Hreinlætistæki – Engin tæki eru eilíf

Grein/Linkur: Engin tæki eru eilíf

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

blondunartaki

Mars 2007

Engin tæki eru eilíf

Hvað er að gerast, er furða þó spurt sé. Eftir vel heppnaða salernisferð með ágætt lesmál í hendi, segjum Moggann, er sturtað niður. Og hvað gerist? Að sjálfsögðu spúlast vatnið niður í skálina eins og venjulega en þá er ekki öll sagan sögð. Upp af salernisskálinni stígur gufa, það fer ekki á milli mála að vatnið sem úr skolkassanum kemur er heitt, mjög heitt. Sumir líta í eigin barm eða á eigið skinn öllu heldur og spyrja sjálfa sig, orsakaði ég þetta með því að setjast á klósettið? Já, fyrr mætti nú varmagjöfin vera frá eigin kroppi ef svo væri og öruggt að svo er ekki. En það er enginn vafi, vatnið sem streymdi í klósettskálina var heitt, mjög heitt.

Þetta er nokkuð sem hefur gerst í stórum húsum sem smáum á undanförnum árum.

Svo rammt hefur kveðið að þessu að stundum hefur heitt vatn komið jafnt úr heitum krönum sem köldum í stórum sambýlishúsum. Hafi það ekki gerst hjá þér þá er ágætt að hver og einn þekki orsökina og einnig hvernig bregðast skal við.

sturtaOrsökin er í flestum tilfellum tæki sem er í miklu uppáhaldi allra á heimilinu, tæki sem veitir ánægju og þægindi. Hver þekkir það ekki að standa undir vatnsbununni í sturtunni og finna hæfilega heitt vatn hvelfast um líkamann. Þökk sé sjálfvirka, hitastýrða blöndunartækinu, fallega formuðu og gljáandi krómhúðuðu.
En oftast er það þetta ágæta tæki sem er orsök vandans, orsakar það að heitt vatn er komið í klósettkassann. Að sumu leyti er ósanngjarnt að segja að það sé tækinu að kenna. Ef fíni bíllinn á heimilinu bræðir úr sér er það ekki bílnum að kenna heldur eigandanum. Hann fer aldrei með hann á smurstöð, lætur aldrei skipta um smurolíu né hirðir um að bæta slíkri olíu á vélina. Þess vegna fór sem fór, annars ágætur bíll er með skemmda vél. Eins er það með þetta ágæta tæki sjálfvirka, hitastýrða blöndunartækið sem stillir svo nákvæmlega hitann á vatninu sem úr sturtuhausnum kemur. Það er farið út í verslun og tækið keypt (ekki verslað!) tækið tengt og síðan notað með ágætum árangri. Og þarna er það í sturtunni næstu árin, jafnvel áratug. Þá getur komið fyrir að tækið sinnir ekki sínu hlutverki og verður vanstillt eins og gamall tarfur, setur hnýflana í nakta húðina með misjafnlega heitum gusum, stundum köldum og það sem verra er, stundum hættulega heitum.

Þetta er ekki tækinu að kenna heldur vantar þá umhirðu sem öll eða flest tæki þurfa, hvort sem það eru blöndunartæki eða bíll.

Það er kannski of flókið að fara að rekja orsakakeðjuna, en hættum okkur aðeins inn í þann frumskóg. Inn í flest hús koma tvær vatnsleiðslur, önnur fyrir kalt vatn, hin fyrir heitt. Kalda og heita vatnið kvíslast um húsið, hvort eftir sínu lagnakerfi. Áður fyrr enduðu lagnirnar í tækjum þar sem hægt var að opna fyrir annaðhvort heitt eða kalt vatn, eða blanda því saman, loka síðan og þá var enginn samgangur á milli vatnskerfanna. En á hitastýrða blöndunartækinu er eitt handfang sem opnar bæði fyrir heitt og kalt vatn, svo annað þar sem hægt er að stilla hve heitt vatnið á að vera. En þegar lokað er fyrir eftir notkun er aðeins verið að loka fyrir blandaða vatnið út úr tækinu, það er ekki lokið fyrir kalt vatn annars vegar og heitt hins vegar. Í tækinu eru einstreymislokar eða blöðkur sem eiga að tryggja að heitt vatn renni ekki út í kalda kerfið eða öfugt. En með tímanum verða þessir einstreymislokar óþéttir og þá getur ýmislegt gerst svo sem að það fer að rjúka gufa upp úr klósettkassanum.

Yfirleitt er meiri þrýstingur á inntaki heita vatnsins, þess vegna þröngvar það sér oftar út í kaldavatnskerfið ef möguleikinn er fyrir hendi.

Sjálfvirku hitastýrðu blöndunartækin þarf að hreinsa á nokkurra ára fresti minnst og endurnýja einstreymislokana. Sá sem er búinn að nota slíkt tæki árum saman ætti ekki að verða hissa þó volgnaði í klósettinu. Í stóru fjölbýlishúsi þarf ekki nema „einn gikk í veiðistöðinni“ það þarf ekki nema eitt blöndunartæki með millirennsli til að hafa áhrif í öllum eða flestum íbúðum.

Það tæki verður að finna, hreinsa það og endurnýja eða einfaldlega kaupa nýtt.

Það var bót að fjöleignahúsalögunum þegar þau voru samþykkt, en þau þarf að endurskoða og endurbæta. Eitt af því sem þar þarf að setja inn er að eftirlit og endurbætur á sjálfvirkum blöndunartækjum sé á forræði húsfélagsins, þau eru nánast valdalaus til að taka á þeim vanda sem hér hefur verið lýst.  

Fleira áhugavert: