Eni – Eitt stærsta orkufyrirtæki í heimi

Grein/Linkur: Bettino, prendi anche queste!

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Bettino, prendi anche queste!

Eni_logo_3Ítalska ofurfyrirtækið Eni er eitt stærsta orkufyrirtæki í heimi. Afkvæmið hans Enrico Mattei – sem margir telja að CIA eða leigumorðingjar hafi komið fyrir kattanef. Af því hann keypti olíu af Sovétmönnum og virtist jafnvel ætla að komast fram fyrir bandarísku olíufélögin í keppninni um olíuna frá bæði Írak og Persíu (Íran). En hér ætlar Orkubloggið ekki að fjalla um Mattei, heldur beina athyglinni að niðurlægingu Eni í upphafi 10. áratugarins.

Stundum er sagt að vald spilli. Og eftir því sem Eni varð valdameira jókst spilling innan fyrirtækisins. En hún fór hljótt – þó svo kannski hafi öll ítalska þjóðin vitað að eitthvað gruggugt hlyti þarna að eiga sér stað.

Árið 1992 hófst rannsókn á fjármálaóreiðu, sem tengdist heldur ómerkilegum ítölskum stjórnmálamanni. Um sama leyti var Eni í nokkrum kröggum vegna geggjaðrar skuldsetningar. Og viti menn – þá kom í ljós að Eni og ítalskir stjórnmálamenn voru tengdir með svolítið ógeðfelldari hætti en nokkur hafði látið sér til hugar koma. Nú opnuðust skyndilega rotþrær einhverjar mestu spillingar og mútugreiðslna sem sögur fara af í Vestur-Evrópu og þótt víðar væri leitað. Og spilaborgin hrundi.

Antonio Di Pietro

Antonio Di Pietro

Það má líklega segja að ítalski rannsóknadómarinn Antonio Di Pietro eigi mesta heiðurinn af því að fletta ofan af hinni ömurlegu pólitísku spillingu sem ítalska valdakerfið var gegnsósa af. Þessi fátæki bóndasonur skaust þarna upp á stjörnuhiminn réttlætisins og átti síðar eftir að hella sér útí stjórnmál.

Þar hefur hann verið mikill boðberi þess hversu varasamt sé að stjórnmálamenn geti sífellt sóst eftir endurkjöri og þannig orðið fastir á jötunni. Það leiði í besta falli til þess að þeir verði værukærir, en í versta falli gjörspilltir. Á síðustu árum hefur Di Pietro átt í miklum útistöðum við nýja yfirskíthælinn í ítölskum stjórnmálum- Silvio Berlusconi – en það er önnur saga.

Rannsókn Di Pietro upp úr 1990 opnaði flóðgáttir og leiddi til þess að flestir æðstu stjórnendur Eni voru handteknir. Síðar kom í ljós að mútuþægnin, hagsmunapotið og spillingin teygði sig meira og minna um allt valdakerfið og stóran hluta viðskiptalífsins á Ítalíu.

Di Pietro þrengdi fljótlega hring sinn um höfuðpaurana og nú fóru menn að ókyrrast verulega. Þegar ekki tókst að þagga málið niður og handtökur hófust, greip um sig örvænting í ormagryfjunni. Afleiðingarnar urðu hörmulegar; margir auðugustu og valdamestu manna á Ítalíu kusu að láta sig hverfa endanlega af þessu tilverusviði. Segja má að alda sjálfsmorða hafi gengið yfir æðstu klíku ítalskra embættismanna og viðskiptajöfra.

Í júlí 1993 fannst Gabriele Cagliari, fyrrum forstjóri Eni, kafnaður í fangaklefa sínum – með plastpoka um höfuðið. Cagliari sætti þá ákærum um stórfelldar mútur og hafði setið í varðhaldi í nokkra mánuði.

gardini

gardini

Og örfáum dögum seinna skaut Raul Gardini höfuðið af sér í 18. aldar höllinni sinni í Mílanó. Það sjálfsmorð vakti smávegis athygli, enda var Gardini yfir næststærstu iðnaðarsamsteypu á Ítalíu – Ferruzzi Group. Fyrirtæki Gardini's var einfaldlega allt í öllu í ítölskum iðnaði (einungis Fiat-samsteypan hans Gianni Agnelli's var stærri en viðskiptaveldi Gardini – og enginn meiriháttar sóðaskapur sannaðist á Agnelli).

Þetta var auðvitað sorglegur endir á ævi mikils merkismanns. Fáeinum mánuðum áður hafði Gardini baðað sig í dýrðarljóma, þegar risaskútan hans – Il Moro di Venezia – náði frábærum árangri í America's Cup. Já – mikil veisla fyrir Orkubloggið sem bæði dýrkar siglingar og olíu.

Allt var þetta angi af hinni algjöru pólitísku spillingu á Ítalíu – Tangentopoli – sem náði bæði til kristilegra demókrata og sósíalista. Auk margslunginna mútumála, stórra sem smárra, snerist kjarni þessa máls í raun um greiðslur frá fyrirtækjum til stærstu stjórnmálaflokkanna.

Kannski má segja að hrun þessarar gjörspilltu klíku hafi náð hámarki þegar Bettino Craxi, sem verið hafði forsætisráðherra Ítalíu 1983-87, var tekinn til yfirheyrslu og ákærður.

craxi_coins

craxi_coins

Dentro Bettino, fuori il bottino!“ Inn með Bettino, út með þýfið, hrópaði ítalskur almenningur um leið og fólkið lét smápeningum rigna yfir Craxi. Hvar hann skaust milli húsa með frakkann á öxlunum. Ítalir eru ýmsu vanir en viðurstyggilegt siðleysi Craxi's varð til að þjóðinni ofbauð. Og þegar smápeningarnir skullu á skallanum á Craxi, söng fólkið „prendi anche queste!“. Hirtu þessa líka!

Craxi flúði land – slapp undan réttvísinni til Túnis 1994. Hann snéri aldrei heim aftur, enda beið hans þar 10 ára fangelsisdómur. Það ótrúlega er nefnilega, að þrátt fyrir allt er til réttlæti á Íslandi… á Ítalíu vildi ég sagt hafa. En það má kannski segja að það hafi einmitt verið öll þessi upplausn sem kom Berlusconi til valda á Ítalíu. Sem var kannski ekki besta þróunin.

craxi_dead

craxi_dead

Craxi lést í sjálfskipaðri útlegð sinni í Túnis, í janúar árið 2000. Hann viðurkenndi aldrei neina sök; sagði greiðslurnar hafa verið hluta af hinum pólitíska veruleika og hann ekki verið neitt verri í því sambandi en aðrir ítalskir stjórnmálamenn.

Enda eru mútur þess eðlis, að oft er auðvelt að horfa fram hjá raunveruleikanum. Greiðslurnar verða hluti af venjubundinni vinsemd eða jafnvel sjálfsagður hluti af áratugalangri venju í samskiptum viðskiptalífs og stjórnmálamanna.

Svo þegar aðrir komast yfir upplýsingar um greiðslur af þessu tagi, er svarið jafnan hið sama: „Jamm, kannski var þetta óheppilegt. En þetta hafði auðvitað engin áhrif á ákvarðanir flokksins eða stjórnmálamannanna!“

craxi_berlusconi_2

craxi_berlusconi

Bettino Craxi fannst hann ekki hafa gert neitt rangt. En ítalska þjóðin var nokkuð einhuga í sinn afstöðu og Craxi uppskar það að verða einhver fyrirlitnasti sonur Ítalíu.

Ítalir þráðu breytingar og í stað Craxi fékk þjóðin gamlan viðhlæjanda hans; Silvio Berlusconi. Forza Italia! Kannski var þarna bara farið úr öskunni í eldinn?

Fleira áhugavert: