Rafmagnsframleiðsla með veltitönkum
Grein/Linkur: Framleiðir rafmagn í veltitönkunum
Höfundur: Viðskiptablaðið fiskifréttir
.
.
Ágúst 2018
Framleiðir rafmagn í veltitönkunum
Enova, stofnun í eigu loftslagamála- og umhverfisstofnunar Noregs, hefur veitt 7 milljóna NOK styrk, 91 milljónir ÍSK, til nýrrar, umhverfisvænnar tækni um borð í Libas, sem verður fyrsta fiskiskip Noreg sem knúið verður jafnt fyrir rafmagni, metangasi og dísilolíu. Skipið er eitt af þremur nýsköpunarverkefnum sem tilnefnd eru til verðlauna á NorFishing sjávarútvegstæknisýningunni í Þrándheimi sem nú stendur yfir.
Libas verður fyrsta fiskiskipið sem verður með aðalvél sem gengur að 95% fyrir metangasi, LNG, en hún getur einnig brennt dísilolíu. Aðalvélinni er ætlað að sjá skipinu fyrir orkutoppum en það verður rafknúið við þegar minni þörf er fyrir orku. Ein af aukavélunum getur einnig skipt úr brennslu metangass yfir í dísilolíu þegar þörf er fyrir meiri orku, t.a.m. í illviðrum.
Rafgeymasamstæðan í skipinu er með orkurýmd upp á 500 kWh. Öll tæki, spil og vindur á þilfari verða rafknúnar sem dregur verulega úr eldsneytisnotkun.
Fiskiskipið verður ennfremur það fyrsta með nýrri gerð veltitanks sem framleiðir rafmagn.
„Tæknin er stórt skref fram á við og Libas sýnir að hún er orðin að markaðshæfri vöru. Í tönkunum verður til græn orka sem getur dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis í skipum,“ segir Ludvik Nyquist, forstjóri stofnunarinnar.
Túrbínur í tönkunum
Veltitankurinn sem framleiðir rafmagn kemur frá franska framleiðandanum GEPS Techno. Eins og aðrir veltitankar er hann fylltur sjó. Nýjungin felst í því að í hverjum enda tankanna er túrbína sem framleiðir rafmagn. Túrbínurnar framleiða rafmagn inn á rafgeymastæðurnar og stuðla að allt að 15% samdrætti í eldsneytisnotkun, u.þ.b. 80% samdrátt í köfnunarefnislosun og 24% minnkun CO2 losunar. Auk þess verður í skipinu gasknúinn knúinn ketill sem ásamt orkuendurheimt skilar rafmagni inn á rafgeymastæðurnar.
Þegar skipið veltur til hliðanna færist sjórinn til inni í tönkunum. Snigilrými í hvorum enda veltitanksins stýrir sjónum þó strax í öfuga átt við veltu skipsins og þetta dregur úr veltuhreyfingum. Í sniglinum myndast spíralstraumur sem snýr túrbínu og rafal. Veltitankurinn gegnir því tvíþættu hlutverki; annars vegar að draga úr veltu skipsins og hins vegar að framleiða rafmagn.
Tvær túrbínur verða í veltitönkum Libas sem hvor um sig getur framleitt 30 kW. Rafmagnið verður meðal annars nýtt til að lýsa upp skipið og knýja tæki og tól á þilfari.
Prófað í 2 ár í rannsóknaskipi
Veltitankurinn, sem kallast GSIRE, hefur verið prófaður í tvö ár á frönsku rannsóknaskipi. Ekki er gefið upp hvað veltitankur af þessu tagi kostar en samkvæmt upplýsingum GEPS Techno á það að taka fimm til sjö ár að greiða búnaðinn niður með minni olíunotkun.
GEPS Techno hefur hlotið viðurkenningar fyrir veltitankinn á tæknisýningum. Hann verður afhentur tyrknesku skipasmíðastöðinni Cemre sem smíðar Libas í apríl á næsta ári.
Veltitankurinn verður klæðskerasniðinn fyrir hvert skip fyrir sig. GEPS Techno gerir útreikninga á nauðsynlegri stærð túrbínu og magni vatns í tönkunum út frá stærð skipsins, staðsetningu tanksins og veltutíðni.
Nýr Libas verður 86 metra langur og 17,80 metra breiður og er hannaður af Salt Ship Design.
Ole Christer Lie, skipstjóri Libas, segir smíðatímann tvö ár og kostnað rúmlega 300 milljónir NOK, tæpa 4 milljarða ÍSK.