Rússar loka á Evrópu – Orkukreppa, loftslagmarkmið úti, efnahagslægð

Grein/Linkur: Orkukreppa er í Evrópu

Höfundur:Þorvarður Pálsson, Fréttablaðinu

Heimild:

.

.

September 2020

Orkukreppa er í Evrópu

Fram undan er erfiður vetur í Evrópu. Vegna viðskiptaþvingana sem settar hafa verið á Rússa sökum innrásar þeirra í Úkraínu hafa þeir skrúfað fyrir flutning á gasi til Evrópu og því þurfa ríki að horfa til annarra leiða til að fullnægja orkuþörf álfunnar.

Árið 2020 voru um 40 prósent gass sem notað var í Evrópu frá Rússlandi og samkvæmt Eurostat eru um 70 prósent raforkuframleiðslu í Evrópusambandinu (ESB) með jarðefnaeldsneyti.

Hlutur kola í orkuframleiðslu jókst um 10 til 15 prósent í fyrra þegar gas var af skornum skammti vegna mikilla kulda í Evrópu og gera má ráð fyrir að aukningin verði enn meiri á þessu ári. Stærstu kolaframleiðendur álfunnar, Þýskaland og Pólland, auka hana nú og Austurríki og Holland ætla að gera slíkt hið sama. Þjóðverjar, sem reitt hafa sig á ódýrt rússneskt gas til að knýja iðnað landsins, endurræsa nú kolaver til að bæta upp fyrir gasskortinn. Liz Truss, nýr forsætisráðherra Bretlands, vill auka gasframleiðslu í Norðursjó til að tryggja orkuöryggi.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, lýsti því yfir í gær að komið yrði á „lögbundnum takmörkunum á raforkunotkun á álagstíma“ til að „fletja kúrfu“ raforkunotkunar í ríkjum ESB.

Í fyrra lýsti sambandið því yfir að það yrði kolefnishlutlaust árið 2050 og í maí var hulunni svipt af REPowerEU, aðgerðaáætlun ESB í grænni orkuframleiðslu. Markmiðið er að 45 prósent orku í sambandinu verði framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. „Efnahagur byggður á jarðefnaeldsneyti hefur náð hámarki,“ sagði von der Leyen í fyrra.

Nú þegar skrúfað er fyrir gasið er erfitt að standa við þessi markmið. Evrópa stendur frammi fyrir því að þurfa að mæta orkuþörf strax og því þarf að horfa til aukinnar notkunar jarðefnaeldsneytis.

Samkvæmt hugveitunni Ember Climate stefnir í að stjórnmálamenn í Evrópusambandsríkjum eyði um 50 milljörðum evra í fjárfestingar í vinnslu jarðefnaeldsneytis, stjórnmálamenn sem lýstu því yfir fyrir ári að framtíðin væri græn. Auk þess verður ráðist í björgunaraðgerðir af svipaðri stærð og eftir fjármálakreppuna 2008 til að hlífa neytendum við miklum hækkunum rafmagnsreikninga.

Ríkin átta við Eystrasaltið ætla að stórauka raforkuframleiðslu með vindorku og vinna meira saman að því markmiði. Á fundi ríkjanna í lok ágúst fullyrti von der Leyen að mæta mætti allri orkuþörf ríkjanna með vindorku árið 2030. „Eins lengi og við treystum á jarðefnaeldsneyti erum við berskjölduð,“ sagði danski forsætisráðherrann Mette Fredriksen. Aukin vindorkuframleiðsla á næstu árum leysir þó ekki vandann sem nú steðjar að.

Hagsmunaaðilar og stjórnmálamenn víða í álfunni berjast nú fyrir því að gasvinnsla með vökvabroti (e. fracking) hefjist í stórum stíl til að takast á við orkukreppuna. Hún er bönnuð í mörgum Evrópuríkjum en Ungverjar hafa ákveðið að hefja vökvabrotsvinnslu. Bandaríkin stunda vinnslu með vökvabroti af krafti og hafa dregið mjög úr innflutningi á olíu þökk sé því.

Vökvabrot er gríðarlega mengandi og í rannsókn Cornell-háskóla frá 2019 kom fram að það væri valdur að meira en helmingsaukningu á útblæstri frá framleiðslu jarðefnaeldsneytis áratuginn á undan. Dæmi eru um að slík vinnsla valdi jarðskjálftum en hún útheimtir mikið af vatni og mengar grunnvatn sem rannsóknir benda til að auki líkur á hvítblæði hjá börnum.

Evrópusambandið leitar á náðir Norðmanna

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ræddi í gær við Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, um orkumál í Evrópu. Í færslu á Twitter-síðu sinni skrifaði von der Leyen að Norðmenn hefðu aukið gasframleiðslu sína handa Evrópu og að Noregur væri „sannkallað akkeri fyrir orkuöryggi Evrópu“.

Frá því að Rússar skrúfuðu fyrir gasflutninga til Evrópu hefur Noregur tekið fram úr Rússlandi sem stærsti innflytjandi á gasi til Evrópu. Evrópuríkin hafa viðrað möguleikann á því að setja verðþak á gasi til þess að gera orkuverðið viðráðanlegra í vetur. Í viðtali við The Financial Times sagði Støre að Noregur útilokaði ekki slíkar fyrirætlanir en varaði ESB við aðgerðum sem kynnu að ógna framboðsöryggi í aðdraganda vetrar.

Fleira áhugavert: