Rétt virkjað vatn – Lífsgæði, góð heilsa

Grein/Linkur: Rétt virkjað vatn skapar lífsgæði og góða heilsu

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

Vatn er undirstaða lífsins

Eftirvænting Í Eþíópíu er búið að bora niður í grunnvatn og setja dælu og búnað í borholuna, bráðum er hægt að fá heilnæmt og silfurtært vatn.

.

September 2008

Rétt virkjað vatn skapar lífsgæði og góða heilsu

Monsúnrigningar í Asíu steypa gífurlegu vatnsmagni yfir víðáttumikil landsvæði á Indlandi og Bangladess um þessar mundir. Ætla mætti að drykkjarvatn væri ekki af skornum skammti á slíkum svæðum þar sem fólk og fénaður hefur flúið upp á allt sem stendur upp úr flaumnum. En því er ekki aldeilis að heilsa, þetta gífurlega vatnsmagn er mengað og lífshættulegt að drekka það.

Í Afríku er víða öðruvísi umhorfs. Steikjandi sólin þurrkar jörðina og hvergi er vatnsdropa að fá. Tært og gott drykkjarvatn er þó víðast hvar undir fótum manna, en vandinn er að nálgast það, til þess skortir tól, tæki og þekkingu.

Vatn er undirstaða lífsins 1Samtökin „Læknar án landamæra“ voru stofnuð til að hjálpa fátækum og frumstæðum þjóðum og eins og nafnið bendir til er þar að sjálfsögðu á oddinum að berjast gegn landlægum farsóttum og efla heilsugæslu svo sem hægt er. En þessi samtök eru meir og meir farin að vinna að tvennu; vatnsöflun og því að koma upp frumstæðum salernum. Þetta gera samtökin fyrst og fremst vegna þess að í þessu tvennu liggur grundvöllurinn að heilbrigðu lífi. Sá sem á kost á tæru og hreinu drykkjarvatni verður síður farsóttum að bráð og það bætir að öllu leyti hans líðan og heilbrigði. Þá er það ekki síður mikilvægt að menn gangi ekki örna sinna hvar sem er, ekki nálægt þeim fáu dýrmætu vatnsbólum sem til eru. Engin skal þó halda að fátækir íbúar þessara landa, sem margir hverjir lifa í flóttamannabúðum við hörmulegar aðstæður, fái afnot af vatnssalernum að vestrænni fyrirmynd. En það er svo mikið hægt að gera til vatnsöflunar og til að koma upp einfaldri salernisaðstöðu sem tryggir að drykkjarvatnið mengist ekki. Reglan er sú að við slíkar frumstæðar aðstæður séu salernin aldrei nær vatnsbólum en 30 metra, en víða gerir fólk sér ekki grein fyrir hættunni af því að vatnsból og salerni eru í of mikilli nálægð.

„Læknar án landamæra“ áætla að hver einstaklingur þurfi 12 – 15 lítra af hreinu vatni daglega til að fullnægja sínum þörfum til drykkjar, matargerðar og hreinlætis. Frá þessari reglu verður þó oft að víkja því oft er nauðsynlegt að tryggja sem flestum vatn. Lágmarkið er þó ætíð 3 – 4 lítrar. Öruggasta leiðin til að fá hreint vatn er að bora niður í grunnvatnið, sem víðast hvar er finnanlegt, en til þess þarf að vinna með sérhæfðum tækjum. Þau skortir oft og það þarf einhverja með þekkingu til að leiða verkið. Að borun lokinni er sett upp einföld handdæla sem nær upp þessum lífsins vökva, það getur bjargað heilum byggðarlögum eða stórbætt lífið í einhverjum af hinum hörmulegu flóttamannabúðum sem því miður eru til í Afríku, Mið-Asíu og víðar.

En hvers vegna að fjasa um það sem er að gerast í fjarlægum löndum, eigum við ekki að líta okkur nær. Það er víst nauðsyn að okkur Íslendingum sé bjargað fá okkur sjálfum, frá því að við virkjum og notum okkar orku sem er falin í jörðu. Hingað flykkjast á hverju sumri hópar ungs fólks frá öðrum löndum til að bjarga okkur og fá lítið annað en vanþakklæti í staðinn. Athygli vekur að þessir fórnfúsu einstaklingar koma hingað til lands aðeins um hásumar, aldrei að vetrarlagi. Jafnvel þá þurftu margir úr þessum hópi að flýja suddann og hráslagann í Svínahrauni til höfuðborgarinnar í hlýjuna frá Nesjavallavirkjun.

Gæti verið að það væri meiri þörf fyrir fórnfúst starf þessa unga fólks í Afríku eða Asíu þar sem fólk hefur ekki hreint vatn til drykkjar, ekki frumstæðustu fæðu til að seðja hungur sitt og tæplega klæði á kroppinn?

En þá má búast við að þessir fórnfúsu hópar yrðu að leggja meira á sig og aðstæðurnar væru öllu verri, ekki alltaf hægt að flýja í þægindi ef lífið verður of erfitt.

Og ekki líklegt að sjónvarpsstöðvar og grunnhyggnir fréttamenn séu innan seilingar til að segja frá. Hvað vestrænir auðnuleysingjar eru mikið hugsjónafólk.

Fleira áhugavert: