Ofnhitakerfi – Rennslistilling, virkni ofnventla
Grein/Linkur: Er rennslisstilling ofnhitakerfa nauðsynleg?
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Júní 1995
Er rennslisstilling ofnhitakerfa nauðsynleg?
Alltof mörg hitakerfi eru því marki brennd, að hiti er ójafn á einhvern hátt. Samt er hitaveitureikningurinn allt of hár að mati húseigenda.
Þau voru nýflutt inn, ung, dug leg og bjartsýn þrátt fyrir mikið strit við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Margt var enn ógert, en flest þægindi þó komin, auðvitað af nýjustu og bestu gerð.
Þar á meðal hitakerfi, lakkmálaðir ofnar beint úr smiðju, hver ofn með sjálfvirkum ventli, sem stýrði hitanum.
Hlaut þá ekki allt að vera í lagi?
Allt ætti að vera í lagi, en í þessu tilfelli reyndist hitinn æði misjafn, ef eitthvað átti að vinna í bílskúrnum og hitastilling var hækkuð þar örlítið hætti ofninn í stofunni að hitna og þar virtist raunar aldrei verða bærilega heitt; hinsvegar var alltaf mikill hiti í eldhúsi og forstofu.
Eitthvað á þessa leið hljómar kunnugleg kvörtun um hitakerfi sem ekki uppfyllir væntingar húseigenda og það þarf ekki að vera í nýju húsi, alltof mörg hitakerfi eru þessu marki brennd, að hiti er ójafn á einhvern hátt þrátt fyrir að hitaveitureikningurinn er alltof hár að áliti húseigenda.
Hvað er að?
Eru ekki sjálfvirkir ventlar á öllum ofnum, sumir að neðan, aðrir að ofan, eiga þeir ekki að stjórna hitanum óaðfinnanlega?
Jú, ef öll forvinna hefur verið unnin og húseigendur beita þessum stjórntækjum á skynsamlegasta hátt.
Hvernig vinna sjálfvirkir ofnventlar?
Í „hausnum“ eða í sérstöku hylki, sem fest er á vegg og tengist ventlinum með örmjóu röri, er gas eða vax, sem er mjög næmt fyrir hitabreytingum. Ef gasið eða vaxið hitnar þenst það út en dregst saman við kólnun, það er þetta náttúrulögmál sem orsakar það að ventillinn lokar eða opnar og það þarf ekki mikla breytingu á lofthita til að lokun eða opnun hefjist, breytingin gerist ekki skyndilega en þó nógu hratt til að hiti er stöðugur, lítil breyting frá lægsta hita til þess mesta.
En þessi lýsing á aðeins við þá ventla, sem eru á innrennsli ofnsins að ofanverðu, svokallaðir túrventlar. Þeir, sem eru á neðri leiðslu eða á útrennslinu eru kallaðir retúrventlar, en þeir stýrast ekki eftir lofthita herbergisins heldur af vatninu sem um þá rennur.
Semsagt: sjálfvirkur ofnventill hefur það hlutverk að opna og loka fyrir streymi heita vatnsins inn á ofninn allt eftir því hvernig hann er stilltur, því hærri stilling því meiri hiti.
Rennslisstilling
Ef þú heyrir talað um jafnvægisstillingu er verið að tala um sama fyrirbærið og hér er nefnt rennslisstilling, þeim sem hér heldur á penna finnst einfaldlega rennslistilling gagnsærra orð og það veitir svo sannarlega ekki af því að þeir sem ræða eða rita um tæknileg mál noti tær og auðskiljanleg orð.
En hvers vegna er þörf á rennslisstillingu ef notaðir eru sjálfvirkir ofnventlar, sjá þeir ekki um alla stillingu eða eru þeir ekki sjálfvirkir?
Vegna þess að minnsti ofninn á ekki að fá jafnmikið vatnsrennsli og stærsti ofninn og það er einmitt það sem gerist ef hitakerfi eru ekki rennslisstillt. Það er nú einu sinni svo að eðli vatns er að fara alltaf auðveldustu leiðina og í nútíma hitakerfi erum við ekki búin að kasta fyrir róða öllu frumeðli hluta eða náttúrulögmálum, síður en svo.
Afleiðingin getur orðið sú að vatnið fossar í gegnum litlu ofnana en sáralítið í gegnum þá stærstu, sem yfirleitt eru í stofu ef við miðum við íbúð.
Afleiðingin getur einnig orðið sú þversögn að íbúðin hitnar ekki nægjanlega vel, en hitaveitureikningurinn er óeðlilega hár, við tökum nefnilega best eftir hitastigi stofunnar, þar viljum við hafa þægilegan og nægilegan hita.
Við tökum minna eftir hitastiginu þar sem litlu „þjófarnir“ eru, litlu ofnarnir sem hleypa vatninu of ört í gegnum sig, en hafa ekki burði til að grípa varmann á leið vatnsins vegna þess að það fer of hratt.
Slíkir ofnar eru oft heitir að neðan og það veit ekki á gott.
Kjarninn er þessi: þó að allir ofnventlar opnist í einu á enginn ofn að verða út undan, hver ofn á að fá það vatnsmagn sem hann ræður við að kæla.
Sjálvikur ofnventill sér þér fyrir þeim hita sem þú óskar eftir, en stundum eyðist við það of mikið af heitu vatni vegna þess að hitakerfið er ekki rennslisstillt.