Ofnhitakerfi – Ráðleggingar
Grein/Linkur: Hitapunktar
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Júní 1995
Hitapunktar
Ef fleiri en einn ofn eru í sama herbergi, eiga þeir að vera með sömu stillingu. Þá nýtist varminn í vatninu bezt. Ef hækkað er eða lækkað á einum, á að gera það á þeim öllum.
Sjálfvirkir ofnlokar eru hita stillar. Þessvegna á aldrei að nota þá eins og krana í vaski, annaðhvort lokaðir eða fullopnir. Ef það á að auka eða minnka hitann, færðu aldrei meira í einu en sem nemur 1/3 á milli talna. Það nægir í flestum tilfellum.
* Ef fleiri en einn ofn er í sama rými (stofa, herbergi) eiga þeir að vera með sömu stillingu, þá nýtist varminn í vatninu best. Ef hækkað er eða lækkað á einum, á að gera það á öllum.
* Þú kaupir vatnið u.þ.b. 75 stiga heitt. Það er þér í hag að það sé sem „kaldast“ þegar það rennur út úr ofninum. Í rauninni ertu ekki að kaupa vatn. Þú ert að kaupa varma.
* Loftræstu vel þegar þú gerir það, en aldrei lengi í einu. Láttu glugga aldrei standa opna þegar enginn er í herberginu (íbúðinni). Þá ertu að kaupa varma og henda honum ónotuðum.
* Ef þú ert með túrloka (sjálfvirkur loki á efri leiðslu að ofni) skaltu lækka stillinguna um eitt bil meðan þú loftræsir, færa hana síðan upp aftur.
* Ef þú ert með retúrloka (sjálfvirkur loki á neðri leiðslu frá ofni) máttu búast við misjöfnu hitastigi í íbúðinni. Retúrlokinn stýrist af hitastigi vatnsins, sem rennur frá ofninum og í gegnum lokann. Sérstaklega má búast við of miklum hita í sólbjörtu og kyrru veðri. Þá verður að breyta stillingu. Ef þú spennir upp alla glugga og svalahurðina líka ertu að henda varma sem þú þarft að borga. Svalahurðin er dýr hitastillir.
* Hitinn berst frá ofninum að mestu með hreyfingu lofts en að nokkru með geislun. Þess vegna má ekki hindra loftstrauminn með of lágum eða stórum sólbekkjum, þykkum gluggatjöldum, sem ná frá gólfi til lofts eða húsgögnum. Ef þú ert með túrloka getur orðið of heitt á hitanema ofnlokans. Hann lokar og kalt verður í stofunni (herberginu). Ef þú ert með retúrloka verður einnig kalt en ofnlokinn verður opinn áfram og vatnið rennur óhindrað út. SÓUN!
* Stillitölurnar á retúrlokanum (Danfoss að neðan) segja sína sögu. Ef hann er stilltur á 3 rennur vatnið 40 stiga heitt út. Það er slæm nýting. Reyndu að hafa hann ekki hærra stilltan en á 2, þá rennur vatnið 30 stiga heitt út.
* Stillitölurnar á túrlokanum (að ofan) vísa til lofthitans í herberginu. Sé „Danfoss“ stilltur á 3 reynir lokinn að halda 20 stiga hita í herberginu. Færsla á milli talna hækkar/lækkar hitann um 3 stig (t.d. stillt á 4 = 23 stig) Sambærileg tala fyrir „Tour & Anderson“ er 7 = 20 stig,. Færsla á milli talna hækkar/lækkar hitann um 2 stig (t.d. stillt á 8 = 22 stig)
* Rennslisstilling er mjög mikilvæg þegar notaðir eru sjálfvirkir ofnlokar, hvort sem það eru túrlokar (að ofan) eða retúrlokar (að neðan). Þó má segja að það sé enn mikilvægara þegar notaðir eru túrlokar, sem er sjálfsagt í stofum, herbergjum, skrifstofum, skólum og öðrum vinnustöðum. Litli ofninn á baðinu á ekki að fá eins mikið rennsli og stóri ofninn í stofunni.
* Allir ofnar eiga að skila vatninu nánast á sama hitastigi.
* Stillingu hitakerfis þarf að yfirfara á 3 ára fresti. Endurnýja þarf pakkningar í þrýstijafnara og slaufuloka á 6 ára fresti.
Það er sama hvort kerfið er nýtt eða gamalt; sjálfvirkir ofnventlar koma ekki að fullu gagni nema að kerfið sé rennslisstillt.