikola

Þetta varð samt ekki til þess að almenningur eða stjórnvöld tækju að óttast riðstraum, eins og sumir segja að Edison hafi gert sér vonir um. Þó svo við öll þekkjum til Edison's en Tesla sé flestum (að ósekju) gleymdur, fór svo að riðstraumurinn hans Tesla varð ofaná.

Ástæðan var sú að riðstraumurinn gaf möguleika á því að flytja rafmagnið lengri leiðir í formi háspennu. Með spennubreytum var einfalt að lækka spennuna fyrir neytendatækin og þetta var einfaldlega hagkvæmasta leiðin til að flytja rafmagn.

Riðstraumur þótti sem sagt miklu skynsamlegri kostur. Og sá sannleikur breiddist út með rafvæðingu veraldarinnar. Löngu síðar tókst Svíunum hjá Allmänna Svenska Elektriska Aktiebolaget (ASEA) að þróa nýja jafnstraumstækni, sem gerir jafnstraum að afar hagkvæmri flutningsaðferð þegar flytja þarf mikið rafmagn langar leiðir.

Sú tækni varð þó ekki til fyrr en eftir seinna stríð og enn um sinn var riðstraumstæknin yfirgnæfandi í öllum rafmagnsflutningum. Og er enn. En undanfarin ár hafa orðið miklar framfarir í jafnstraumstækninni. Svo virðist sem þessi tækni sé að skapa nýja og spennandi möguleika í rafmagnsflutningum. Kannski má segja að kenning Edison hafi einkennst af framsýni og að hugmynd hans sé sigurvegarinn þegar upp er staðið.

Nýju jafnstraumstengingarnar þykja henta sérstaklega vel þegar rafstrengir eru lagðir langar leiðir eftir hafsbotni. Þarna er m.ö.o. komin fram tækni, sem kann að vera áhugaverð fyrir okkur Íslendinga í því skyni að selja rafmagn frá Íslandi til annarra landa. Kannski væri besta og skynsamasta leiðin til að leysa þetta leiðinda Icesave-mál, að semja við Breta um slíka rafmagnssölu. Orkubloggarinn er á því að Alþingi eigi að hætta þessu Icesave-rugli þegar í stað og þess í stað setjast niður með Bretum, Hollendingum og Þjóðverjum og semja um að leysa málið af skynsemi. Allar þessar þjóðir eru hungraðar í endurnýjanlega raforku og þetta myndi um leið geta orðið besta sóknin gegn atvinnuleysi og kreppu. Slíkt risaverkefni myndi þar að auki líklega hafa hér mikil og jákvæð ruðningsáhrif og stórefla bæði íslenskan tækniiðnað og hugbúnaðarfyrirtæki.

Já – rafmagnsflutningar eru svo sannarlega spennandi viðfangsefni. En þetta er kannski alltof mikið alvörumál til að velta vöngum yfir á svona funheitum föstudegi. Nær að koma sér í stuð með einu góðu myndbandi: Thunder Struck!

Fleira áhugavert: