Olíusandur – Bjargvættur USA, hryllingur Kanada
Grein/Linkur: Olíusandur
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Mars 2009
Olíusandur
„Bjargvættur Bandaríkjanna“ væri e.t.v. betri titill á þessar færslu. Eða kannski „Hryllingurinn í Kanada„. Olíusandurinn í óbyggðum Kanada er nefnilega allt í senn; bjargvættur olíuþyrstra Bandaríkjamanna og um leið orsök hroðalegra umhverfisspjalla í hinum ósnortnu kanadísku víðernum.
Það hefur stundum verið minnst á kanadíska olíusandinn hér á Orkublogginu – en einungis í framhjáhlaupi. Það er orðið löngu tímabært að gera þessum óvenju subbulega en athyglisverða iðnaði gleggri skil.
Tilefni þessarar færslu? Auðvitað það að í gær var tilkynnt um að Suncor Energy, sem er eitt stærsta olíufélagið í Kanada, er að kaupa Petro Canada. Þ.á m. eru hinar geggjuðu olíusandsauðlindir þeirra Petrómanna.
Þetta eru nokkuð mikil tíðindi. Fyrir vikið mun Suncor-samsteypan líklega stækka um 50%. Kaupverðið er sagt nema sem samsvarar um 15 milljörðum bandaríkjadala. Kaupin eru sem sagt enn að gerast á eyrinni – þrátt fyrir lánsfjárkreppu og annað leiðindavesen. A.m.k. er fjörið ekki alveg búið vestur í Kanada. Já – Kanada er málið eins og Orkubloggarinn hefur áður hamrað á.
Áður en lengra er haldið er rétt að nefna eina skemmtilega þverstæðu: Ekki er ólíklegt að eftir fáein ár muni Bandaríkjamenn standa allra þjóða fremst í framleiðslu á rafmagni frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Þar mun hlutfall grænu orkunnar m.ö.o. aukast hvað hraðast. En á sama tíma munu Bandaríkin líka stuðla að einhverjum mestu umhverfisspjöllum og umhverfismengun nútímans. Með því að verða helsti kaupandinn að olíu, sem unnin verður úr olíusandinum í Kanada og Venesúela.
Þörf Bandaríkjamanna á innfluttri olíu eykst nokkuð hratt, vegna minnkandi framleiðslu þeirra sjálfra. Þeir þurfa sífellt meira af innfluttri olíu. Ekki síst frá hinum góða nágranna; Kanadamönnum.
Æ stærri hluta af þeirri olíuþörf verður mætt með vinnslu úr olíusandi. Það er olíuvinnslu þar sem skógi vöxnum óbyggðum er umbreytt í olíuleðjugraut af verstu gerð. Þetta mun einfaldlega gerast. Hvað sem líður öllum góðum vilja pólitíkusa og almennings um umhverfisvernd. Og þrátt fyrir háleit markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Olían frá kanadíska olíusandinum er bæði fjárhagslega hagkvæm og dregur úr þörf Bandaríkjanna á enn meiri innflutningi á olíu frá Mið-Austurlöndum. Ekkert mun geta stöðvað þessa „framþróun efnahagslífsins“. Olían úr kanadíska olíusandinum borgar sig nefnilega. Um leið og olíuverðið skríður á ný yfir 50 dollara eða svo, er olíuvinnsla úr olíusandi að skila prýðilegum hagnaði til olíufélaganna.
Þess vegna er olíusandurinn stórmál. Samt munum við sennilega ekki verða mjög svo vör við þennan sóðaskap. Því glanstímaritin og sjónvarpsstöðvarnar munu almennt ekki veita þessum afskekkta iðnaði mikla athygli. Þess í stað verða fjölmiðlarnir uppfullir af frásögnum um „stórkostlegar framfarir í endurnýjanlegri orku“.
Stóru olíufélögin munu birta heillandi heilsíðuauglýsingar í blöðum og tímaritum og smart sjónvarpsauglýsingar með fallegum, hvítgljáandi vindtúrbínum og glampandi sólarsellum. Sem verða táknmynd fyrir hvort sem er Chevron, BP eða Shell. En á sama tíma munu bæði hin afskekktu barrskógasvæði Kanada og heimaslóðir jagúarsins á Orinoco-vatnasvæðinu í Venesúela, smám saman breytast í mengaða forarpytti. Fyrir tilverknað olíueftirspurnarinnar frá Vesturlöndum.
En hvað er olíusandur? Sennilega er best að þú, lesandi góður, ímyndir þér baðkar fullt af samanklístraðri sanddrullu sem olíu hefur verið hellt yfir. Þetta er reyndar alls ekki nákvæm samlíking. En gefur smá hugmynd.
Olíusandurinn í Kanada varð til fyrir milljónum ára þegar hreyfingar landmassans ollu því að gríðarmikil lífræn setlög blönduðust saman við sendinn jarðveginn. Sumstaðar liggur þessi olíusandur í yfirborðsjarðvegi og er einfaldlega mokað upp með stórvirkum vinnutækjum. En víðast hvar er hann á nokkru dýpi undir yfirborðinu. Þá er olían sótt með því að skafa fyrst hressilega ofan af yfirborðinu, bora svo niður og dæla þangað brennheitri vatnsgufu sem losar olíuna frá sandinum – svo unnt sé að dæla henni upp á yfirborðið.
Það er ekki mjög flókið að vinna olíuna úr olíusandinum. Lykilatriðið er hiti. Mikill hiti. Einungis þarf að ná drullunni upp og hita hana hressilega til að ná olíunni; aðskilja hana frá sandinum.
Til að geta höndlað olíusandinn er óhemju miklu af vatni dælt niður í sandinn og því blandað saman við hann. Að því búnu er þessu svo dælt upp á yfirborðið. Þegar sandolíugumsið er komið upp þarf að beita það enn meiri hita og miklum þrýstingi til að „kreista“ olíuna úr drullunni. Hitinn sem til þess þarf er um 900 gráður á celsius.
En þó að þetta sé fremur einfaldur prósess, er þetta rándýrt. Því til að aðskilja olíuna frá sandinum þarf gríðarlegan hita – mikla orku.
Til að nálgast olíusandinn er beitt tröllauknum skurðgröfum, sem eru með skóflu á við 4ra-5 hæða blokk. Fyrst þarf þó auðvitað að fella barrskóginn á svæðinu. „Naturen – det billige skidt – skal udryddes„, eins og arkitektinn ljúfi sagði í einni Ástríkisbókinni sem ég las sem stubbur í Köben hér í Den.
Menn hafa lengi vitað af olíusandinum í Kanada. En hann varð ekki spennandi til vinnslu fyrr en ljóst var að olíuverð undir 30 dollurum var að verða sagnfræði. Þess vegna eru aðeins um 10 ár síðan það varð efnahagslega hagkvæmt að fara í þessa tegund af olíuvinnslu. Fram að því hafði olíusandurinn að mestu legið óáreittur.
Reyndar notuðu indíánar olíusand til að þétta kanóana sína á tímum síðasta Móhíkanans. En mest alla 20. öldina þótti þetta heldur gagnlaus auðlind – meira upp úr því að hafa að þræða kyrrláta skógana og reyna að veiða bjóra í gildrur.
En nú er öldin skyndilega önnur. Þó svo þessi olíuvinnsla sé mjög dýr, er hún allt í einu orðin arðsöm. Þegar olíuverðið fór að skríða yfir 30 dollara tunnan, fóru olíufélögin skyndilega að finna peningalykt frá víðáttumiklum barrskógasvæðunum í Albertafylki í Kanada. Síðustu 10 árin hefur þessi vinnsla aukist hratt. Olíusandurinn er nútímagullæði í Kanada. Og trúið mér – það æði er bara rétt að byrja.
Til að gefa hugmynd um hversu dýr vinnslan er, er ágætt að hafa í huga hversu orkufrekur þessi iðnaður er í samanburði við hefðbundna olíuframleiðslu. Í hefðbundinni olíuvinnslu er hlutfall orkunnar sem olían skilar á móti orkunni sem fer í að sækja hana, oft u.þ.b. 1:10. Þegar um olíusand er að ræða er þetta hlutfall allt annað og helmingi óhagkvæmara eða nálægt 2:10. Til einföldunar má lýsa þessu sem svo að í hefðbundinni olíuvinnslu þarf oft einungis 1 lítra af olíu til að sækja 10 lítra úr jörðu. En það þarf helmingi meiri orku eða um 2 lítra af olíu til að vinna 10 lítra af olíu úr olíusandi. Og þá er bara verið að tala um orkuna sem fer í vinnsluna, en ekki annan kostnað.
Orkan sem þarf til að ná olíunni úr olíusandinum, er fengin frá gasi. Þess vegna má segja að í þessari olíuvinnslu séu menn að nota hreinasta jarðefnaeldsneytið (gas) í það að vinna einhverja sóðalegustu og mest mengandi olíu heimsins. En allt skilar þetta peningalegum hagnaði á endanum, skapar mikið af nýjum störfum og þess vegna brosa flestir Kanadamenn breitt yfir þessari hagkvæmu auðlind.
Þetta er sem sagt góður bissness. Að vísu er svolítið súrt, að til að ná olíunni úr sandinum þarf ekki bara að eyða mikilli orku – heldur líka skafa upp a.m.k. tveimur tonnum af sandi til að geta unnið eina skitna tunnu af olíu.
Enn verra er að frá vinnslunni rennur mikið vatn mengað af ammoníaki og brennisteinssýru, auk annarra mengandi efnasambanda. Til að koma í veg fyrir að mengunin dreifist út um flatlendið, eru útbúnar sérstakar tjarnir eða vötn til að geyma mengaða vatnið. Eina vesenið er að fuglar á svæðinu eru eitthvað slappir í lestri og átta sig ekki á viðvörunarskiltunum. Og svífa því þreyttir og sælir niður að tjörnunum – sem er um leið dauðadómur þeirra.
Sjálf olían fer aftur á móti beint í olíuleiðslur sem liggja suður á bóginn og yfir landamærin til Bandaríkjanna. Og allt er þetta þýðingarmikill hluti af æpandi efnahagsuppganginum í Alberta-fylki í Kanada. Þessi iðnaður hefur líka reynst mikill happdrættisvinningur fyrir atvinnulausa Kanadamenn frá austurhéruðunum. Þessi tvíræða dásemd, sem olíusandurinn er, hefur sem sagt stuðlað að því sem kallað hefur verið hagvöxtur.
Og þó svo olíuframleiðsla af þessu tagi sé enn einungis örlítið brot af allri þeirri olíu sem unnin er, þá er allt STÓRT sem tengist olíusandi. Trukkarnir og skurðgröfurnar sem notaðar eru við þessa vinnslu eru risastór tæki, enda þarf að moka upp og velta óhemju magni af jarðvegi fyrir hverja fáeina olíudropa.
Það almagnaðasta við olíusandinn er ekki endilega subbuleg vinnsluaðferðin. Heldur magnið! Þegar menn skoða ca. 5 ára gamlar tölur yfir olíubirgðir heimsins er Kanada svo sem ekkert sérstaklega, rosalega áberandi á þeim listum. En í kringum 2003 tóku menn að áætla hversu mikil olía er í olíusandinum og telja hana með „proven reserves“. Og bara olíusandurinn í Albertafylki varð til þess að skyndilega skaust Kanada upp í 2. sætið yfir þau lönd sem búa yfir mestu olíubirgðum í heiminum. Einungis Sádarnir eru taldir eiga meiri olíubirgðir en kanadísku ljúflingarnir.
Í dag hljóða tölurnar þannig að Saudi Arabía hefur nú að geyma um 270 milljarða tunna og Íran er í þriðja sæti með um 140 milljarða tunna. Í öðru sætinu er Kanada með um 180 milljarða tunna. Og af þessum 180 milljörðum tunna af olíu lúra um 95% í olíusandinum í Albertafylki!
Já – þetta netta svæði í Kanada á svo sannarlega eftir að blómstra efnahagslega – ef olían fer brátt að hækka í verði á ný. En minnumst þess líka að það tók Alberta áratug að jafna sig eftir áfallið mikla, þegar olíuverð hrundi upp úr 1980 og fór undir 20 dollara á síðari hluta 9. áratugarins. Framtíðin er alltaf óviss!