Nýr kafli í dreifingu og afgreiðslu á steypu er nú að hafinn á Íslandi. Steypustöðin kynnti í dag fyrsta 100% rafknúna steypubílinn og tvinndælu á Íslandi.
Steypustöðin gekk í vikunni frá samningi við stærsta steypudælu og -bílaframleiðanda heims, Putzmeister, um fyrsta rafmagnsknúna steypubílinn. Bifreiðin verður einnig fyrst sinnar tegundar í heiminum frá framleiðandanum.
Einnig gekk Steypustöðin frá kaupum á Hybrid steypudælu og mun því geta dælt steypu á byggingasvæðum með verulega lágri kolefnislosun frá flutningum.
„Það er ótrúlega gaman að ganga frá þessum samningi, það er mikill heiður að Ísland fái fyrsta rafmagnsknúna steypubílinn frá Putzmeister og það er ákveðinn viðurkenning fyrir íslenska steypumarkaðinn að fá þetta traust og ryðja þannig brautina í heiminum fyrir umhverfisvæna steypuflutninga“ segir Björn Ingi Victorsson forstjóri Steypustöðvarinnar.
Rafmagnsteypubílinn er 100% rafknúinn og mengar því ekkert hvort sem er í akstri eða losun steypunnar á verkstað.
Hljóðmengun úr sögunni
Hljóðmengun frá dísilknúnum vélum í framkvæmdum er oft á tíðum mikil truflun fyrir íbúa á staðnum, en rafmagnssteypubílinn er einstaklega hljóðlátur og veldur lítilli hljóðmengun.
„Hljóðmengun er mikið vandamál þegar verið er að steypa í dag með tilkomu þéttingu byggðar. Vélin í þessum rafmagnssteypubíl er einstaklega hljóðlát og nágrannar á svæðinu geta svo sannarlega sofið út þó að verið sé að steypa“ segir Björn.
Tvinndæla einnig hluti af pakkanum
„Til að taka skrefið af fullri alvöru höfum við einnig fest kaup á tvinndælu sem dælir á 100% rafmagni á verkstað. Þannig myndast enginn kolefnisútblástur á verkstað á meðan á steypuframkvæmdum stendur“ Segir Björn Ingi.
Rafmagnssteypubíllinn og tvinndælan er fyrsta skrefið sem Steypustöðin tekur í átt að orkuskiptum frá þungum dísilbílum í græna rafbíla. Í áætlunum félagsins er lögð áhersla á að skipta út öllum dísilvélum fyrir rafmagn og aðra umhverfisvænni orkugjafa.
Verkefnið að byggja sterkari framtíð fyrir komandi kynslóðir
Steypustöðin hefur að undanförnu lagt mikla áherslu á að draga úr kolefnisspori steypuframkvæmda.
Að sögn Björns eru þetta algjör kaflaskil fyrir íslenskan byggingariðnað, þar sem nú sé hægt að flytja og dæla grænni og umhverfisvænni steypu með rafknúnum steypubíl og dælu á verkstað sem lækkar umtalsvert kolefnisspor steypunnar.
„Við erum fyrst og fremst að búa til þennan valkost fyrir viðskiptavini, í dag bjóðum við upp á græna steypu með minna kolefnisspori, snjallsteypu sem dregur úr notkun á sementi sem leiðir til minna kolefnisspors og endurvinnslu á steypu. En með orkuskiptum úr dísilknúnum steypubílum erum við að taka enn stærra skref í átt að alvöru kolefnisparnaði sem byrjar strax“ segir Björn að lokum
Miklar fjárfestingar í þróun á kolefnishlutlausum steypubúnaði
„Putzmeister hefur á undanförnu fjárfest ríkulega til að vera leiðandi framleiðandi fyrir kolefnishlutlausan steypubúnað. Steypustöðin er algjör brautryðjandi í evrópskum byggingariðnaði og verður eitt af fyrstu fyrirtækjunum í heiminum til að bjóða viðskiptavinum sínum fullbúna rafknúna steypubíla og steypudælur. Við erum afar spennt fyrir áframhaldandi samstarfi með Steypustöðinni í því að móta umbreytingu sjálfbærra lausna fyrir framtíð byggingariðnaðarins“ segir Patrick Hildenbrand, vörustjóri Putzmeister iONTRON.
„Við hjá Rúko hf, sem umboðsaðili Putzmeister erum ótrúlega glöð og spennt með ákvörðun Steypustöðvarinnar að vera fyrst til að ganga frá kaupum á 100% rafknúnum steypubíl og tvinndælu frá Putzmeister. Við viljum óska Steypustöðinni til hamingju með þetta risastóra skref og hlökkum til samstarfsins“ segir Kristófer S. Snæbjörnsson Sölustjóri Rúko hf.